Njarðvíkingar fóru til Þorlákshafnar og tryggðu sér oddaleik

Mario Matasovic var besti maður vallarins í kvöld. Hann er …
Mario Matasovic var besti maður vallarins í kvöld. Hann er hér í leik gegn Stjörnunni í vetur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Njarðvík gerði góða ferð til Þorlákshafnar í kvöld en liðið lagði heimamenn í Þór, 90:84, í fjórða leik liðanna í 8-liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta í kvöld. Með sigrinum tryggði Njarðvík sér oddaleik á heimavelli sem fram fer á fimmtudagskvöld.

Njarðvíkingar mættu með bakið upp við vegg en Þórsarar gerðu góða ferð til Njarðvíkur í síðasta leik þar sem þeir stálu heimaleikjaréttinum með góðum útisigri.

Mikill hraði var í leiknum strax frá byrjun og voru flestar sóknir beggja liða í styttri kantinum. Menn voru oftar en ekki að velja fyrsta skotfærið sem gafst í hverri sókn sem varð til þess að boltinn gekk endanna á milli.

Heimamenn byrjuðu leikinn betur og voru töluvert kraftmeiri. Fotios Lamprapoulos og Jordan Semple voru að fara illa með gestina í frákastabaráttunni sem endaði með því að Benedikt Guðmundsson, þjálfari Njarðvíkur, tók leikhlé til að kveikja aðeins í sínum mönnum.

Eftir það færðist meiri kraftur í Njarðvíkurliðið og skiptust liðin á áhlaupum fram að hálfleik. Veigar Páll Alexandersson kom Njarðvík yfir með þriggja stiga körfu úr horninu í þann mund er hálfleiksflautan gall og leiddi liðið því með tveimur stigum í hálfleik, 41:39.

Baráttan var ekki minni í þriðja leikhluta og sást langar leiðir að mikið var í húfi. Heldur lítið var skorað en bæði lið voru að klikka á mikið af skotum. Áfram tóku þau þá smá áhlaup til skiptis og skiptust um leið á að hafa forystuna. Að loknum þriðja leikhluta leiddu gestirnir með einu stigi, 58:57, en annan leikhlutann í röð setti Veigar Páll niður risa stóra þriggja stiga flautukörfu.

Áfram var það sama uppi á teningnum í fjórða leikhlutanum en liðin skiptust á þessum stuttu áhlaupum og forystunni um leið. Þegar fimm mínútur voru eftir komust Njarðvíkingar fimm stigum yfir þegar Maciej Baginski og Mario Matasovic settu niður sitt hvora þriggja stiga körfuna. Var það mesta forysta gestanna í leiknum á þeim tímapunkti.

Þegar um tvær mínútur voru eftir af leiknum leiddu gestirnir með sex stigum. Darwin Davis fékk þá á sig óíþróttamannslega villu, sem jafnframt var hans fimmta villa og lauk hann því leik. Mario Matasovic, besti maður Njarðvíkur í leiknum, fékk ekki leyfi hjá Kristni Óskarssyni að taka vítaskotin sem hann fékk vegna þess að hann var með sár í andlitinu eftir brot Davis. Því fór Maciej Baginski á línuna en hann setti einungis annað vítaskotið niður. Hann hins vegar bætti upp fyrir það strax í næstu sókn, setti niður þriggja stiga skot og kom Njarðvík 10 stigum yfir þegar tæpar tvær mínútur voru eftir.

Munurinn reyndist einfaldlega of mikill á of litlum tíma og Þórsarar náðu ekki að koma til baka úr þessu. Að lokum vann Njarðvík sterkan sex stiga sigur og liðin munu því þurfa að mætast í oddaleik í Njarðvík á fimmtudaginn n.k.

Stigahæstur heimamanna í Þór í leiknum var Tómas Valur en hann skoraði 19 stig. Jordan Semple kom næstur með 18 stig og 18 fráköst og Nigel Pruitt skoraði 13 stig.

Hjá Njarðvík var Mario stigahæstur með 20 stig og 13 fráköst en eins og áður sagði var hann að öðrum ólöstuðum besti maður vallarins. Næstir hjá Njarðvík komu Dwayne Lautier með 19 stig og Veigar Páll 18 af bekknum, frábær leikur hjá honum.

Þór Þ. 84:90 Njarðvík opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert