c

Pistlar:

4. janúar 2018 kl. 14:15

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Haglýsing í upphafi árs

Óhætt er að fullyrða að efnahagslíf landsins standi með óvenju miklum blóma nú í upphafi árs. Allar helstu hagtölur eru hagfeldar, atvinnuleysi í lágmarki, hagvöxtur í hámarki og það án þess að verðbólgan láti á sér kræla en hún var undir 2% allt síðasta ár. Með hverjum mánuðinum sem líður lengist það tímabil sem verðbólgan hefur verið innan 2,5% verðbólgumarkmiða Seðlabankans, sem er líka met.

Erlend skuldastaða þjóðarbúsins er með eindæmum og kaupmáttur hefur vaxið svo hratt að þess eru fá dæmi. Skuldir hins opinbera hafa lækkað og við nálgumst nú óðfluga svipaða skuldastöðu og Svíþjóð og Danmörk. Lánshæfiseinkun ríkissjóðs hélt áfram að batna og ríkissjóður fékk einstök kjör í síðasta skuldabréfaútboði sínu erlendis. Vaxtakostnaður ríkissjóðs hélt áfram að lækka. Eignastaða heimila og fyrirtækja styrkst. Húsnæðismarkaður hefur þokast í áttina að meira jafnvægi þó að skortur á framboðshliðinni hafi þrýst verði uppávið.króna

Met slegin

Met voru slegin. Einkaneysla, samneysla, þjóðarútgjöld og innflutt þjónusta hafa ekki vaxið jafn mikið á einum ársfjórðungi og gerðist á þriðja ársfjórðungi, eða allt síðan fyrir hrun. Þá var metár í fjárfestingu hins opinbera. Kortavelta heimilanna jókst að raunvirði um 11% milli ára á fyrstu 11 mánuðum síðasta árs. Í jólamánuðinum voru öll met slegin í verslun. Ekki hafa verið keyptir fleiri bílar á einu ári á Íslandi en á síðasta ári. Þrátt fyrir vaxandi vöruskiptahalla var ríflegur viðskiptaafgangur, þökk sé ferðaþjónustunni. Störfum heldur áfram að fjölga hratt.

Meiri hagsæld og betri lífskjör

Meira að segja skatturinn sér hagsældina. Íslend­ing­ar búa nú við meiri hag­sæld og betri lífs­kjör en nokkru sinni fyrr. Þetta sagði Páll Kol­beins, rekstr­ar­hag­fræðing­ur hjá rík­is­skatt­stjóra, í grein í Tí­und, blaði embætt­is­ins, sem kom út skömmu fyrir áramót.

Páll er reyndar að vísa til ársins 2016 en í grein­inni fjall­ar hann um niður­stöður álagn­ing­ar op­in­berra gjalda á lögaðila vegna rekstr­ar árs­ins 2016. Fyr­ir­tækj­um fjölgaði og fleiri fyr­ir­tæki voru rek­in með hagnaði og greiddu skatt af tekj­um og hagnaði en tekju­skatt­ur hef­ur aldrei verið jafn­mik­ill og árið 2016. Þá juk­ust launa­greiðslur fyr­ir­tækja og stofn­ana einnig mikið en þær voru nú í fyrsta skipti hærri en þær voru árið 2007 og hafa aldrei verið jafn­há­ar.

Laun í alþjóðlegum samanburði eru nú í hæstu hæðum og tekjujöfnuður hér á landi er sá mesti bæði í Evrópu og meðal OECD ríkja. Launahækkanir eru miklar og kaupmáttur enn í hæstu hæðum, hækkaði um rúmlega 5% á árinu. Eigna­aukn­ing líf­eyr­is­sjóðanna í ár er sú þriðja mesta í krón­um talið í sög­unni. Eign­ir sjóðanna hafa auk­ist ell­efu af síðustu tólf árum.

Gengi krónu stöðugt yfir árið

En nú er eðlilegt að einhver komi með mótbárur. Stöðugleiki, það er nú eitthvað sem við þekkjum ekki á Íslandi! Og blessuð krónan. Fellur hún ekki og þrýstir verðbólgunni af stað? Jú, íslenskt hagkerfi verður aldrei jafn stöðugt og stærri hagkerfi, það er rétt. En fyrir ári síðan veltu menn fyrir sér endanlegu afnámi hafta og hvort það næðist (fyrir fjórum árum óttuðust margir að höft yrðu hér um ókomna tíð.) Höftin eru farin en þrátt fyrir afnám hafta á flestar fjármagnshreyfingar milli landa og fátíð inngrip Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði hefur gengi krónunnar verið tiltölulega stöðugt frá miðju ári. Gengi krónu er þar að auki nánast það sama í árslok og það var í byrjun árs. Greining Íslandsbanka telur það til marks um vel heppnað haftaafnám og einnig vísbending um að allgott jafnvægi sé þessa dagana í gjaldeyrisflæði til og frá landinu, þar sem útflæði um fjármagnsjöfnuð ásamt gjaldeyriskaupum Seðlabankans fyrr á árinu hefur vegið upp innflæði vegna viðskiptaafgangs.

Fer verðbólgan af stað?

En þrátt fyrir að mörgu leyti öfundsverðar horfur þá vitum við að það þarf að hafa varan á sér þegar talað er um öfundsverðar horfur! Nákvæmlega hvað mun koma uppá verður ekki séð fyrir. Hvað varðar verðbólguþróun næsta árið leika k-in þrjú aðalhlutverkið, þ.e.a.s. kjarasamningar, kaupverð húsnæðis og krónan eins og greiningardeild Arion banka benti á fyrir stuttu. Greiningardeildin bendir réttilega á að verkfall flugvirkja og nýlegar ákvarðanir kjararáðs séu ekki til þess fallnar að viðhalda friði á vinnumarkaði, en tekin verður ákvörðun í febrúar hvort kjarasamningum verði rift. Peningastefnunefnd mun óhjákvæmilega fylgjast með þróuninni á vinnumarkaði, en verði samningum rift verður að teljast ólíklegt að vextir verði lækkaðir á næstunni. Haldi innlendur verðbólguþrýstingur áfram að aukast á komandi mánuðum er ljóst að hægja verður verulega á húsnæðisverðhækkunum til að halda verðbólgunni undir markmiði. Verðhjöðnun á húsnæðismarkaði virðist þannig okkar helsta von um að vinna gegn verðbólgu! Er það raunhæft?

Gleðilegt nýtt ár!

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.