Kauphöllin bregst við eftir fund fjármálaráðherra

Kauphöll Íslands hefur gripið til þess ráðs að setja bréf …
Kauphöll Íslands hefur gripið til þess ráðs að setja bréf ÍL-sjóðs á athugunarlista vegna ákvörðunar fjármálaráðherra. Ljósmynd/Aðsend

Kauphöll Íslands hefur sett skuldabréf ÍL-sjóðs á svokallaðan athugunarlista í kjölfar þess að fjármálaráðherra tilkynnti í gær að sjóðurinn yrði settur í slitameðferð nema að kröfuhafar hans samþykktu að taka sjóðinn yfir með verulegum afföllum af væntum greiðslum fram til ársins 2044.

Þetta staðfestir Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar í skriflegu svari til mbl.is en þar segir hann að ákvörðunin sé tekin vegna óvissu um „útgefandann og verðmyndun bréfanna.“

Enn fremur segir Magnús að Kauphöllin hafi ekki vitneskju um að til staðar sé ójafnræði í upplýsingagjöf meðal fjárfesta sem réttlætt gæti að stöðva viðskipti með bréfin.

Mbl.is hefur heimildir fyrir því að kallað hafi verið eftir því í kjölfar blaðamannafundarins sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra hélt í gær að viðskipti með bréf ÍL-sjóðs yrðu stöðvuð.

Einn af viðmælendum miðilsins sem þekkir vel til skuldabréfamarkaði fullyrðir að með fundinum hafi ráðherra í raun og sann fært niður virði þessara bréfa um 150 milljarða króna og að þess muni gæta í dag á mörkuðum. Þau áhrif muni hríslast víða, bæði inn í verðbréfasjóði sem haldi á umtalsverðum hluta bréfanna en einnig nái áhrifin til lífeyrissjóða sem eru stórir kröfuhafar á ÍL-sjóð.

Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar segir ekki ástæðu til þess að …
Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar segir ekki ástæðu til þess að stöðva viðskipti með bréf ÍL-sjóðs. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á fundinum í gær benti ráðherra á að með því að efna til slita ÍL-sjóðs gæti ríkissjóðu sparað sér nærri 150 milljarða króna að núvirði. Verði hins vegar ekkert gert á komandi árum til þess að stöðva hallarekstur sjóðsins muni uppsafnað tap nema 200 milljörðum króna að núvirði, eða um 450 milljörðum á verðlagi ársins 2044.

Ákvörðun ráðherra um að kalla eftir viðræðum við kröfuhafa byggir á lögfræðiáliti þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að ríkisábyrgð á bréfum ÍL-sjóðs sé svokölluð einföld ábyrgð en ekki sjálfskuldarábyrgð. Það þýði að ef sjóðurinn verði gerður upp, á grundvelli sérstakrar lagasetningar þar um, þá muni eignir sjóðsins ganga upp í að greiða höfuðstól útistandandi krafna auk áfallinna vaxta og að ríkissjóður þurfi að brúa bilið þar til að þeir fjármunir hafi verið gerðir upp, það uppgjör nemi tæpum 50 milljörðum.

Með þessu geti ríkissjóður í raun sparað sér 3,75% vexti auk verðbóta allt fram til ársins 2044 þegar líftími sjóðsins rennur sitt skeið á enda.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK