Dallas einum leik frá úrslitum

Luka Doncic var að venju öflugur í liði Dallas
Luka Doncic var að venju öflugur í liði Dallas AFP/COOPER NEILL

Dallas Mavericks komst í 3:0 gegn Minnesota Timberwolves í undanúrslitaviðureign liðanna í NBA deildinni í körfubolta en leikurinn fór fram í Dallas. Luka Doncic og Kyrie Irving skoruðu 33 stig hvor.

Leikurinn í nótt var æsispennandi en Dallas skoraði fjórtán stig gegn þremur frá Minnesota á síðustu fimm mínútum leiksins og sigldi 116:107 sigri í höfn. Ekkert lið hefur unnið seríu eftir að hafa tapað fyrstu þremur leikjunum.

Dallas var átta stigum yfir í hálfleik, 60:52, en staðan var jöfn fyrir fjórða leikhluta 87:87. Doncic og Irving voru eins og áður segir algjörlega frábærir í liði Dallas, skoruðu 33 stig hvor en að auki átti Doncic sjö fráköst, fimm stoðsendingar og fimm stolna bolta.

Anthony Edwards var atkvæðamestur í liði Minnesota með 26 stig, níu fráköst og níu stoðsendingar og Karl-Anthony Towns skoraði fjórtán stig og tók ellefu fráköst en Towns klikkaði á öllum átta þriggja stiga skotum sínum í leiknum.

Liðin mætast aftur annað kvöld en í kvöld getur Boston Celtics tryggt sér sæti í úrslitunum þegar liðið heimsækir Indiana Pacers.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert