Mesti fjöldi fasteignaviðskipta síðan 2007

Síðustu mánuði hefur fasteignamarkaður á höfuðborgarsvæðinu verið afar rólegur og …
Síðustu mánuði hefur fasteignamarkaður á höfuðborgarsvæðinu verið afar rólegur og verðhækkanir verið litlar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samkvæmt upplýsingum Þjóðskrár voru veruleg umskipti á fasteignamarkaði höfuðborgarsvæðisins í október hvað fjölda viðskipta varðar. Alls var 950 kaupsamningum þinglýst sem er 60% fleiri en í október fyrir ári síðan. Gögn Þjóðskrár benda til þess að viðskipti í stökum mánuði hafa ekki verið fleiri síðan í júní 2007.

Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans.

Fram kemur, að mikil viðskipti í september og svo metfjöldi nú í október hafi lyft meðaltali ársins 2019 talsvert upp.

„Ef þessi þróun heldur áfram er nokkuð ljóst að ekki sé lengur hægt að tala um að lægð sé yfir íbúðamarkaði.“

Hærra fermetraverð í Garðabæ

Bent er á, að seldar íbúðir í október hafi verið fleiri í öllum sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins en í október í fyrra. Hlutfallslega hafi aukningin verið mest í Garðabæ en þar var 85 kaupsamningum þinglýst í október, sem er 124% aukning frá því í október í fyrra, þegar 38 íbúðir seldust. Í Garðabæ er hærra ferðmetraverð en annars staðar á höfuðborgarsvæðinu og gæti hlutfallslega mikil sala þar gert það að verkum að meiri hækkun sjáist á vísitölu íbúðaverðs en ella.

Þá segir, að síðustu mánuði hafi fasteignamarkaður á höfuðborgarsvæðinu verið afar rólegur og verðhækkanir verið lágar. Kaupmáttur launa hafi hækkað meira en raunverð íbúða og aðstæður til húsnæðiskaupa séu því almennt nokkuð góðar.

Hækkanir gætu orðið meiri á næstu mánuðum

„Það kemur því ekki á óvart að sjá fasteignamarkaðinn taka við sér, þótt tölur októbermánaðar bendi til þess að aukningin sé meiri en búast mátti við. Það er óvíst hvaða áhrif þetta hefur á verðþróun næstu mánaða, en aukin sala almennt bendir til þess að spenna sé að aukast sem að óbreyttu veldur þrýstingi á verðlag og gætu hækkanir því orðið meiri á næstu mánuðum,“ segir í Hagsjánni. 

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK