Mikið áfall fyrir Keflavík

Birna Valgerður Benónýsdóttir í leik með Keflavík.
Birna Valgerður Benónýsdóttir í leik með Keflavík. mbl.is/Óttar Geirsson

Birna Valgerður Benónýsdóttir, landsliðskona í körfuknattleik og leikmaður Keflavíkur, varð fyrir því óláni að slíta krossband í hné og tekur því engan þátt í úrslitaeinvígi liðsins gegn Njarðvík.

Karfan.is greinir frá því að Birna Valgerður hafi meiðst í oddaleik Keflavíkur gegn Stjörnunni í undanúrslitum Íslandsmótsins.

Ómskoðun hafi leitt í ljós slitið krossband og rifu á liðþófa. Slík meiðsli þýða venjulega sex til níu mánaða fjarveru.

Má Birna Valgerður því eiga von á því að vera frá keppni að minnsta kosti til loka ársins og jafnvel lengur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert