c

Pistlar:

6. desember 2012 kl. 15:53

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Icelandair veðjar áfram á Boeing

Í morgun var tilkynnt um undirritun viljayfirlýsingar milli Icelandair Group og Boeing flugvéla-framleiðandans um pöntun á 12 Boeing 737 Max vélum með kauprétti á öðrum 12 flugvélin til viðbótar. Gert er ráð fyrir fyrstu vélarnar bætist við flugflota Icelandair eftir fimm ár eða árið 2018. Fyrstu B-737 Max vélarnar koma í notkun 2017. Vangaveltur hafa verið um skeið hvort félaginu sé ekki nauðsynlegt að ráðast í endurnýjun flugvéla en eins og komið hefur fram hér áður er flugfloti Icelandair svo gamall að það kemur niður á samkeppnisstöðu félagsins. Greint hefur verið frá því að fjármögnun kaupanna verður bæði með sjóðstreymi úr rekstri félagsins sem hefðbundinni fjármögnun slíkra fjárfestinga. Einnig kom fram í tilkynningu til starfsmanna að viðræður hafa átt sér stað við Export-Import Bank of the United States varðandi stuðning bankans við fjármögnun vélanna. Samkvæmt áætlunum félagsins hafa kaupin ekki áhrif á núverandi arðgreiðslustefnu.

Það er ljóst að þessi viljayfirlýsing um flugvélakaup er mikilvægt fyrir félagið og Greining Íslandsbanka sagði strax í Morgunkorni sínu að hún styðji við áframhaldandi vöxt og jákvæða arðsemi félagsins. Verðmæti flugvélanna er samkvæmt listaverði framleiðanda um 1,2 milljarðar bandaríkjadala en endanlegt kaupverð er trúnaðarmál. Innan flugheimsins er talað um að Icelandair hafi fengið 50% afslátt frá listaverði. Þessi ákvörðun er því líklega sú fjárhagslega áhættuminnsta fyrir Icelandair. Um leið hefur hún verið gagnrýnd fyrir að vera ekki mjög framsýn hvað varðar flutningagetu á aðalleiðum félagsins og alls ekki hvað varðar farþegaþægindi og nútímatækni.

Endurnýjunarþörfin verið sláandi

Endurnýjunarþörfin hefur verið sláandi enda Icelandair með einn elsta ef ekki elsta flugflota á Norður-Atlantshafsleiðinni. 13. febrúar síðastliðin skrifaði undirritaður hér á sama vettvangi:

,,En eldsneytistölurnar afhjúpa einnig helsta veikleika Icelandair sem er sá að flugvélafloti félagsins er kominn til ára sinna. Með nýjum og sparneytnari vélum gæti félagið sparað allt að þriðjung eldsneytiskostnaðar síns. Í tilkynningu með síðasta uppgjöri er upplýst að Icelandair hyggist bæta tveimur nýjum vélum í flotann. Þær eru hins vegar ekki svo nýjar, líklega um 10 til 12 ára gamlar enda er Boeing löngu hætt að framleiða B757, þær hættu alveg að seljast, meðal annars vegna eldsneytiskostnaðar. Samkvæmt upplýsingum úr flugheiminum þá skoðuðu stjórnendur Icelandair möguleika á að taka tvær Boeing 767 breiðþotur - sem vel að merka eru 10 ára gamlar - í notkun í vor en úr því varð ekki, engar vélar á lausu og tíminn of naumur. Það kann að koma mönnum á óvart en eftirspurnin eftir ferðum á milli Kaupmannahafnar og London annars vegar og Bandaríkjanna hins vegar er það mikil þessa daganna að hún gæti réttlætt breiðþoturekstur."

En nú þegar ákvörðunin blasir við er vonlegt að menn velti fyrir sér hvaða áhrif það hefur á rekstur og framtíð Icelandair. Þær vélar sem hafa verið pantaðar taka eilítið færri farþega en núverandi flugvélar félagsins. Um er að ræða flugvélategund (B-737 Max 8 og Max 9) sem er endurbætt útgáfu af núverandi B-737 vél. Nýju vélarnar verða knúnar áfram með sparneytnari hreyflum en núverandi flugfloti Icelandair. Icelandair hefur gefið út að eldsneytisnotkun á hvert sæti muni minnka yfir 20% borið saman við núverandi flugflota Icelandair, sem samanstendur af B-757 vélum. Sé miðað við núverandi útgáfur B-737 þá verður eldsneytissparnaðurinn 13% á sæti.

Kaupa gamla hönnun

Með þessu tryggir Icelandair samstarf sitt við Boeing, kaupir gamla hönnun og fær ríkulegan afslátt. Sumir þeirra flugvélasérfræðing sem rætt var við benda hins vegar á að Boeing Max gerðin sé styttra komin í þróun en Airbus A320NEO en Airbus hefur selt um 1.500 vélar fyrirfram af þeirri gerð. Boeing er hins vegar búin að selja tæplega 1.000 vélar fyrirfram af nýju gerðunum en afhending þeirra hefst 2017 eins og áður sagði.

Ef við skoðum hönnunina betur verður að hafa í huga að minni hreyfill kemst undir vænginn en á Airbus vélinni vegna þess að vængurinn liggur lægra (e. ground clearance) sem þrengir að hönnun á hreyfilhúsinu og loftblásaranum framan á hreyflinum. Þetta er öryggisatriði sem harður Airbus maður sagði að væri óleyst hjá Boeing sem fyrir vikið hafi reynt að lyfta vélinni lítillega með því að hækka nefhjólið. ,,Þetta er skítamix," sagði viðkomandi á flugmannamáli en vitaskuld er engin ástæða til að efast um öryggi Boeing vélanna. Þá er því haldið fram að brautarþörf fyrir vélarnar liggi ekki fyrir þar sem afl hreyfilsins sé ekki með öllu á hreinu. Það hlýtur síðan að lokum að hafa áhrif á eyðsluna, nema hvað! Allt þetta sýnir að deilur eru harðar meðal flugsérfræðinga um ágæti og hentugleika Airbus og Boeing véla eftir gerðum. Stundum virðast þetta trúarbrögð og þá blasir við að Icelandair hefur ákveðið að halda sig við sinn söfnuð. Baráttan milli framleiðenda er mikil og hefur Airbus ekki þurft að veita eins mikla afslætti og Boeing þar sem þeir voru á undan og þeirra vél virðist hafa nokkurt forskot þar sem hún fór fyrr í þróun.

Þekkt í flugsögunni

Boeing 737 vélin var hönnuð fyrir næstum 45 árum síðan og hefur verið margendurbætt. Fyrir áhugamenn um íslenska flugsögu má nefna að Arnarflug byrjaði með 737 vélar og svo áttu Flugleiðir nokkrar slíkar af gerðinni  B-737-400  árunum 1990-2000. Þær voru seldar þegar Icelandair ákvað að vera með einsleitan flota af B-757.

Af Boeing 737 kom fyrst Classic útgáfan, síðan New Generation útgáfan og svo núna MAX útgáfan. Þær byggja því allar á 45 ára gamalli hönnun sem er búið að toga og teygja endalaust. A320 var hins vegar hönnuð á milli áranna 1980-87 og er því mun nýrri í grunninn og nýtur þess í sumu. Kunnugir segja að 737 MAX vélin sé mun þrengri að innan en A320. Munar 17 sm. á breiddina en einnig er lægra til lofts sem hefur í för með sér að ekki er hægt að nota gáma fyrir farangur og vörur eins og hjá Airbus. Margt er vitaskuld betra í nýju vélunum, bæði varðandi rými og gæði en LED-lýsing mun þar halda innreið sína, væntanlega til þægindaauka fyrir farþega.

Hörð samkeppni við Norwegian

En um leið hljóta að vakna vangaveltur um hvort þessar vélar henta að öllu leyti miðað þann vöxt sem hefur mátt sjá á markaðssvæði Icelandair. Pantaðar eru átta 737 MAX 8 vélar sem taka 153 farþega og fjórar 737 MAX 9 vélar sem taka 172 farþega miðað við sætafjölda Icelandair.  Til samanburðar taka Boeing 757-200 flugvélar Icelandair 183 farþega. Áður hefur verið fært í tal að Icelandair þurfi að skoða stærri vélar, jafnvel breiðþotur með þarfir flugs inn í Bandaríkin í huga. Einnig má hafa hugfast að Airbus flugvélar WOW Air (nýjar A320) eru rýmri á breidd og hæð fyrir farþegana. Sömuleiðis er stjórnklefinn rýmri.

Vert er að rifja upp að Icelandair er nýbúið afhenda Norwegian B-787 Dreamliner vélar sem félagið tryggði sér undir stjórn Hannesar Smárasonar. Þær verða væntanlega notaðar til að keppa við Icelandair á leiðinni Oslo-New York þegar þær verða teknar í notkun á næsta ári. Norwegian hefur eflst og hyggst bjóða upp á harða verðsamkeppni og með aukin þægindi breiðþotunnar, véla sem Icelandair var búið að tryggja sér á mjög góðu verði á sínum tíma. Á sínum tíma sögðu spartverskar mæður við syni sína; ef sverð þitt er of stutt, gakktu feti framar. Icelandair hefur ákveðið að notast áfram við stutt sverð í fargjaldastríðinu. Síðustu misseri hefur ekki verið ástæða til að setja mikið út á ákvarðanir stjórnenda Icelandair. Vonandi að það breytist ekki núna.