c

Pistlar:

14. júlí 2018 kl. 17:02

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Þjóðhagslega mikilvægt flug

Undanfarin ár hafa verið vangaveltur um hvort skilgreina bæri íslensku flugfélögin Icelandair og WOW sem þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki. Þá að einhverju leyti í líkingu við það sem var reyndin með fjármálafyrirtæki okkar fyrir hrun. Segja má að þetta hafi verið meira vangaveltur en að þessi hugsun hafi hlotið mikið brautargengi. Margir lögðu þó við hlustir yfir þessu og víst er að það yrði ferðaþjónustunni gríðarlegt áfall ef annað hvort eða bæði þessi félög lentu í miklum rekstrarerfiðleikum, hvað þá stöðvun. Í ljósi mikilvægi ferðaþjónustunnar í hagkerfinu blasir við að slík atburðarás væri afdrifarík. En það er ekki verið að spá slíku hér og gera má ráð fyrir að þó illa færi hjá þessum félögum tæku líklega önnur flugfélög upp merkið og flyttu farþegar til og frá landinu. Undanfarið hafa birst afkomutölur hjá báðum þessum félögum sem hafa valdið ugg hjá mörgum og hlutabréfamarkaðurinn hefur refsað Icelandair harðlega og hefur félagið nú misst 75 prósent af markaðsvirði sínu. Aðaleigandi WOW hefur lengi gefið í skyn að leitað yrði eftir nýjum fjárfestum en ljóst að nýtt uppgjör sem sýnir 2400 milljóna króna tap á síðasta ári gerðir það síður fýsilegt fyrir hann að selja og aðra að kaupa.flug

Rifjast þá upp gamansagan af því hver er besta leiðin til að verða milljónamæringur, en það er að eiga milljarð og kaupa flugfélag! Fjárfestar hafa löngum haft varan á sér gagnvart flugrekstri sem oft hefur verið í höndum frumherja og manna sem hafa ástríðu fyrir rekstrinum. Þetta er rekstur sem mönnum sem þekkja á töflureikni gengur illa að ná utan um. Það má reyndar hafa í huga að flugrekstur hverskonar hefur löngum verið Íslendingum mikilvægur og margir Íslendingar efnast vel á honum. Um það eru margar sögur og hér er ekki langt síðan fjallað var um einn slíkan frumherja í tilefni ævisögu hans.

Verulega hægir á

Það er útlit fyrir að verulega hægi á fjölgun ferðamanna til landsins í ár. Tölur um fjölda ferðamanna í apríl komu greiningaraðilum nokkuð á óvart, enda höfðu þeir ekki reiknað með samdrætti. Greiningardeild Arion-banka bendir á að reikna megi með því að með því að maí verði nokkuð sterkari, enda bæði íslensku flugfélögin að stækka leiðarkerfi sín, en erfiðara er að segja til um sumarmánuðina. Það hefur lengi legið ljóst fyrir að fjölgun ferðamanna yfir sumarmánuðina yrði óveruleg, eða engin, enda háannatími í ferðaþjónustunni og hægara sagt en gert að verða sér úti um gistingu. Sem dæmi gerir spá ISAVIA ráð fyrir að ferðamönnum fækki yfir sumarmánuðina. Greiningardeildin telur að mesta spennan snúi að haust- og vetrarmánuðunum. Enn sem komið er hafa þeir ekki séð ástæðu til að breyta útistandandi spá sinni um fjölda ferðamanna, en þeir fara í engar grafgötur með það að áhættan liggur niður á við.

Þetta eru viðvörunarmerki og ber að taka alvarlega. Í júnímánuði 2013 stóð Icelandair fyrir tæplega 70 prósentum af brottförum frá Keflavíkurflugvelli í mánuðinum en til samanburðar nam hlutdeild félagsins rétt tæplega 45 prósentum í lok síðasta júní á þessu ári. Þessi þróun er jákvæð fyrir landið í heild þar sem áhættan er þá ekki öll hjá Icelandair. Vitaskuld veltur mikið á því að þeim sem hafa tekið við þessum rekstri farnist vel. Nú fljúga hátt í 30 flugfélög til og frá landinu og það er sérlega jákvæð þróun. Það breytir því ekki að starfsemi Icelandair og WOW er öðrum mikilvægari.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.