Valsmenn einum sigri frá Íslandsmeistaratitlinum

DeAndre Kane og Frank Aron Booker í baráttunni í kvöld.
DeAndre Kane og Frank Aron Booker í baráttunni í kvöld. mbl.is/Eyþór Árnason

Valur og Grindavík áttust við í þriðja leik sínum í úrslitaeinvígi liðanna i Íslandsmóti karla í körfubolta á Hlíðarenda í kvöld og lauk leiknum með sigri Vals 80:62.

Staðan í einvíginu er 2:1 fyrir Valsmenn sem þurfa bara einn sigur í viðbót til að verða Íslandsmeistarar.

Fjórði leikur liðanna er í Smáranum, heimavelli Grindvíkinga, á sunnudag.

Valsmenn byrjuðu fyrsta leikhluta mjög vel og skoruðu fyrstu 6 stig leiksins áður en Grindvíkingar náður að skora. Valsmenn komust í 10:3 en þá tóku Grindvíkingar við sér og byrjuðu að saxa á forskot Valsmanna. Staðan eftir fyrsta leikhluta 21:19 fyrir Val. Tveggja stiga munur.

Grindvíkingar tóku við sér í öðrum leikhluta

Grindvíkingar jöfnuðu í stöðunum 21:21 og 23:23. Þeir komust síðan yfir í fyrsta sinn í stöðunni 28:26 fyrir Grindavík og leiddu nánast allan leikhlutan eða allt þangað til Taiwo Badmus jafnaði fyrir Val þegar 22,7 sekúndur voru eftir í stöðunni 37:37. Grindvíkingum tókst ekki að skora úr sinni lokasókn í öðrum leikhluta og því fóru liðin með jafntefli inn í hálfleik. Staðan 37:37.

Frank Booker skoraði 11 stig fyrir Val í fyrri hálfleik og Kristófer Acox með 4 fráköst. Taiwo Badmus var með 2 stoðsendingar.

Í liði Grindavíkur var Dedrick Basile með 13 stig, Valur Valsson var með 6 fráköst og 3 stoðsendingar í fyrri hálfleik. 

Valsmenn stungu af í þriðja leikhluta

Það tók 2 mínútur að fá fyrstu körfuna í þriðja leikhluta en eftir það komu þær á færibandi. Grindvíkingar fengu dæmdar á sig tvær tæknivillur í röð sem færði Valsmönnum samtals 8 stig og kom þeim í þægilega stöðu til að byggja ofan á. Á sama tíma fóru gestirnir að hitta illa og fara illa með sóknirnar sínar.

Valsmenn náðu með þessu mest 16 stiga forskoti í þriðja leikhluta og héldu þeim mun þegar hann kláraðist. Staðan eftir þriðja leikhluta 64:48 fyrir Val og munurinn ansi mikill fyrir Grindvíkinga til að minnka. 

Valsmenn gáfu ekkert eftir í fjórða leikhluta

Grindvíkingar reyndu hvað þeir gátu til að minnka muninn í fjórða leikhluta en Valsmenn gáfu ekkert eftir og þvert á móti juku muninn. Þegar 5 mínútur voru eftir af leiknum var staðan 74:54 fyrir Val, 20 stiga munur.

Grindvíkingar héldu áfram að reyna en tilraunir þeirra gengu einfaldlega ekki upp. Sem dæmi má nefna að Deandre Kane tók hvert þriggja stiga skotið á fætur öðru en gat ekki hitt til að bjarga lífi sínu. Kane gerði 13 tilraunir í þriggja stiga skotum og hitti úr engu. Fór svo að Valsmenn unnu 18 stiga sigur 80:62 og eru einum sigri frá því að verða Íslandsmeistarar karla í körfubolta árið 2024.

Stigahæstur í liði Vals var Frank Booker með 20 stig. Kristófer Acox var með 8 stoðsendingar og Justas Tamulis var með 4 stoðsendingar.

Í liði Grindavíkur var Dedrick Basile með 19 stig, Valur Valsson var með 9 fráköst og Deandre Kane með 4 stoðsendingar. 

Liðin mætast aftur á sunnudag í Smáranum í Kópavogi. 

Valur 80:62 Grindavík opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert