Hætta við landsleiki vegna fjárskorts

Hannes Sigurbjörn Jónsson formaður KKÍ
Hannes Sigurbjörn Jónsson formaður KKÍ Eggert Jóhannesson

Hannes S. Jónsson, framkvæmdastjóri KKÍ var til viðtals í hlaðvarpi Valtýs Björns Valtýssonar, Mín skoðun. Hannes ræddi kostnað keppenda í yngri landsliðum Íslands í körfubolta.

Mörg dæmi eru um að fjölskyldur leikmanna þurfi að greiða hundruðir þúsunda svo að leikmenn geti spilað fyrir Íslands hönd á erlendum vettvangi. Hannes segir að sambandið hafi einfaldlega ekki efni á að standa straum af öllum kostnaðinum sem fylgir slíkum verkefnum.

„Þrátt fyrir að við séum að senda háa reikninga á iðkendur erum við hjá KKÍ að borga 24-25 milljónir til að halda úti yngri landsliðsstarfi. Starfið okkar kostar um það bil 80 milljónir í ár og þar af erum við að rukka foreldra um 50 milljónir.“

Hannes segir það vont að á sama tíma og landsliðskallið sé mikill heiður fyrir leikmenn og fjölskyldur sé reikningurinn sem því fylgir gríðarlega hár. 

Craig Pedersen landsliðsþjálfari karla
Craig Pedersen landsliðsþjálfari karla Kristinn Magnússon

„Það sem krakkarnir greiða fyrir er uppihald, flug og sjúkraþjálfunarkostnað. Verð á flugi hefur hækkað mjög mikið á undanförnum árum og einnig uppihald þar sem við þurfum að borga allt í evrum. Mikið af þessum mótum eru í Austur-Evrópu þar sem við erum ekki með beinar flugsamgöngur og þá þurfum við að taka tengiflug og stundum fleiri en eitt“.

Hannes segir samtal á milli sérsambanda gott en bendir á að þau stríði öll við sama vandamálið og það séu lágir styrkir til afreksíþrótta af hendi ríkisins.

„Við erum búin að benda á það lengi að við þurfum aðkomu ríkisvaldsins að afreksstarfinu og það má ekki gleyma því að körfuknattleikshreyfingin hefur verið sett niður af afreksjóði ÍSÍ á undanförum tveimur til þremur árum. Við fáum þrjátíu og fjórar milljónir frá afrekssjóði en landsliðsstarfið kostar 150 milljónir í ár“.

Hannes bendir á að þetta snúist ekki einungis um yngri landsliðin því fjárskorturinn bitni líka á A-landsliðunum.

„Við þurftum að hætta við vináttuleiki í sumar hjá A-landsliðum karla og kvenna vegna þess að við áttum ekki efni á því. A-landsliðin okkar eru að fara í mikilvæga landsliðsglugga í nóvember og febrúar en við getum ekki undirbúið okkur almennilega fyrir þá vegna þess að það er ekki til peningur“.

Þátt Valtýrs Björns má finna hér

Benedikt Guðmundsson, Halldór Karl Þórsson, Ólafur Jónas Sigurðsson þjálfarar kvennalandsliðsins
Benedikt Guðmundsson, Halldór Karl Þórsson, Ólafur Jónas Sigurðsson þjálfarar kvennalandsliðsins mbl.is/Óttar Geirsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert