Fengu þúsundir umsókna á lokametrunum

mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Ríkisskattstjóra barst vel á fjórða þúsund umsókna á síðustu tíu dögum ársins 2017 vegna ráðstöfunar séreignarsparnaðar til kaupa á fyrstu íbúð. 

Umsóknarfrestur vegna íbúða sem voru keyptar fyrir 1. júlí 2017 rann út um áramótin en þegar leið á desember réðst ríkisskattstjóri í herferð til þess að minna fólk á úrræðið og frestinn. Til að mynda var auglýst í blöðum og sendir tölvupóstar á líklega umsækjendur. 

Herferðin skilaði því að um 3.500 bárust á síðustu tíu dögum ársins 2017. Í heild eru umsóknirnar um 4.600 sem þýðir að 75% umsókna hafi borist á lokametrunum. 

„Það var mikið um að vera milli jóla og nýárs, stærsti hluti umsóknanna barst á síðustu dögum ársins,“ segir Jarþrúður Hanna Jóhannsdóttir, sviðsstjóri atvinnurekstrarsviðs ríkisskattsjóra. 

Hún segir að ekki séu forsendur til að meta hversu margir sem voru gjaldgengir hafi gleymt að sækja um úrræðið. Það skýrist á næstu dögum og vikum þegar fólk fari að hafa samband. 

Úrræðið kveður á um að hámarkið sem ráðstafa má vegna kaupa á fyrstu íbúð sé 500 þúsund á ári. Ef allir umsækjendur nýttu sér úrræðið til fulls næmi umfangið því 2,3 milljörðum króna á ári. 

Nánari upplýsingar um úrræðið má finna á vef ríkisskattstjóra

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK