c

Pistlar:

9. september 2018 kl. 13:16

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Ræningjabarónar nútímans

Um leið og hefðbundnum fjölmiðlum hér á landi og erlendis blæðir út fitna samfélagsmiðlar sem aldrei fyrr. Engum dylst að þarna er beint samhengi á milli. Samfélagsmiðlarnir fá efnið frá gömlu miðlunum ókeypis og taka síðan alla auglýsingasöluna. Svona rétt eins og Morgunblaðið birtir minningagreinarnar á meðan Fréttablaðið selur dánartilkynningarnar. Í leiðara Morgunblaðsins um helgina var vakin athygli á því að erlendar bókunarsíður taka til sín allt að 20 til 30% af tekjum vegna gistingar, bara fyrir það að koma viðskiptunum á. Það er svo hátt hlutfall að gististaðirnir eiga erfitt með að lifa á þessu. En fjölmiðlar myndu þakka fyrir þessa sneið af kökunni. Stóru samfélagsmiðlarnir taka nefnilega allt. Stærð og umfang þeirra gerir það að verkum að ómögulegt er að útiloka þá sem sést kannski best af því að sá er þennan pistil skrifar vekur athygli á honum í gegnum Facebook-síðu sína! Það er varla annað hægt og flestir fjölmiðlamenn gera það.

Fyrr en síðar hljóta menn að vakna og bregðast við. Í byrjun árs var vakin athygli á stöðunni á þessum vettvangi. Síðan hefur ástandið bara versnað og sér nú hver maður að rekstrarstaða íslenskra fjölmiðla er að færast á hættulegt stig. Það er vond niðurstaða fyrir allan rekstur að vera rekin með tapi og þurfa að treysta á framlög hluthafa.Editorial-Use-Social-Media-On-Android-Phone

70% auglýsingatekna í Bretlandi

En því miður er fátt sem bendir til þess að ástandið sé neitt að breytast. Talið er að Google og Facebook taki um 55% af öllum auglýsingatekjum á netinu í Bretlandi árið 2018 og árið 2020 verði hlutfallið 70%. Gagnrýni á gengdarlausa notkun þessara netrisa á fjölmiðlaefni og gögnum án endurgjalds verður stöðugt háværari en því miður hafa stjórnvöld ekki séð mörg tækifæri til að bregðast við. Aukin krafa á er á Evrópusambandið að setja þessari notkun ramma með löggjöf sem taki til höfundarréttar og notkunar á efni fjölmiðla. Um leið og augljóslega er gengið á höfundarrétt annarra fjölmiðla vefst fyrir mörgum hvernig beri að skilgreina samfélagsmiðlana sem eru ekki fjölmiðlar í hefðbundinni merkingu þess og rekstraraðilar þeirra því ekki útgefendur. Því getur vafist fyrir mörgum að skilja hlutverk þeirra á samkeppnismarkaði á meðan hefðbundnum fjölmiðlum blæðir út. Samfélagsmiðlarnir eru því að nokkru eins og ræningjabarónar nútímans.

Google fagnar 20 ára afmæli sínu um þessar mundir og menn eru smám saman að átta sig á áhrifum leitarvélarinnar á auglýsingasölu. Nýleg rannsókn í Sviss sýni að auglýsingatekjur hefðbundinna fjölmiðla höfðu dregist saman um 60% frá árinu 2008 til 2017. Google er nú með um 20% af auglýsingatekjum í Sviss. Hefðbundnir fjölmiðlar hafa reynt að breyta tekjumódelum sínum en flestum er ljóst að þeir verða að draga úr þjónustu sinni

Greiði fyrir efni

Um leið er vaxandi þrýstingur á Facebook að koma í veg fyrir að samfélagsmiðillinn sé notaður til að dreifa villandi upplýsingum. Facebook hefur brugðist við með því að segjast ætla að gefa þeim miðlum sem það teldi trúverðuga aukið vægi og hærri forgang umfram aðra miðla. Útgefendur segja að slíkar aðgerðir einar og sér væru ófullnægjandi og að samfélagsmiðlar ættu heldur að greiða útgefendum fyrir efnið á sama hátt og sjónvarpsstöðvar greiða fyrir efnið sem þær sýna. Það væri líklega skynsamleg byrjun.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.