Hélt svo áfram og versnaði

Jóhann Þór Ólafsson var tilfinningaríkur á hliðarlínunni í kvöld.
Jóhann Þór Ólafsson var tilfinningaríkur á hliðarlínunni í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við brotnum of auðveldlega í þriðja leikhluta,“ sagði Jóhann Þór Ólafsson þjálfari Grindavíkur í samtali við mbl.is eftir að lið hans tapaði fyrir Val, 89:79, í fyrsta leik liðanna í úrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta á Hlíðarenda í kvöld.

Staðan í hálfleik var 37:37 en Valsmenn lögðu grunninn að sigrinum með góðum þriðja leikhluta og tókst Grindavík ekki að jafna í fjórða leikhlutanum.

„Við hentum þessu aldrei frá okkur, því þetta var aldrei mikið meira en tíu stig. Það er ekki neitt í körfubolta og ef við hefðum sett stór skot í fjórða hefðum við mögulega gefið þessu alvöruséns.

Það voru varnarfærslur sem gengu illa og ákveðið samskiptaleysi í vörninni stóran hluta leiks. Þeir skora eiginlega alltaf þegar við vorum að gera eitthvað vitlaust. Það hélt svo áfram og versnaði í þriðja leikhluta,“ sagði þjálfarinn.

DeAndre Kane hjá Grindavík var stigahæstur allra á vellinum með 37 stig og Dedrick Basile kom næstur með 22. Fleiri leikmenn spiluðu hins vegar vel hjá Val.

„Kane var mjög góður en það var meiri liðsbragur á Valsliðinu. Við höfum farið langt á því í vetur og þurfum að finna aftur á mánudaginn. Við þurfum að svara og finna lausnir. Ég hef fulla trú á mínum mönnum,“ sagði Jóhann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert