c

Pistlar:

11. febrúar 2015 kl. 18:26

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Hagavatn: Lítil virkjun en miklar rannsóknir

„Rannsókn mannfræðinga þarf að liggja fyrir á því hvers vegna sumir segjast vera  náttúruverndarmenn á Íslandi og eigi með því köllun að vera, fyrst og síðast, gegn nýtingu endurnýjanlegrar orku. Ekki er það rányrkja! Skyldi það vera vegna þess að hún færir þjóðinni grundvallarauðæfi? Skyldi það vera vegna þess að orkuiðnaðurinn er verðugur andstæðingur og hagkvæmt er að hafa við hann þrætubók? Þangað er hægt að sækja aur í meiri og meiri rannsóknir á lífríki landsins með óbilgjörnum kröfum, látalátum og brigslum. Ég held það sé nærri sanni. Samkvænt fjárlögum kostar það ríkissjóð marga milljarða króna á ári að halda úti alls konar náttúrueftirliti með okkur sem erum illa innrætt og óheiðarleg gagnvart náttúru landsins.”

Þannig skrifar Erling Garðar Jónasson, fyrrum rafveitustjóri í Morgunblaðið, nú 11. febrúar. Erling titlar sig rafvæðingarmann en eins og tilvitnunin ber með sér þá er hann í hópi þeirra fjölmörgu Íslendinga sem vilja nýta og njóta landsins. Fyrir það þarf hann að þola kárínur og brigslyrði.

Það má alveg horfa til orða Erlings þegar við metum ýmis þau álitaefni sem við þurfum að fjalla um þegar kemur að því að hagnýta kosti landsins. Fyrir stuttu var Hagavatnsvirkjun gerð að umfjöllunarefni hér í pistli og með því fororði að framhald yrði á þeirri umræðu. Hagavatnsvirkjun er sannarlega ekki stór í neinu samhengi og framan af héldu menn meira að segja að hún væri ekki umdeild. Annað hefur komið á daginn.

400 umsagnir og engin neikvæð

Ef ætti að lýsa stöðu Hagavatnsvirkjunar í stuttu máli þá væri líklega frásögnin þannig: Öll gögn liggja fyrir til að taka afstöðu til verkefnisins. Í tveimur umsagnarferlum um rammaáætlun þar sem fram komu rúmlega 400 umsagnir var engin neikvæð umsögn um verkefnið við Hagavatn. Heimamenn eru nánast á einu máli um ágæti framkvæmdarinnar sem virðist fjárhagslega fýsileg og er þar að auki áhugaverð fyrir ferðamennsku á svæðinu. Einnig er verkefnið af skynsamlegri stærðargráðu og kemur með 20 til 30 MW inn á uppseldan raforkumarkað Íslendinga. Síðast en ekki síst, þá virðist verkefnið hafa jákvæð hliðaráhrif á umhverfi og draga verulega úr sandroki á svæðinu.

En hvað dvelur þá? Jú, líklega erum við komin með afbrigði af laxatrixinu”. Hvað á ég við með því? Jú, rétt eins og þegar allar upplýsingar lágu fyrir um virkjanirnar þrjár í Þjórsá, þá kom allt í einu upp umræða um að ekki væri búið að rannsaka nóg áhrifin á fiskistofna í Þjórsá, sérstaklega laxastofninn. Þær fullyrðingar komu ekki frá íslenskum sérfræðingum sem höfðu skrifað tugi skýrslna upp á mörg hundruð blaðsíður um fiskinn í Þjórsá. Aðspurðir sögðu þeir að miklar rannsóknir væru að baki, en eins og sönnum vísindamönnum sæmir, þá sögðu þeir einnig að vissulega væri hægt að rannsaka meira! Rétt eins og Erling bendir á hér í upphafsorðunum. Sama trixið virðist nú vera með Hagavatnsvirkjun, ekki séu nægar upplýsingar um sandfok á svæðinu, eða svo segir verkefnastjórn rammaáætlunar. Það þýðir ekki endilega að þá sé málið rannsakað frekar, nei þess í stað er það sett í biðstöðu sem ekkert virðist eiga að koma úr.

Skipulagsstofnun féllst á fyrirhugaða stækkun Hagavatns með skilyrðum árið 1996. Frekari rannsóknir hófust síðan í kjölfar hugmynda Landgræðslu ríkisins um að hefta sandfok og gróðureyðingu við Hagavatn sunnan Langjökuls. Í framhaldi þess óskaði Orkuveita Reykjavíkur eftir rannsóknarleyfi til athugana á virkjunarvalkosti við Hagavatn. Rannsóknarleyfi var síðan úthlutað þann 1. apríl 2007 og hófust þá umfangsmiklar rannsóknir á svæðinu, sem ná m.a. til útfærslu virkjunarhugmynda, mati á helstu umhverfisáhrifum, arðsemi og flestum þeim þáttum sem tengjast slíkri framkvæmd. Að sjálfsögðu er alltaf hægt að rannsaka meira, það er nú eðli slíkra vísinda, en það er ekki hægt að halda því fram að lítið hafi verið rannsakað.hagavatn

Ekki hægt að rannsaka í núverandi ástandi

Í grein hér fyrir stuttu kom fram að Hagavatnsvirkjun var meðal þeirra átta orkukosta sem þáverandi umhverfisráðherra fól nýrri verkefnastjórn að meta að nýju fyrir áfangaskýrslu í byrjun síðasta árs. Nýja verkefnisstjórnin greiddi ekki úr þessum óvissuþáttum, enda taldi hún sig hafa skamman tíma til að vinna álit sitt, og færði virkjunina ekki úr biðflokki í nýtingarflokk eins og flestir töldu að lægi beint við. Auk þeirra óvissuþátta sem fyrri verkefnisstjórn nefndi taldi sú nýja að óljóst væri hvernig tengingu virkjunarinnar við flutningskerfið yrði háttað. Það er úrlausnarefni sem verður auðveldara að fást við eftir því sem tækninni fleygir fram.

Eigi að síður töldu menn sig sjá nýja óvissu um fyrirkomulag og áhrif línulagna frá virkjuninni og samlegðaráhrif virkjunar og flutningskerfis. Því taldi verkefnisstjórnin sig ekki hafa forsendur til að meta virkjunarkostinn án aðkomu fullskipaðra faghópa. Hagavatnsvirkjun er því enn í biðflokki með þeim áhrifum sem það hefur eins og rakið var í ágætri fréttaskýringu Helga Bjarnasonar, blaðamanns Morgunblaðsins fyrir skömmu. Þótt heimilt sé að vinna að orkurannsóknum svo framarlega sem framkvæmdir vegna þeirra þurfi ekki að fara í umhverfismat, benda heimamenn á að erfitt sé að fjármagna rannsóknir á virkjanakostum sem séu fastir í biðflokki. Of mikil áhætta fylgi því.

Telja óvissu eytt

Íslensk vatnsorka tók við verkefnisstjórn Hagavatnsvirkjunar þegar Orkuveita Reykjavíkur sem unnið hafði að undirbúningi dró sig að mestu út úr þróun nýrra virkjana. Forsvarsmenn fyrirtækisins telja sig hafa svarað öllum þeim spurningum sem vaknað hafa og eytt þeirri óvissu sem verkefnisstjórnirnar hafa borið fyrir sig. Meðal annars hefur virkjanatilhöguninni verið breytt.

Hafa verður í huga að í dag liggja fyrir hugmyndir um virkjun Hagavatns sem hafa tekið umtalsverðum breytingum. Um er að ræða mun umhverfisvænni útfærslu en áður. Virkjunin verði meðal annars útfærð sem rennslisvirkjun sem mun tryggja stöðugra vatnsyfirborð ofan stíflu. Rafmagnstengingar verði að mestu leyti í jarðstrengjum. Vegslóðar og reiðleiðir verði samræmdar til að stemma stigu við utanvegaakstri, meðal annars við Jarlhettur. Þá blasir við að ný útfærsla virkjunarinnar gefur einnig kost á að opna fyrir ýmsa möguleika á frekari tengingu við starfsemi ferðaþjónustu á staðnum.  

Tillaga í umsagnarferli

Í áðurnefndri fréttaskýringu í Morgunblaðinu var bent á að Hagavatnsvirkjun er aftur komin í umræðuna nú vegna þess að í breytingartillögu meirihluta atvinnuveganefndar Alþingis, við tillögu umhverfisráðherra um að færa einungis Hvammsvirkjun í Þjórsá úr biðflokki í nýtingarflokk, eru fleiri kostir látnir fylgja, meðal annars Hagavatnsvirkjun. Tillagan er nú í umsagnarferli.

Auk ágreinings um virkjunarkostinn sjálfan sem væntanlega skýrist betur þegar umsagnir fara að birtast er deilt um það hvort rétt sé af Alþingi eða heimilt að taka upp orkukosti sem verkefnisstjórn hefur ekki lagt efnislegt mat á.

Fjármögnun verkefnisins hefur verið undirbúin og er heildarumfang framkvæmdanna af stærðargráðunni 5 milljarðar króna sem skapa mun störf fyrir um 300 manns á framkvæmdatíma. Af því sést að hér er ekki um að ræða mikla framkvæmd og ekki þarf að óttast þensluáhrif.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.