Raforkuskattur áfram til 2018

Katrín Júlíusdóttir fjármálaráðherra.
Katrín Júlíusdóttir fjármálaráðherra. Ernir Eyjólfsson

Raforkuskatturinn sem var settur á árið 2009 og áætlað var að félli niður í lok árs 2012 mun áfram vera í gildi fram til ársins 2018. Þetta staðfestir Katrín Júlíusdóttir fjármálaráðherra í samtali við mbl.is. Segir hún tímabundnar aðstæður ríkissjóðs og erfiðleika í efnahagslífinu kalla á áframhaldandi skattheimtu, auk þess sem útflutningsfyrirtæki eins og stóriðjan hafi helst notið ávinnings vegna lækkunar á gengi íslensku krónunnar og að í þeirri stöðu hafi ákvörðun um áframhaldandi skatt verið tekin.

Samkomulag um skatt með sólarlagi

Mbl.is hefur fyrr greint frá mikilli óánægju álframleiðenda, en árið 2009 var gerður samningur milli ríkisins og stóriðjufyrirtækjanna þess efnis að vegna erfiðleika í efnahagslífinu og erfiðrar stöðu ríkissjóðs myndu nokkrir af stærstu notendum raforku í landinu greiða 1,2 milljarða árlega frá 2010 til 2012 í fyrirframgreiðslu á tekjuskatti og öðrum opinberum gjöldum fyrir árin 2013 til 2018.

Einnig var komist að samkomulagi um að greiddur yrði 0,12 krónu skattur á hverja kílóvattsstund næstu þrjú árin og sérstaklega tekið fram að þessi nýi skattur myndi falla niður í lok árs 2012. Tiltekið var að markmið skattlagningarinnar mætti ekki fela í sér lakari starfsskilyrði fyrir fyrirtæki sem reka starfsemi sína hérlendis í samanburði við samkeppnisaðila á erlendum markaði. Þótt raforkuskatturinn lendi að mestu á stóriðjunni, en hún nýtir nálægt 80% af framleiddri raforku hérlendis, þýðir raforkuskattur einnig hærra verð til almennra notenda.

Segir skattlagninguna réttláta

Katrín segist hafa heyrt af óánægju stóriðjunnar vegna þeirrar áætlunar að framlengja raforkuskattinn fram til ársins 2018, en segir slíkt vera nauðsynlegt vegna stöðunnar sem enn sé uppi í dag. „Menn voru að bregðast við ákveðnum aðstæðum. Við þurftum að mæta erfiðri stöðu ríkissjóðs í kjölfarið á samdrætti í efnahagslífinu. Við erum ennþá með reksturinn í járnum þó að við séum að ná þeim árangri að vera búin að brúa fjárlagagatið að mestu á næsta ári.“

Skattlagningin er, að mati Katrínar, meðal annars réttlætanleg vegna þess að útflutningsfyrirtæki eins og stóriðjan hefur á síðustu árum hagnast mest á lækkun krónunnar. „Það er alveg ljóst að raforkuskatturinn kemur þyngst niður á útflutningsgreinunum, t.d. stóriðjunni, en það eru líka þær greinar sem hafa helst notið ávinnings af lækkun á gengi íslensku krónunnar og eru enn að njóta þess. Í þeirri stöðu er tekin ný ákvörðun um að halda þessu áfram, en þó í takmarkaðan tíma.“ Hún segir þó að sólarlag sé í þessari ákvörðun og að skatturinn muni falla niður árið 2018, nema ný ákvörðun verði tekin fyrir þann tíma.

Fælir fyrirtæki frá samningum við ríkið

Álfyrirtækin hafa mikið gagnrýnt fyrirhugaða framlengingu á skattheimtunni og sagði Magnús Þór Ásmundsson, framkvæmdastjóri Alcoa á Íslandi, að þetta væri skýlaust brot á  samningnum og að einnig væri mögulegt að þetta væri brot á fjárfestingasamningi Alcoa við íslensk stjórnvöld þegar fyrirtækið kom til landsins. Hann viðraði einnig þá skoðun að þetta útspil stjórnvalda gæti orsakað frekara vantraust fyrirtækja á ríkinu og myndi bæði fæla innlend fyrirtæki frá því að gera samninga við ríkið, eins og stóriðjan gerði 2009, og erlenda fjárfesta frá að koma hingað til lands með rekstur.

Skatturinn hóflegur

Katrín segir þetta þó af og frá og telur raforkuverð enn vera mjög ásættanlegt hér og það muni áfram trekkja að áhugasöm fyrirtæki. „Þegar menn gerðu þetta á sínum tíma voru gerð fyrirheit um að skattar á raforku og fljótandi kolefni yrðu ekki lagðir þannig á að það myndi raska samkeppni raforkunotenda hér á landi. Menn eru
sammála um það að þessi skattlagning hljóti að teljast hófleg í þessum alþjóðlega samanburði. Það er líka vert að nefna að þetta eru almennir skattar sem leggjast á alla selda raforku.“

Aðspurð hvort þetta brjóti gegn fjárfestingasamningi við Alcoa segir Katrín að samningur sem gerður hafi verið við félagið á sínum tíma hafi tekið til þess að ekki megi skattleggja félagið sérstaklega, en að ekkert mæli gegn almennri skattahækkun. Segir hún að þessi skattlagning sé ekki sértæk skattlagning, heldur almenn og því gangi þetta ekki gegn þeim samningi.

Alcoa Fjarðaál
Alcoa Fjarðaál Af vef Alcoa
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka