Bill Walton er látinn (myndskeið)

Bill Walton varð tvisvar NBA-meistari.
Bill Walton varð tvisvar NBA-meistari.

Bandaríski körfuboltamaðurinn Bill Walton, sem varð NBA-meistari með bæði Portland Trail Blazers og Boston Celtics, er látinn, 71 árs að aldri.

Walton lék sem miðherji og var 2,11 metrar á hæð. Hann lék með Portland frá 1974 til 1979 og vann meistaratitilinn með liðinu árið 1977, þar sem hann var valinn mikilvægasti leikmaður úrslitakeppninnar. Árið eftir var hann valinn mikilvægasti leikmaður deildarinnar. 

Walton missti af tímabilinu 1978-79 vegna meiðsla og gekk síðan til liðs við Los Angeles Clippers, eða San Diego Clippers eins og liðið hét framan af ferli hans þar en Walton glímdi við meiðsli öll fjögur árin sem hann lék með liðinu.

Hann samdi síðan við Boston Celtics árið 1985, þar sem hann var varamaður fyrir Robert Parish en var valinn besti „sjötti leikmaður“ deildarinnar tímabilið 1985-86 þar sem hann fagnaði meistaratitlinum með Boston.

Eftir að hafa misst af tímabilinu 1987-88 vegna meiðsla lagði Walton skona á hilluna. Hann reyndi þó að snúa aftur á völlinn snemma árs 1990 en tókst það ekki og ferlinum var endanlega lokið. Hann er af mörgum talinn í hópi þeirra bestu í sögu NBA-deildarinnar.

Walton vann síðan lengi í sjónvarpi, þar sem hann lýsti leikjum og var sérfræðingur og þáttastjórnandi. Hann fékk m.a. Emmy-verðlaun fyrir störf sín fyrir ESPN og fleiri stöðvar.  Banamein hans var krabbamein.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert