619 Verkstæði Svans ehf.

Stærðarflokkur Lítið
Röð innan flokks 44
Landshluti Austurland
Atvinnugrein Framleiðsla
Starfsemi Viðgerðir á vélbúnaði
Framkvæmdastjóri Svanur Hallbjörnsson
Fyrri ár á listanum Engin
Framúrskarandi 2023

Hvernig gengur reksturinn?

Eignir 185.599
Skuldir 39.777
Eigið fé 145.822
Eiginfjárhlutfall 78,6%
Allar fjárhæðir eru í þúsundum króna

Eigendur og eignarhald

Þekktir hluthafar 1
Endanlegir eigendur 1
Eignarhlutur í öðrum félögum 0
Endanleg eign í öðrum félögum 0

Lánshæfismat félaga í sömu grein

Meðallánshæfi félaga í atvinnugreininni Viðgerðir á vélbúnaði

pila

Tiltölulega áhættulítil

Meira um fyrirtækið hjá CreditInfo

Oft mikið hark að starfa í greininni

Verkstæði Svans
Verkstæði Svans

Verkstæði Svans á Egilsstöðum er í fyrsta sinn í ár á lista Creditinfo yfir framúrskarandi fyrirtæki. Svanur Hallbjörnsson, bifvélavirki og eigandi verkstæðisins, segist í fyrstu hafa orðið hissa þegar honum var tilkynnt um vottunina.

„Þetta var bara eitthvað sem gerðist. Ekki endilega eitthvað sem við stefndum að. Engu að síður eru þetta mjög ánægjulegar fregnir og ekki laust við að maður sé svolítið stoltur af þessu. Manni hlýnar alla vega alveg aðeins um hjartaræturnar,“ segir Svanur glaður í bragði.

Mikilvægt að klára verkin sama hvað klukkan slær

Verkstæði Svans var stofnað í upphafi árs 2017. Þrátt fyrir að lífaldur fyrirtækisins sé ekki ýkja langur segist Svanur þekkja verkstæðisgeirann jafn vel og handarbakið á sér.

„Ég er búinn að lifa og hrærast í þessum bransa í 37 ár og reyni að halda þessu gangandi með því að sinna því sem þarf að sinna og hafa verkstæðið opið. Mér finnst margir í þessum bransa vera með allt of stutta vinnudaga á helstu álagstímum. Því það er svo skemmtilegt að vera í miðri hringiðunni, eða það finnst mér,“ segir hann. „Við horfum ekki mikið á klukkuna og bíðum eftir að hún verði eitthvað ákveðið. Við vinnum verkin þar til þau eru búin. Það er kannski það sem gerir það að verkum að við skörum fram úr,“ segir Svanur.

„Þessi iðngrein litast oft af miklu harki. Rekstur á fyrirtæki er líka mikil vinna og langt því frá að maður geti gengið um á bleiku skýi þegar maður ætlar sér að reka fyrirtæki með almennilegum hætti.“

Verkefnin af fjölbreyttum toga

Verkstæði Svans er umboðsaðili fyrir Quality Tractor Parts hér á landi og sérhæfir sig í alhliða viðgerðum á landbúnaðar- og dráttarvélum. Ásamt því er verkstæðið með söluumboð á Austurlandi fyrir kraftvélar frá tveimur þekktustu vörumerkjunum í bransanum; Case og New Holland, og heyvinnuvélar frá Puttinger.

„Verkstæði Svans fæst aðallega við almennar viðgerðir og tækjaviðgerðir en aðaláherslan er á landbúnaðar- og dráttarvélar. „Við vinnum mikið fyrir verktaka í hinum ýmsu greinum en líka Vegagerðina, Rarik og Landsnet. Á sumrin er gríðarlegt álag hjá okkur því þá bætist almenningur við og eru það þá aðallega ferðamenn sem leita til okkar,“ segir Svanur.

Barátta um þá bestu í bransanum

Hjá verkstæði Svans starfar þrautreyndur hópur starfsmanna sem eru sjö talsins. Svanur segist þakklátur sínum mönnum fyrir velviljann og dugnaðinn í gegnum tíðina.

„Hér starfa fimm reyndir viðgerðarmenn, einn sem sér um innflutning á varahlutum og með mér í þessu er eiginkonan sem er rekstrarfræðingur að mennt og hefur frá upphafi séð alfarið um bókhaldið.“

Að sögn Svans tíðkast það innan iðngreina að fólk flakki á milli starfa sem því býðst.

„Ég hef misst marga góða menn og sé eftir þeim öllum. Í þessum bransa eiga menn það til að vera svolítið sveimhuga og sérstaklega hér á Austurlandi, þar sem atvinnuleysi er varla nokkurt, þá er bara barátta um bestu mennina. Sérstaklega þegar maður hefur átt sinn þátt í að gera menn sýnilega færa í faginu, þá byrja önnur fyrirtæki fljótt að djöflast.“

Svanur sá sér leik á borði hvað starfsmannaveltu varðar og hefur verið með nokkur ungmenni í vinnu hjá sér síðustu sumur sem hann hefur hlotið mikið gagn af.

„Mér finnst mjög mikilvægt að vekja áhuga á greininni á meðal yngri kynslóðarinnar. Þau eru fljót að ná undirstöðuatriðunum og eiga skilið að fá tækifæri á vinnumarkaðnum.“

asthildur@mbl.is

mbl.is

Fleiri greinar og viðtöl

Samstarfsaðilar