106 Steypustöðin ehf.

Stærðarflokkur Stórt
Röð innan flokks 106
Landshluti Höfuðborgarsvæði
Atvinnugrein Framleiðsla
Starfsemi Framleiðsla á tilbúinni steinsteypu
Framkvæmdastjóri Björn Ingi Victorsson
Fyrri ár á listanum 2018–2020
Framúrskarandi 2021

Hvernig gengur reksturinn?

Eignir 7.121.326
Skuldir 4.852.927
Eigið fé 2.268.399
Eiginfjárhlutfall 31,9%
Allar fjárhæðir eru í þúsundum króna

Eigendur og eignarhald

Þekktir hluthafar 1
Endanlegir eigendur 2
Eignarhlutur í öðrum félögum 4
Endanleg eign í öðrum félögum 4

Lánshæfismat félaga í sömu grein

Meðallánshæfi félaga í atvinnugreininni Framleiðsla á vörum úr málmlausum steinefnum

pila

Miðlungi áhættumikil

Meira um fyrirtækið hjá CreditInfo

Snjallsteypan eykur gæðin

Björn Ingi Victorsson er framkvæmdastjóri Steypustöðvarinnar sem er á lista …
Björn Ingi Victorsson er framkvæmdastjóri Steypustöðvarinnar sem er á lista yfir framúrskarandi fyrirtæki Creditinfo á Íslandi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Steypustöðin hóf starfsemi árið 1947 og byggir því á traustum grunni. Fyrirtækið var brautryðjandi í framleiðslu á steypu úr steypubifreiðum í Evrópu, að því er segir á vef félagsins, en fyrstu árin var mikill uppgangur eftir lok síðari heimsstyrjaldar.


„Lausnaframboð Steypustöðvarinnar nær til margra sviða í byggingarframkvæmdum allt frá framleiðslu og dreifingu á blautsteypu, framleiðslu á forsteyptum einingum og hellum, múrvörum, floti og fylliefnum til framkvæmda. Auk þess leggur félagið áherslu á endurvinnslu á steypu og malbiki í takt við sjálfbærnimarkmiðin okkar,“ segir Björn Ingi Victorsson, forstjóri félagsins.


Steypustöðin er í hópi framúrskarandi fyrirtækja á lista Creditinfo.


Víða um landið

Steypustöðvarnar eru átta talsins; í Borgarnesi, á Malarhöfða í Reykjavik, í Hafnarfirði, í Helguvík, á Selfossi og í Vík í Mýrdal, auk þess sem félagið á tvær færanlegar steypustöðvar sem eykur, að sögn Björns, sveigjanleika og hagræðingu í stærri verkefnum. Framleiðslugeta félagsins í blautsteypu er um 600 m3 á klukkutíma. Þá er fyrirtækið með múrbúð á Malarhöfða sem selur til fagmanna.


„Við framleiðum blautsteypu og forsteyptar einingar. Við steypum t.a.m. húseiningar, hellur, sorptunnuskýli, brunna og rör í mörgum stærðum og gerðum. Við endurvinnum malbik fyrir malbikunarstöðvarnar, en erum ekki malbikunarfyrirtæki. Þá endurvinnum við steypu og notum hana ýmist aftur eða seljum sem fyllingarefni. Við endurvinnum mikið af okkar efni sjálf,“ segir Björn Ingi.

Framleiðslugeta Steypustöðvarinnar er mikil og getur hún náð 600 m3 …
Framleiðslugeta Steypustöðvarinnar er mikil og getur hún náð 600 m3 á klukkustund í blautsteypu. ljósmynd/Maciej Kazimierz Borowski


Fyrirtækið er jafnframt með námur í Vatnsskarði og við Hólabrú en sú síðarnefnda er nokkra kílómetra frá Hvalfjarðargöngum, Akranesmegin, á leiðinni í Borgarnes.


Hefur keypt önnur félög

Það á þátt í vexti Steypustöðvarinnar að fyrirtækið hefur keypt önnur félög í byggingargeiranum.

Fyrirtækið hefur frá árinu 2003 rekið helluverksmiðju í Álfhellu í Hafnarfirði.
Árið 2016 keypti félagið Loftorku Borgarnesi og hefur einingaframleiðsla síðan verið vaxandi þáttur í starfseminni. Steypustöðin og Loftorka Borgarnesi sameinuðust í ársbyrjun 2019.

Árið 2018 keypti Steypustöðin félögin Alexander Ólafsson og Tak-Malbik, sem stofnuð voru á 8. áratug síðustu aldar, í því skyni að byggja upp efnisvinnslu. Félögin voru sameinuð í ársbyrjun 2019.

Steypustöðin keypti Loftorku í Borgarnesi árið 2016 og hefur einingaframleiðsla …
Steypustöðin keypti Loftorku í Borgarnesi árið 2016 og hefur einingaframleiðsla síðan verið vaxandi þáttur í starfsemi fyrirtækisins. ljósmynd/Eiríkur Hafdal

Gervigreind í steypu

Um 315 manns starfa hjá Steypustöðinni víða um landið. Að sögn Björns Inga er meginstarfsemin framleiðsla á blautsteypu. Stöðugt sé unnið að vöruþróun og innleiðingu nýjunga í framleiðslu.


„Það nýjasta er að við höfum sett á markað snjallsteypu sem eru þráðlausir nemar sem settir eru út í steypuna á verkstað. Upplýsingar um styrk og hita berast í rauntíma frá nemunum og forritið notar síðan gervigreind til að ráðleggja notanda um næstu skref.
Snjallsteypa styttir verktíma og tryggir gæði. Fram að þessu hefur þurft að meta ástand steypu með höndunum og áætla. Það getur þýtt að slegið er of snemma frá eða beðið lengur en þörf er á, sem hefur áhrif á gæði steypunnar og tímalengd verkefna. Hér á landi eru miklar hitabreytingar í veðurfari og nákvæmar upplýsingar um ástand steypunnar skilar sér í skilvirkari framkvæmd,“ segir Björn Ingi um þessa nýju tækni.


Það megi raunar segja að blautsteypan sem framleidd er í dag sé hátæknivara sem verður til með tölvustýrðum framleiðsluferlum sem hefjast í steypustöð og lýkur með dælingu úr steypubíl á byggingarstað. Félagið er með eigin rannsóknarstofu þar sem stöðugt er fylgst með gæðum allra ferla framleiðslunnar.


Samdráttur í faraldrinum

Björn Ingi segir aðspurður að veltan hjá fyrirtækinu hafi dregist saman í kórónuveirufaraldrinum í fyrra.


„Bransinn er og hefur verið sveiflukenndur. Við það bætist að veturinn 2020 var mjög erfiður til framkvæmda og svo kom faraldurinn ofan í hann,“ segir Björn Ingi. Nú sé geirinn aftur á uppleið.


Rekstrartekjur samstæðunnar voru 8.630 milljónir árið 2019 en 7.847 milljónir í fyrra. Hagnaðurinn var 438 milljónir 2019 en 312 milljónir í fyrra. Eigið fé félagsins lækkaði milli ára og var 2.268 milljónir í fyrra og er eiginfjárhlutfall félagsins 32% í árslok 2020 samanborið við 30,5% árið á undan. Samanlagður launakostnaður var um þrír milljarðar í fyrra og breyttist lítið milli ára.


Hittast reglulega

Steypustöðin er sem áður segir í hópi framúrskarandi fyrirtækja á lista Creditinfo í ár líkt og síðustu tvö ár þar á undan.


En hvað skyldi gera fyrirtækið sérstakt?


„Fyrirtækið er 75 ára gamalt, með framúrskarandi starfsfólk og sterka eiginfjárstöðu. Ég held að það sé grunnurinn að því að gera fyrirtækið að fyrirmyndarfyrirtæki,“ segir Björn Ingi.


En hvernig skyldu stjórnendur halda góðum starfsanda og keppnisanda?


„Það er gert með ýmsum hætti. Við teljum mikilvægt að halda starfsfólki upplýstu um málefni fyrirtækisins og gerum það á innri vefnum Workplace. Við hugum að öryggismálum og leggjum áherslu á að allir komi heilir heim eftir daginn. Auk þess reynum við að hittast og skemmta okkur saman og hlökkum til að gera meira að því nú þegar faraldurinn er að líða undir lok,“ segir Björn Ingi Victorsson að lokum.

mbl.is

Fleiri greinar og viðtöl

Samstarfsaðilar