Þá fer hann illa með þig

Taiwo Badmus skýtur að körfu Tindastóls í kvöld. Daniel Mortensen …
Taiwo Badmus skýtur að körfu Tindastóls í kvöld. Daniel Mortensen er til varnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við náðum að spila okkar leik,“ sagði Taiwo Badmus leikmaður Vals í samtali við mbl.is eftir að hann og liðsfélagar hans unnu Grindavík, 89:79, í fyrsta leik úrslitaeinvígsins á Íslandsmóti karla á Hlíðarenda.

„Við lögðum leikinn vel upp, fórum eftir leikplaninu og það gekk upp. Við vorum kraftmiklir og allir lögðu sitt að mörkum, bæði í vörn og sókn. Ég er sáttur með sigurinn,“ bætti Írinn við.

Staðan var hnífjöfn í hálfeik en Valsmenn unnu þriðja leikhlutann með ellefu stigum og tókst Grindavík ekki að jafna eftir það. „Við vildum fara upp um gír. Við vorum sammála um að við gætum spilað af meiri krafti. Í seinni hálfleik fórum við upp um gír og það skilaði sigri.“

Badmus er að spila í úrslitaeinvíginu á Hlíðarenda þriðja árið í röð. Tvö fyrstu árin með Tindastóli og í ár með Val. Hann hefur upplifað tap og sigur með Tindastóli í úrslitum gegn Valsmönnum.

„Þetta er öðruvísi. Þetta er þriðja árið í röð sem ég spila í úrslitaeinvígi í þessu húsi. Það er ótrúleg tilhugsun. Við í Tindastóli unnum hérna í fyrra og vonandi get ég fagnað aftur. Við munum koma inn í annan leik eins og við séum undir í einvíginu. Það er nóg eftir af þessu einvígi,“ sagði hann.

DeAndre Kane hjá Grindavík var stigahæstur í leiknum með 37 stig. Liðsframmistaða Vals skilaði hins vegar sigri.

„Hann er mjög kraftmikill og hæfileikaríkur. Ef þú gefur ekki allt í að verjast honum þá fer hann illa með þig. Við einbeitum okkur samt að okkur sjálfum. Við stjórnum því bara hvað við gerum,“ sagði Badmus.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert