53 Húsasmiðjan ehf.

Stærðarflokkur Stórt
Röð innan flokks 53
Landshluti Höfuðborgarsvæði
Atvinnugrein Heild- og smásöluverslun, viðgerðir á vélknúnum ökutækjum
Starfsemi Smásala á járn- og byggingarvöru í sérverslunum
Framkvæmdastjóri Árni Stefánsson
Fyrri ár á listanum 2017–2020
Framúrskarandi 2021

Hvernig gengur reksturinn?

Eignir 7.256.047
Skuldir 3.533.966
Eigið fé 3.722.081
Eiginfjárhlutfall 51,3%
Allar fjárhæðir eru í þúsundum króna

Eigendur og eignarhald

Þekktir hluthafar 1
Endanlegir eigendur 1
Eignarhlutur í öðrum félögum 2
Endanleg eign í öðrum félögum 2

Lánshæfismat félaga í sömu grein

Meðallánshæfi félaga í atvinnugreininni Smásala á járn- og byggingarvöru, málningu og gleri í sérverslunum

pila

Tiltölulega áhættulítil

Meira um fyrirtækið hjá CreditInfo

Framboð lóða verður að passa við eftirspurn

Árni Stefánsson er forstjóri Húsasmiðjunnar. Hann segir að innviðir fyrirtækisins …
Árni Stefánsson er forstjóri Húsasmiðjunnar. Hann segir að innviðir fyrirtækisins hafi verið byggðir upp á síðustu árum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjármálakreppan 2007 og 2008 olli keðjuverkun sem m.a. kældi íslenska húsbyggingamarkaðinn og kom illa við fyrirtæki eins og Húsasmiðjuna sem byggja rekstur sinn að stórum hluta á sölu byggingarefnis og þjónustu við iðnaðarmenn. Árni Stefánsson, forstjóri Húsasmiðjunnar, segir það hafa verið ánægjuefni fyrir fimm árum þegar fyrirtækið komst á lista Creditinfo yfir framúrskarandi fyrirtæki í framhaldi þess að tekist hafði að byggja reksturinn upp að nýju og styrkja undirstöðurnar:


„Allur byggingamarkaðurinn var í sárum eftir hrun og í okkar tilviki var eiginfjárhlutfallið ekki nema í kringum 10%, sumar rekstrareiningarnar reknar með tapi, okkar helsta upplýsingakerfi tæplega 20 ára gamalt og bæta þurfti í endurnýjun ýmissa rekstrarfjármuna. En við réðumst í fjölda góðra innri verkefna með okkar frábæra starfsfólki, og með mikilli vinnu og þolinmæði náðum við frábærum árangri og fyrirtækið núna í fremstu röð, með eiginfjárhlutfall yfir 50% og sterka innviði,“ segir Árni.


Sjálfsafgreiðsla með símanum

Meðal þess sem efldi innviði fyrirtækisins var innleiðing nýs tölvukerfis sem einfaldaði daglega starfsemi og lagði um leið grunninn að nýrri vefverslun og ýmiss konar viðbótarþjónustu við viðskiptavini.

„Með nýju netversluninni gátu viðskiptavinir okkar t.d. skráð sig inn og notið allra sinna afsláttar- og viðskiptakjara á netinu og ruddum við jafnframt brautina í timbursölu á netinu. Þá höfum við getað unnið jafnt og þétt að því að bæta ferla og auka skilvirkni og erum um leið að létta viðskiptavinum okkar lífið. Geta t.d. þeir sem skráðir eru í viðskiptakerfi okkar núna sjálfir skipt og dreift greiðslum þegar þess er þörf.“

Húsasmiðjan hefur haldið áfram að byggja ofan á þessa tækni og felst nýjasta viðbótin í að viðskiptavinir geta notað snjallsímann sinn til að skanna sjálfir inn vörur í verslun um leið og þeim er raðað í innkaupakörfuna.

„Bæði má sækja vöruupplýsingar í gegnum símann og ganga frá greiðslu, og þarf þá ekki að koma við á afgreiðslukassa á leiðinni úr búðinni heldur einungis gera „hraðtékk“. Vonumst við til að þetta flýti fyrir viðskiptum og skapi aukna ánægju og viðskiptatryggð,“ útskýrir Árni en notendaprófanir á þessu nýja sjálfsafgreiðslukerfi eru á lokametrunum og verður þjónustan gerð aðgengileg almennum viðskiptavinum á komandi dögum í öllum verslunum Húsasmiðjunnar.

Á ársgrundvelli eru um 400 stöðugildi hjá Húsasmiðjunni en á …
Á ársgrundvelli eru um 400 stöðugildi hjá Húsasmiðjunni en á háannatíma er starfsfólkið um 500. mbl.is/Eggert Jóhannesson


Opna nýja verslun á Akureyri

Í dag eru verslanir Húsasmiðjunnar sextán talsins og dreifast um allt land. Undir fyrirtækið heyrir líka rafiðnaðarheildsalan Ískraft sem starfrækir fimm útibú, og Blómaval sem er á sjö stöðum. Í byrjun næsta árs opnar Húsasmiðjan nýja 5.000 fermetra verslun á Akureyri og nýlega tryggði félagið sér byggingarlóð undir nýja verslun á Selfossi.


Á ársgrundvelli eru stöðugildi hjá félaginu tæplega 400 talsins en á háannatíma á sumrin eru starfsmenn rúmlega 500. Árið 2019 varð fyrirtækið það fyrsta á íslenskum byggingavörumarkaði til að hljóta jafnlaunavottun og hefur félagið gefið út samfélagsskýrslu í samstarfi við Bygma frá árinu 2017.


Veltutölur hafa farið hratt batnandi að undanförnu og nam veltan á síðasta ári rúmum 20 milljörðum króna, með 900 milljóna hagnaði fyrir skatta. Jókst veltan um 7% milli áranna 2019 og 2020 og útlit fyrir áframhaldandi góðan vöxt í veltu á þessu ári.


Góðan gang í sölunni í ár og í fyrra má m.a. rekja til þess hve duglegir landsmenn voru að huga að heimilinu í kórónuveirufaraldrinum. „Fagaðilar eru okkar stærsti viskiptavinahópur en það sem við sáum gerast í faraldrinum var að sprenging varð í framkvæmdagleði einstaklinga. Fólk varði meiri tíma heima við og hafði meira ráðrúm til að ráðast í alls kyns viðhald og framkvæmdir. Notuðu margir tækifærið til að mála eða láta drauminn um sólpall rætast,“ segir Árni.

Umhverfisáhrif og sjálfbærni að leiðarljósi

Hörð samkeppni er á markaði með byggingarefni og segir Árni að samhliða því geri kaupendur æ ríkari kröfur um gæði, uppruna og ýmsa eiginleika vörunnar. Hann segir m.a. hafa orðið greinilega breytingu í byggingageiranum hvað varðar notkun á sjálfbærum og umhverfisvænum vörum.

„Mjög hraðar breytingar hafa orðið á byggingavörumarkaði og leiðandi framleiðendur m.a. kynnt til leiks alls kyns efnavörur á borð við lím og málningu sem framleiddar eru úr mun umhverfisvænni efnum en áður. Sama gildir um umbúðanotkun þar sem birgjar keppast við að þróa umhverfisvænni lausnir og halda magni umbúða í lágmarki með umhverfisvernd að leiðarljósi.“


Segir Árni að í dag bjóði Húsasmiðjan þúsundir vörunúmera byggingavara sem séu ýmist með viðurkennd umhverfismerki, sjálfbærnivottanir eða sannanlega leyfðar í vistvottuð byggingarverkefni.

