Kristófer svartsýnn: Líklegast alvarleg meiðsli

Meiddi Íslandsmeistarinn Kristófer Acox fagnar vel í leikslok.
Meiddi Íslandsmeistarinn Kristófer Acox fagnar vel í leikslok. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kristófer Acox átti furðulegt kvöld því hann meiddist eftir um 30 sekúndna leik er hann og liðsfélagar hans hjá Val urðu Íslandsmeistarar í körfubolta með sigri á Grindavík í oddaleik á Hlíðarenda. Kristófer gekk því í gegnum súrt og sætt áður en hann lyfti Íslandsbikarnum á loft í leikslok. 

„Heilsan hefur verið betri. Það er erfitt að útskýra þessa tilfinningu en ég er á leiðinni í aðgerð. Það fór eitthvað í hnénu og það er líklegast eitthvað alvarlegt. Ég hef sumarið til að ná mér og koma sterkari til baka á næsta tímabili,“ sagði hann við mbl.is eftir leik. 

Kristófer leið ágætlega á bekknum í seinni hálfleik, þrátt fyrir að vera ekki leikfær sjálfur. 

„Mér leið ótrúlegt en satt bara allt í lagi. Við vorum búnir að spila vel frá fyrstu mínútu. Við gerðum vel í að búa forskot sem fór upp í tveggja stafa tölu. Við gerðum eins og við töluðum um, að ná forskoti snemma og halda vel í það,“ sagði Kristófer.

Á meðan á viðtalinu stóð gekk Kristinn Pálsson framhjá og Kristófer hrósaði honum. „Menn eins og þessi hérna, Kristinn Pálsson sem er fokking magnaður, gerðu mjög vel. Ég gæti ekki verið stoltari.“

Kristófer fann um leið og hann féll í gólfið í upphafi leiks að hann gæti ekki haldið áfram. „Um leið og höggið kom greip ég um hnéð á mér og fann að það var ekki allt í lagi. Ég fann að verkurinn var það mikill að það var ekki séns að halda áfram.“

En verður Kristófer þá fagnandi, hoppandi á annarri löppinni í allt kvöld?

„Ég vona að ég fái tíma í aðgerð eftir helgi en ekki strax á morgun. Maður deyfir sig eins og maður getur og reynir að fagna,“ sagði Kristófer.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka