c

Pistlar:

18. febrúar 2014 kl. 13:25

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Saga SPRON

Saga sparisjóðanna er líklega táknrænni um sögu íslensks fjármálamarkaðar en margir hyggja. Sjóðirnir þróuðust frá því að sýsla með nokkrar krónur yfir gjaldkeraborðið í að verða leiksoppar á hinum alþjóðlega fjármálamarkaði og vera þannig þátttakendur í einhverju áhugaverðasta fjármálahruni sem sagan þekkir, og með því að nota orðið áhugavert er ekki verið að gera lítið úr þeim persónulegu áföllum sem fylgdu bankahruninu heldur benda á þær djúpstæðu átakalínur sem það dró fram, hugsanlega hefur það breytt íslensku samfélagi varanlega. Og svo eru að sjálfsögðu skrifaðar rannsóknarskýrslur um þetta allt saman. Það má auðvitað velta fyrir sér hvort sagnfræðingar megi sín einhvers í slíku upplýsingaflóði sem rannsóknarskýrslurnar eru? Jú, það má reyna og hér erum við með í höndunum sögu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, SPRON, sem Sögufélagið gaf út í samvinnu við Menningarsjóð SPRON.

Tvískipt saga

Saga SPRON er í raun tvískipt eins og áður sagði, þróunarsaga lítils sparisjóðs sem forvaltar þær fáu krónur sem liggja á lausu í því sem næst peningalausu hagkerfi. Þessi saga er hér rakin með ágætum, þar sem blandað er saman fyrirtækjasögu sjóðsins sem vex og stækkar í takt við vaxandi hagkerfi og svo hins vegar saga þessa sama hagkerfis sem er í raun ekkert hagkerfi heldur útibú frá stjórnmálalífi landsins. Allt er þetta rakið samviskusamlega eins og titill bókarinnar gefur til kynna; Hugsjónir, fjármál og pólitík.

Bókin veitir að því leiti ágætt yfirlit yfir þróun íslenska fjármálakerfisins þar sem breytingar gerðust lengst af hægt og þess vandlega gætt að velta ekki við viðkvæmum stoðum samfélagsins, svo sem helmingaskiptareglum þeim sem gefist höfðu svo vel. En allt í einu breytist allt, Ísland siglir inn í alþjóðavæðingu þá sem römmuð er rækilega inn í EES samningnum og smám saman tekur fyrirtækjamenning landsins að breytast. Lánsfé tekur að streyma til landsins, kauphallarviðskipti eflast með hverjum deginum og það er ekki endilega sjálfgefið að þeir sem áttu fyrirtækin í gær eigi þau á
morgun. Viðskiptablokkir hrynja og nýjar taka við. Spennan hleðst upp og átakalínur samfélagsins breytast hratt, SPRON er aldrei inn í miðju átakanna en veltist með utarlega í röstinni.

Hraði breytinganna jókst ár frá ári og fjármálakerfið yfirtekur hefðbundin fyrirtækjarekstur. Fjármálakerfið verður drottnandi í efnahagslífinu. Sparisjóðirnir eru eins og áður sagði tæpast gerendur í þeim leik, fjárhagslegur styrkur þeirra og útlánageta var hverfandi miðað við þá alþjóðlegu fjármálarisa sem hér urðu til á undraskömmum tíma. Til að gefa vísbendingar um stærðir má benda á að sparisjóðirnir voru um 4% af heildarumfangi fjármálafyrirtækja á árinu 2008 og undir 10% ef bara er horft á innanlandsstarfsemi.  Á þeim tíma var allt sparisjóðakerfið svipað að stærð og Straumur fjárfestingabanki. SPRON var síðasta félagið inn í Kauphöllina og átti þar sinn hápunkt, var metið á tæplega 90 milljarða króna en svo orðið verðlaust skömmu síðar. - Allt gerist þetta á ævintýralegum hraða.

Fangar formsins

Sparisjóðirnir fóru að sjálfsögðu ekki varhluta af átökum þessara tíma eins og rakið er rækilega í bókinni en segja má að allur seinni helmingur hennar fari í síðustu 15 til 20 árin af starfstíma SPRON. Tengsl sparisjóðanna við Kaupþing og síðar Exista höfðu mikil áhrif, hlutabréf í þessum félögum sköpuðu þeim mikinn hagnað sem að lokum reyndi á eignarhaldið og form þess. Að binda eignarhald í stofnfé var í lagi þar til menn töldu að einhver eign væri í sparisjóðunum! Eftir það fór formið að verða til trafala, rétt eins og átti við um samvinnufélögin skömmu áður. Erfitt var að styrkja eigið fé sjóðanna og kaup og sala á eignarhlutum torveld og skapaði endalausa tortryggni. Að því leyti má segja að saga bæði sparisjóða og samvinnufélaga sýni yfirburði hlutafélagaformsins, þó ekki sé það gallalaust.

Miklu plássi er varið í að lýsa þeim átökum sem urðu innan sparisjóðanna og sérstaklega SPRON síðustu árin fyrir bankahrunið. Þar styðst höfundur mjög við munnlegar heimildir þeirra mann sem voru innanbúðar í SPRON og ekki laust við að það jaðri við að nálægðin við þær heimildir sé of mikil á köflum. Ekki bætir úr skák að þeir sem sátu hinum megin við borðið höfnuðu samstarfi við höfund. Þá
er vandi á höndum við að gæta hlutlægni. Það vekur reyndar athygli að þeir sem ráða yfir gögnum SPRON í dag skuli hafa kosið að loka þau af fyrir höfundi. Þannig fékk hann ekki aðgang að fundargerðum og öðrum gögnum sem skiptu máli. Svo heppilega vildi til að stjórnendur félagsins höfðu afrit af þeim og bjargaði það málum. Allt er þetta þó heldur sérkennilegt.

Vissulega eru öll þessi átök áhugaverð, en líkast til er en of skammt um liðið til að unnt sé að gefa fullkomlega hlutlæga lýsingu á því sem fram fór. Þar eins og annars staðar sannaðist að engir er annars bróðir í leik. Í viðskiptum verða hagsmunirnir öðru yfirsterkari. Margt fróðlegt birtist þarna og ljóst að meiri og djúpstæðari heimilisvandi steðjaði að sparisjóðafjölskyldunni en landsmenn vissu af á þeim tíma. Nýjar upplýsingar birtast þarna um átökin við þann hóp sem gerði tilraun til að kaupa stofnfjárhafa út - svokallaða fimmmenningana - og þá aðkomu sem stjórnvöld höfðu að eigendamálum SPRON. Sumt teldist jafnvel fréttnæmt ef skortur væri á fréttum!

Þurfti SPRON að falla?

Það sem kann þó að þykja forvitnilegast eru nákvæmar lýsingar á atburðarásinni í kringum fall SPRON sem var settur undir skilanefnd í mars 2009, um sama leyti og Straumur var feldur. Báðar þessar aðgerðir voru mjög umdeildar og ekki bara meðal stjórnenda og eigenda fyrirtækjanna - en í flestum tilfellum voru eigendur búnir að horfast í augu við að hlutaféð var tapað. Margt bendir til þess að sú ringulreið sem ríkti fyrstu mánuði ársins 2009, í kjölfar stjórnarskipta, hafi gert illt verra og í bókinni er þeirri atburðarás lýst ágætlega. Hvort það var raunhæft að ætla að SPRON gæti sloppið í gegnum  þennan ólgusjó skal ósagt látið en hér koma fram nokkuð sannfærandi upplýsingar um að það hefði mátt reyna betur. Það sama átti sér stað með Straum fjárfestingabanka, starfsemi hans var lokað í miðju því ferli þegar menn töldu sig vera að bjarga honum. Í báðum tilfellum hljóta menn að velta fyrir sér hvort það hafi verið nauðsynlegt. Hugsanlega hefði það flýtt fyrir endurreisn efnahagslífsins ef þessar bankastofnanir hefðu lifað og við hefðum sloppið við að kynnast Dróma, sem er líklega versta útgáfa af fjármálastofnun, Drómi átti nefnilega enga viðskiptavini - bara kröfur!

Hjá sumum heyrðust þau rök fyrir lokun banka og annarra fyrirtækja eftir bankahrunið að í við gjaldþrotaskiptin fengist aðgangur að bókhaldi félaganna til að undirbúa glæparannsóknir. Hvað sem hæft er í því þá hafa engar slíkar rannsóknir orðið vegna falls SPRON. Eftir sitja hins vegar efasemdir um getu stjórnsýslunnar og yfirvalda til að greiða úr málinu og hugsanlega hefur allan vilja skort. En eru
ekki öll kurl komin til grafar í þeim efnum þó þessi saga bæti þar miklu við. Í því sambandi er þó vert að benda á rannsóknir Víglundar Þorsteinssonar, fyrrverandi formanns Samtaka iðnaðarins, en hann hefur grafið upp fundargerðir sem sýna þau vinnubrögð sem ríktu í kringum endurskipulagningu
fjármálakerfisins og fyrirtækja landsins eftir hrun. Þær renna stoðum undir vangaveltur um að SPRON hafi verið látið falla, meðal annars af því að ákveðið var að endurreisa Kaupþing banka undir nafni Arion.

Um bókina sjálfa er það að segja að uppsetning er með ágætum, fallegt letur, snyrtilegt umbrot og góðar spássíur. Myndir eru misjafnar að gæðum eins og gengur, töflur og gröf þokkaleg. Það verður að teljast smáatriði en 10 blaðsíðna innskot um lög sjóðsins framarlega í bókinni hefði átt betur heima aftast sem viðauki.  Að öðru leyti er kaflaskipting skýr og rökrétt, bókin er aðgengileg og hrein í framsetningu.

Kostnaður við söguritun og rannsóknarnefndir

SPRON hvarf í ölduróti bankahrunsins og þeir fjármunir sem um var deilt eru nú í höndum skila- og slitastjórna, sem er það rekstrarform sem hvað fyrirferðamest er í íslenskri fjármálastarfsemi í dag. Félagið náði þó að gera samning við Sögufélagið um útgáfu sögu sinnar, það er viðeigandi endir og tryggir að sagan lifir þó félagið sé horfið. Það að samningurinn er við Sögufélagið veitir höfundi skjól gagnvart greiðanda söguritunarinnar og eykur trúverðugleika útgáfunnar.  Það er Menningarsjóður SPRON sem er hinn formlegi greiðandi sögunnar en því félagi hefur verið slitið.

Nú er það svo að stundum eru gerðar athugasemdir við kostnað vegna söguritunar. Þá verður að hafa í huga að þeir fjármunir sem fara í að rita sögu  sem þessa eru aðeins brot af því sem varið er í að rita hina einstöku sögu bankahrunsins á Íslandi. Það er ekki hægt annað en að nefna það svona í lokin að nú mun kostnaður við rannsóknarnefnd um sparisjóðina vera komin upp í 560 milljónir króna, en talið er að kostnaðurinn verði á endanum a.m.k. 600 milljónir króna. Sú upphæð er hærri en eigið fé 7 af 9 sparisjóðum landsins miðað við lok árs 2012. Ef fjármununum hefði verið varið sem hlutafjárframlagi til þriggja  minnstu sjóðanna í dag, þá hefði eigið fé þeirra tvöfaldast. Það er umhugsunarverð staðreynd. Skýrslan um SPRON er svo væntanleg í næsta mánuði eins og hún hefur verið í all langan tíma. Fróðlegt verður að bera hana saman við þá sögu sem hér liggur til grundvallar.

Hugsjónir, fjármál og pólitík

Saga Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis í sjötíu og sjö ár.

Höfundur: Árni H. Kristjánsson

Sögufélagið, Rvík, 2013.

Greinin byggir að hluta til á fyrirlestri sem höfundur hélt á bókafundi Sagnfræðingafélagsins, Sögufélags og Reykjavíkurakademíunnar 13. febrúar síðastliðin.