„Þá eru þessar vörur orðnar samkeppnishæfar í verði og gefa eldri vörum ekkert eftir hvað varðar endingu og gæði. Nánast allt timbur sem við seljum í dag er til dæmis með sjálfbærni- og rekjanleikavottun.“


Bendir Árni þó á að opinberir aðilar mættu hugsanlega bæta eftirlit með gæðum innfluttra byggingavara og vakta betur að allar þær vörur sem innfluttar eru á íslenskum markaði hafi tilskildar vottanir og fullnægi Evrópukröfum.

„Því miður hefur borið á því að í samkeppni við viðurkenndar vörur séu aðilar að bjóða vörur sem ekki standast ýtrustu kröfur og staðla og henta jafnvel alls ekki við íslenskar aðstæður.“


Markaðurinn kallar á fleiri lóðir

Húsbyggingageirinn náði sér aftur á strik eftir hrun og segir Árni að þar hafi veltan tekið að glæðast á árunum 2012 til 2013. Á undanförnum árum hafa umsvifin í húsbyggingum verið á nokkuð eðlilegu reiki. „En eftir situr að í nokkur ár eftir bankahrun var of lítið byggt og tölurnar sýna að þarf að auka framboð nýbygginga enn hraðar til að ná langtíma jafnvægi“ segir Árni og bætir við að því miður séu blikur á lofti:


„Samkvæmt nýjustu talningu Samtaka iðnaðarins er íbúðum í byggingu að fækka og á sama tíma sjáum við merki um aukna eftirspurn á fasteignamarkaðnum en fáar tilbúnar íbúðir í sölu sem auðvitað ýtir upp verði íbúða. Það er samdóma álit flestra þeirra byggingaverktaka sem ég ræði við að of fáar nýjar lóðir séu í boði og þær lóðir sem boðist hafa á þéttingarreitum á höfuðborgarsvæðinu séu mjög dýrar. Þetta veldur bæði því að ójafnvægi myndast á fasteignamarkaði og verktökum gengur erfiðlega að hafa góðan og jafnan gang í byggingaframvæmdum svo þeir þurfa jafnvel að framkvæma með hléum með tilheyrandi áhrifum á framkvæmdakostnað.“

Húsasmiðjan varð fyrsta íslenska fyrirtækið á byggingavörumarkaði til að hljóta …
Húsasmiðjan varð fyrsta íslenska fyrirtækið á byggingavörumarkaði til að hljóta Jafnlaunavottun árið 2019. mbl.is/Eggert Jóhannesson


Segir Árni að ástandið sé áberandi verst á höfuðborgarsvæðinu en einnig heyrist áhyggjur af skorti á tilbúnum byggingarlóðum á Akureyri. Aftur á móti hafi ýmis önnur sveitarfélög gengið á lagið og nýtt sér hækkandi fasteignaverð og lóðaskort á höfuðborgarsvæðinu til að laða til sín fólk í leit að húsnæði á hagstæðara verði:

„Ef við skoðum t.d. Árborg, Reykjanesbæ, Akranes og Hveragerði hefur þar verið ágætisframboð af lóðum og meira líf færst í húsbyggingaverkefni.“


Árni bendir á að það komi sér mjög illa fyrir ákveðna hópa þegar framboð á fasteignamarkaði heldur ekki í við eftirspurn og komi m.a. niður á unga fólkinu sem er að byrja að búa.

„Lausnin ætti að felast í samspili frjálsa markaðarins í bland við félagslegar lausnir, s.s. óhagnaðardrifin félög sem hafa vaxið og dafnað á undanförnum árum. En umfram allt hvílir sú skylda á herðum sveitarfélaganna að bjóða nýjar byggingalóðir tímanlega og í góðum takti við eftirspurn, og þá á skynsamlegu verði þannig að sem best jafnvægi haldist á markaðnum.“

mbl.is

Fleiri greinar og viðtöl

Samstarfsaðilar