Tapa milljarði á dag

Frá látlausum mótmælum í Michigan.
Frá látlausum mótmælum í Michigan. AFP

Verkfall 50.000 starfsmanna bandaríska bílaframleiðandans General Motors (GM), sem framleiðir meðal annars Chevrolet og Cadillac, hefur nú staðið yfir í tæpan mánuð, eða frá 16. september. Fjöldi fólks mótmælti við verksmiðjur fyrirtækisins í Flint í Michigan og Hamtrack.

Talið er að fyrirtækið tapi um 1.100 milljónum króna á degi hverjum meðan á verkfalli stendur, og á sama tíma tapa starfsmenn, sem verða af launum þótt stéttarfélag starfsmanna (United Auto Workers Union) bæti einhvern hluta þess. Félagið hefur lagt starfsmönnum til 250 milljónir dollara, um 3,1 milljarð króna í hverri viku síðasta mánuðinn.

Enginn beygur virtist þó í þeim starfsmönnum sem BBC ræddi við í morgun. „Við erum tilbúin að vera hér eins lengi og þarf,“ segir Bill Brewer, gæðaeftirlitsmaður í verksmiðjunni í Flint og einn mótmælenda. Brewer hefur unnið hjá GM í 42 ár en þetta er þriðja og lengsta verkfall sem hann hefur tekið þátt í. 

Í sama streng tekur Stephanie Pink sem hefur unnið í verksmiðjunni í Hamtrack í fjögur ár. Hún segir stéttarfélagið hafa varað við að starfsmenn gætu þurft að ganga á sparnað. „Þetta er mjög erfitt, jafnvel þótt ég eigi einhvern sparnað. En við verðum að berjast fyrir réttlæti,“ segir hún. Til stendur að loka verksmiðjunni í janúar á næsta ári og færa störfin úr landi.

General Motors er stærsti bílaframleiðandi Bandaríkjanna og framleiðir meðal annars …
General Motors er stærsti bílaframleiðandi Bandaríkjanna og framleiðir meðal annars bíla undir merkjum Chevrolet og Cadillac. AFP

Hvorki hefur gengið né rekið í samningaviðræðum stéttarfélagsins og fyrirtækisins, en eitt meginsjónarmiða fulltrúa starfsmanna er að þeir hafi árið 2009 fært töluverðar fórnir til að koma fyrirtækinu aftur á laggirnar eftir að það var úrskurðað gjaldþrota. Starfsmenn samþykktu launaþak upp á 28 dali á tímann, um 3.500 krónur, og að fyrirtækið fengi að ráða til sín starfsmenn tímabundið á kjörum sem ekki samrýmdust kjarasamningum.

Frá endurreisninni hefur fyrirtækið skilað milljörðum dala í hagnað og vilja starfsmenn meina að þeir eigi skilið sneið af þeirri köku. „Við höfum lagt jafnmikið af mörkum til að framleiða þessa bíla og fólkið í jakkafötum og drögtum,“ segir Anesha Powell, einn starfsmanna, og bendir á að forstjóri fyrirtækisins hafi í fyrra þénað 2,7 milljarða króna.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK