c

Pistlar:

23. júlí 2018 kl. 20:46

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Skáldalaun Gunnars Gunnarssonar

Það er merkilegt að lesa um lífshlaup Gunnars Gunnarssonar rithöfundar sem heldur til Kaupmannahafnar ungur að aldri og hafði þá aldrei komið til Reykjavíkur. Sjö árum síðar er Gunnar orðin rithöfundur í fullu starfi sem getur framfleytt fjölskyldu sinni og notið lífsins nánast óralangt frá því hokri sem hann flúði frá og ættingjar hans þurftu áfram að búa við á Íslandi. Þeir sendu honum saltaðan sauð til Kaupmannhafnar um jólin en hann sendi epli og konfekt til baka. Það er ekki annað hægt en að undrast þann frama sem beið ungs rithöfundar með skáldadrauma, sérstaklega þegar hugsað er til þess að hann mætti nánast ómenntaður til Danmerkur, án nokkurra tengsla eða þekkingar á dönsku samfélagi og þurfti að tileinka sér nýtt tungumál til að yrkja á.gunnar

Gunnar fæddist að Valþjófsstað í Fljótsdal 1889 en fór til Danmerkur 18 ára, til þess að setjast á skólabekk í lýðháskóla í Askov á Jótlandi. Nokkrum árum seinna er hann orðin sjálfstæður rithöfundur með umtalsverðar tekjur. Um þetta má lesa í ágætri ævisögu Gunnars eftir Jón Yngva Jóhannsson bókmenntafræðing sem kom út 2011. Nú, þegar búið er að ákveða að skrifa bókmenntasögu Íslands blasir við að fróðlegast er að lesa þær ágætu ævisögur íslenska skálda sem hafa hér komið út. Skáldskapur Gunnars er nútíma Íslendingnum ekki tamur en lífshlaup hans var forvitnilegt og Gunnar var ótvírætt sá rithöfundur íslenskur sem náði mestum frama í upphafi tuttugustu aldar.

Gríðarleg fjölgun rithöfunda

En Jón Yngvi setur Gunnar í forvitnilegt samhengi við danska bókmenntaþróun í upphafi aldarinnar. Svokallaðir átthagahöfundar höfðu tekið yfir danskan skáldskap sem var að nokkru til marks um breytingar í dönsku þjóðfélagi. Eins og Gunnar voru þeir af lágstéttinni, gjarnan úr sveitunum, og tóku yfir heim rithöfunda í Danmörku enda þessi kynslóð fjölmenn. Jón Yngvi heldur því fram að á fyrri helmingi tuttugustu aldar hafi komið fram á sjónarsviðið hvorki fleiri né færri en tvö þúsund nýir höfundar í Danmörku. Þessi kynslóð hafi gjarnan litið til baka til átthaganna enda aðeins um þriðjungur höfundanna fæddur í Kaupmannahöfn. Þessir höfundar voru af alþýðufólki komnir, ríflega helmingur taldist til lágstéttar eða lægri millistéttar. Margir þessara höfunda höfðu menntast í lýðháskólum eins og Gunnar.

En á hverju lifðu allir þessir rithöfundar? Jú, Jón Yngvi bendir á að á þessum tíma hafi verið að skapast mun betri aðstæður fyrir höfunda að lifa af skrifum sínum. Fjöldi dagblaða og tímarita jókst stórum skrefum og út um allt land risu upp félög sem réðu til sín fyrirlesara fyrir sæmilega borgun. Nýir hópar lesenda voru líka komnir til sögunnar, það var ekki bara borgarstéttin sem keypti og las bækur og tímarit. Handverksmenn, verkamann og vinnukonur í borgunum voru menntaðri en áður og þyrsti í frásagnir og ljóð frá sínum heimi, sveitunum. Sjálfsagt hefur uppgangur blaða og tímarita einnig skipt máli.

Veðja á Gunnar

Árið 1917 verða þáttaskil í samskiptum Gunnars og Gyldendal forlagsins sem gaf út bækur hans. Forlagið hafði að sögn Jóns Yngva veðjað á að Gunnar yrði metsöluhöfundur og Saga Borgarættarinnar kom fótum undir hann þó hún teljist vera byrjendaverk á ferli hans. Melódramatískt verk sem virtist falla Dönum vel í geð og var gefið út aftur og aftur. Og síðar einnig erlendis. En Gunnar gekk á lagið í samskiptum við forlagið og hann leggur til að hann fái samning sem færi honum 500 krónur á mánuði. Forlagið gekk að þessum kröfum Gunnars sem tryggði lífsafkomu hans næstu fimm árin. Árlega fékk því Gunnar greiddar 6000 krónur sem voru miklir peningar þá. Á þessum tíma voru íslenska og danska krónan jafngildar og Jón Yngvi nefnir til samanburðar að í fjárlögum íslenska ríkisins fyrir árin 1918-19 megi sjá að Gunnar hafði meiri tekjur en allir íslenskir menntamenn aðrir en ráðherrar. Verkfræðingur landsins hafði fjögur þúsund krónur í árslaun, biskupinn fimm þúsund og landsbókavörður og þjóðskjalavörður voru ekki nema hálfdrættingar á við Gunnar.Landnam

Allar greiðslur fóru í gegnum Gyldendal sem þjónaði Gunnari nánast eins og banki. Þannig lánaði forlagið honum fimm þúsund krónur með tryggingu í styrk sem honum hafði verið veittur á dönsku fjárlögunum upp á þúsund krónur á ári næstu fimm árin. Gunnari var reyndar hafnað um styrk á íslensku fjárlögunum þegar hann leitaði eftir því enda verður varla séð að hann hafi þurft á því að halda. Hann tók höfnuninni illa. Þegar Gunnar kom heim til Íslands nokkrum áratugum seinna var hann velstæður maður eins og sést af því að hann reisir hið mikla hús að Skriðuklaustri og hefur þar búskap sem hann ætlar öðrum að starfa við. Það reyndist honum dýrt en að lokum gaf hann íslenska ríkinu eignir sínar á Skriðuklaustri og byggði sér myndarlegt hús við Dyngjuveg í Reykjavík, en Rithöfundasamband Íslands á nú það hús. Saga Gunnars og sögur eru auðvitað merkilegar í íslenskri bókmenntasögu en ekki er síður forvitnilegt að sjá hversu vel honum reiddi af fjárhagslega. En auðvitað svalt hann um skeið áður en frægðin bankaði á dyr!

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.