1 Marel hf.

Stærðarflokkur Stórt
Röð innan flokks 1
Landshluti Höfuðborgarsvæði
Atvinnugrein Framleiðsla
Starfsemi Framleiðsla á vélum fyrir matvæla-, drykkjarvöru- og tóbaksvinnslu
Framkvæmdastjóri Árni Oddur Þórðarson
Fyrri ár á listanum 2013–2020
Framúrskarandi 2021

Hvernig gengur reksturinn?

Eignir 283.305.890
Skuldir 133.652.820
Eigið fé 149.653.070
Eiginfjárhlutfall 52,8%
Allar fjárhæðir eru í þúsundum króna

Eigendur og eignarhald

Þekktir hluthafar 11
Endanlegir eigendur 20
Eignarhlutur í öðrum félögum 4
Endanleg eign í öðrum félögum 5

Lánshæfismat félaga í sömu grein

Meðallánshæfi félaga í atvinnugreininni Framleiðsla á öðrum ótöldum vélum og tækjum

pila

Miðlungi áhættumikil

Meira um fyrirtækið hjá CreditInfo

Hafa starfað út frá skýrri sýn

Færsla matarinnkaupa yfir á netið kallar á sjálfvirkar lausnir: „Þegar …
Færsla matarinnkaupa yfir á netið kallar á sjálfvirkar lausnir: „Þegar keypt er í matinn á netinu er ekkert sem heitir að panta fisk dagsins eða velja flak úr fiskborðinu heldur pantar neytandinn ákveðna vöru og ætlast til þess að hún sé alveg eins í dag og hún var í síðustu viku,“ segir Guðbjörg Heiða.

Það kemur ekki á óvart að Marel skuli hafna í efsta sæti á lista Creditinfo yfir framúrskarandi fyrirtæki. Allt frá upphafi hefur félagið verið vel rekið og starfsemin vaxið jafnt og þétt, með ríka áherslu á nýsköpun og vöruþróun. Þá hefur Marel byggt upp alþjóðlegt sölu- og þjónustunet sem nær nú til viðskiptavina í yfir 140 löndum um allan heim. Vöxturinn hefur komið jafnt innan og utan frá en af nýjustu stefnumótandi yfirtökum má nefna kaup á þessu ári á 40% eignarhlut í Stranda Prolog sem framleiðir búnað fyrir vinnslu á laxi, og PMJ sem sérhæfir sig í lausnum fyrir andamarkaðinn.

Í fyrra eignaðist Marel þýska matvælatækjaframleiðandann Treif og þar áður 50% hlut í íslenska fiskvinnsluvélaframleiðandanum Curio, hugbúnaðarfyrirtækið Cedar Creek og fjórðungshlut í hugbúnaðarfyrirtækinu Worximity.

Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir er framkvæmdastjóri fiskiðnaðar hjá Marel og jafnframt framkvæmdastjóri Marels á Íslandi. Hún segir árangur undanfarinna ára ekki síst byggjast á því að unnið hefur verið út frá skýrri sýn um að umbylta því hvernig matvæli eru unnin á heimsvísu, í samstarfi við viðskiptavini, og samhliða því hafi innviðir fyrirtækisins verið styrktir með markvissum hætti.

Vannýtt tækifæri í Kína og Suður-Ameríku

„Við störfum á mjög dínamískum markaði sem gerir sífellt ríkari kröfur hvað varðar þætti á borð við gæði, matvælaöryggi, sjálfbæra matvælaframleiðslu og rekjanleika matvæla. Við þurfum að vinna statt og stöðugt að því að bjóða upp á vörur sem mæta kröfum markaðarins og hefur t.d. hjálpað okkur mjög að hvika aldrei frá þeirri stefnu að beina að lágmarki 6% af tekjum í nýsköpun,“ segir Guðbjörg Heiða en á síðasta ári nam velta Marels 1,2 milljörðum evra og nam fjárfesting í nýsköpun 69 milljónum evra sem samsvarar um 11 milljörðum íslenskra króna.

Ytri vöxtur Marels sýnir glögglega hvernig stefnt er jafnt og þétt að skýru marki. Segir Guðbjörg að stefnumarkandi yfirtökur á öðrum fyrirtækjum hafi alla jafna það markmið að dýpka vöruframboðið, styrkja virðiskeðjuna þvert á öll framleiðslustig og ná stærri markaðshlutdeild bæði á hinum ýmsu sviðum matvælageirans og á mörkuðum um heim allan. „Þannig eru t.d. kaupin á PMJ fyrr á árinu ekki síst hugsuð með það í huga að skapa ný tækifæri í Kína þar sem framleiðsla á andakjöti er með mesta móti.“

Þegar mest lét í faraldrinum unnu um 3.000 af 6.800 …
Þegar mest lét í faraldrinum unnu um 3.000 af 6.800 starfsmönnum fyrirtækisins skrifstofustörf heiman frá sér. Kristinn Magnússon

Í nóvember verður kaupunum á PMJ fylgt eftir með opnun nýrrar sýningarmiðstövðar í Sjanghaí, miðstöð viðskipta og fjármála í Kína, en á sama tíma hefur Marel jafnframt sett sig í stellingar fyrir sókn inn á SuðurAmeríkumarkað og opnaði í sumar 4.700 fermetra sýningar- og sölumiðstöð sem m.a. nýtir sýndarveruleika til að leyfa viðskiptavinum að fræðast um eiginleika vinnslubúnaðar Marels. Er sýningarhúsið í Campinas, skammt frá Sao Paulo, og laðar vonandi að stóra sem smáa matvælaframleiðendur í löndunum í kring sem hafa hug á að fjárfesta lausnum til þess að auka enn frekar nýtingu, gæði og sjálfbærni í vinnslum sínum.

Netverslun kallar á að varan sé alltaf eins

Bendir Guðbjörg Heiða á að matvælaframleiðendur um heim allan, og ekki síst á svæðum eins og Suður-Ameríku og Austur-Asíu, séu óðum að sjálfvirknivæða starfsemi sína þar sem það sé ein besta leiðin til að auka gæði og tryggja rekjanleika. Þá er einnig víða skortur á starfsfólki til þess að taka að sér störf í matvælavinnslu og eru sjálfvirkar lausnir, byggðar á nýjustu tækni, lausn við því. „En það skiptir líka máli að um er að ræða markaði sem hafa náð að vaxa og eru núna af þeirri stærðargráðu að fyrirtækin hafa nægilegt fjármagn til að ráðast í kaup á hátæknivinnslutækjum.“

Þrýstingurinn kemur líka frá neytendum sem gera t.d. kröfu um fullkomlega hreinsaða og gallalausa kjötvöru og sjávarfang sem aðeins er hægt að framleiða með gervigreind, röntgentækni, tölvusjón og fullkomnustu skurðarvélum. „En hegðun neytenda er líka að breytast að því leyti að matarinnkaupin eru að færast yfir á netið, og því enn brýnna að pakkningar og stærðir séu staðlaðar: af sömu gæðum, jafnþungar og jafnstórar. Þegar keypt er í matinn á netinu er ekkert sem heitir að panta fisk dagsins eða velja flak úr fiskborðinu, heldur pantar neytandinn ákveðna vöru og ætlast til þess að hún sé alveg eins í dag og hún var í síðustu viku.“

Tækifærin eru óteljandi og þegar hægt að greina nokkur mikilvæg svið þar sem hátæknilausnir við matvælavinnslu munu ryðja nýjar brautir, neytendum og framleiðendum til hagsbóta. Eru t.d. margir sem fylgjast spenntir með þróuninni í framleiðslu frumuræktaðs kjöts og gervikjöts úr plöntuafurðum. Rétt eins og Marel hefur yfirfært vinnslutækni úr kjöti í kjúkling eða úr fiski í kjúkling þá geta ýmsar lausnir fyrirtækisins einnig nýst við vinnslu á gervikjöti eins og sannast hefur til dæmis með samstarfi Marels við Beyond Meat. Segir Guðbjörg Heiða á sama tíma tækifæri til þess að auka enn frekar nýtingu og gæði við vinnslu á kjöti, kjúklingi og fiski þar sem eftirspurnin fari vaxandi. Þar sér Marel mikil tækifæri til áframhaldandi þróunar og nýsköpunar. „Áherslan er sterk á að lágmarka sóun í matvælaframleiðslu og hámarka nýtingu og virði afurðanna: búa t.d. til betri og verðmætari vöru úr dýraafurðum sem áður voru ekki fullnýttar eða nýttar sem afskurður. Stundum getur lausnin einfaldlega verið að tengja saman rétta markaði því það sem á einum stað getur verið álitið hliðarafurð kann á öðrum stað að þykja mikið hnossgæti, og er gott dæmi um þetta hvernig matarhefðin í sumum löndum er þannig að verslanir fylla hillur af kjúklingabringum og -lærum, en gera lítið við innyflin úr fuglinum á meðan í öðrum löndum er það innmaturinn sem sælkerarnir sækjast sérstaklega eftir.“

Urðu sveigjanlegri í faraldrinum

Eins og hjá flestum öðrum fyrirtækjum var kórónuveirufaraldurinn áskorun fyrir Marel. Starfsfólkið sneri bökum saman og aðlagaðist breyttum veruleika, og kom líka í ljós hvers konar sveigjanleika og aðlögunarhæfni tæknin býður upp á. Gátu t.d. tæknimenn Marels hugað að ástandi tækja yfir netið og haldið áfram að þjónustu viðskiptavini, starfsfólkið tekið þátt í þjálfun þvert á heimsálfur og sölumenn haldið fundi með viðskiptavinum þrátt fyrir að stærstu vörusýningar og viðburðir hefðu verið blásin af. Nefnir Guðbjörg Heiða að á síðasta ári hafi Marel haldið 364 viðburði á netinu, eða að jafnaði nærri einn viðburð hvern einasta dag ársins. „Við færðum okkur einfaldlega yfir á netið og tókst að halda takti á sama tíma og við tryggðum góðar smitvarnir. Ég er óendanlega stolt af því hvernig starfsfólk Marels kom saman og tókst á við þessa áskorun,“ segir Guðbjörg Heiða og bætir við að þegar mest lét hafi um 3.000 af 6.800 starfsmönnum fyrirtækisins unnið skrifstofustörf heiman frá sér. Var reynslan svo góð að í kjölfarið var ákveðið að taka það skref að innleiða sveigjanlegri vinnustefnu þar sem starfsfólki er gefið val og mun meira svigrúm til að vinna fjarvinnu. „Við hreinlega spurðum okkar fólk hvaða fyrirkomulag því þætti eftirsóknarverðast og fylgdum síðan þeim óskum eftir.“

Töfrar leystir úr læðingi

Framtíðin virðist mjög björt og þótt Marel glími við margar skammtíma- og langtímaáskoranir er Guðbjörg Heiða jákvæð og spennt að takast á við verkefnin. Spurð hverju gæti helst þurft að breyta eða bæta í rekstrarumhverfinu nefnir hún að halda verði áfram að skapa sem hagfelldastar aðstæður fyrir fyrirtæki sem byggja á rannsóknum og nýsköpun. „Það er svo gaman að sjá þessa töfra sem tekist hefur að skapa hjá sumum félögum; þar sem hæft og hugmyndaríkt fólk kemur saman og virðist hafa burði til að skapa verðmæti út í hið óendanlega.“

mbl.is

Fleiri greinar og viðtöl

Samstarfsaðilar