„Menn eru þreyttir á að bíða“

Kópavogur
Kópavogur Árni Sæberg

„Verktakar sem eru að fjárfesta í dag sjá fyrir hækkanir á verði íbúða,“ segir Guðmundur Guðmundsson, einn eigenda verktakafyrirtækisins Dverghamars, en hann telur að verð á húsnæði þurfi að hækka svo nýleg verkefni komi jákvætt út fyrir verktaka og fjárfestingar haldi áfram. Segist hann ekki sjá fyrir neinar lækkanir á kostnaði og lóðaverð sé enn hátt sem geri verktökum erfitt fyrir við framkvæmdir og hækki kostnað til kaupanda. 

Það sem tekur mest í núna er lóðaverð, segir Guðmundur, en sem dæmi er það um 8 milljónir á íbúð á Kópavogstúninu og í efri hverfum Kópavogs eru þetta um 5 milljónir á íbúð í blokkunum. Hann segir byggingarkostnað nú þegar mjög háan, en auk þess sé fjármögnun dýr og félög sem séu í fjárfestingu núna reiði sig á að verð muni hækka áður en íbúðir verði seldar.

Hann telur að mest vanti af fjölbýlisíbúðum og þar af sé mikill skortur á leiguhúsnæði. Lánakjör sem bjóðist og krafa um mikið eigið fé komi aftur á móti í veg fyrir að verktakar geti eða vilji taka þá áhættu að fara í framkvæmdir. „Menn eru þreyttir á að bíða og vilja af stað, en þetta er ekki auðveld staða,“ segir Guðmundur og tekur fram að nýleg byggingarreglugerð geri mönnum enn erfiðara fyrir og nefnir að aðilar innan geirans hafi reiknað með allt að 10% hækkun byggingarkostnaðar vegna hennar.

Þrátt fyrir hækkandi verð segir Guðmundur að ekki líti út fyrir að fólk sé að minnka við sig og hann segir að fjölbýlisíbúðir séu margar hverjar allt að 200 fermetrum. „Það töluðu margir eftir hrun um að fara í minni íbúðir, en mér finnst eins og það stækki alltaf aftur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka