c

Pistlar:

8. október 2018 kl. 17:56

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Hagfræðiverðlaun Nóbels: Loftslagsmál og nýsköpun

Sænska Nóbelsverðlaunanefndin ákvað að fara heldur óvenjulegar leiðir við verðlaunin í hagfræði þetta árið. Hún veitti þeim William D. Nordhaus frá Yale University og Paul M. Romer frá New York University’s Stern School of Business verðlaunin þetta árið. Annars vegar fyrir að innleiða langtímahugsun í loftslagsmálum og tengja það við hagfræðikenningar og svo hins vegar fyrir að gefa gaum að mikilvægi tækninýjunga við hagfræðirannsóknir. Að sumu leyti komu verðlaunin á óvart en þau eru sannarlega í takt við ákveðna umræðuhefð í samfélaginu.
Báðir eru verðlaunahafarnir frá Bandaríkjunum og það er ekkert nýtt við það. Nóbelsverðlaun í hagfræði voru sett á laggirnar 1969 og hafa farið til 81 einstaklinga, þar af 29 frá háskólanum í Chicago en Romer telst til þess hóps. Bandaríkjamenn hafa langoftast hlotið verðlaunin. Nefndin telur að tvímenningarnir hafi komið með mikilvægt framlag í þeim tilgangi að fást við nokkur af mest knýjandi vandamálum nútímans. Og það í þeim tilgangi að fella umræðu um þessi mál að langtímavexti og sjálfbærni í hagkerfunum.nobel


Kostnaður loftslagsbreytinga


Nordhaus er 77 ára að aldri, fæddur í Albuquerque í Nýju Mexíkó 1941. Hann lauk doktorsprófi hjá Massachusetts Institute of Technology í Cambridge árið 1967 og starfaði um skeið með Paul Samuelson sem fékk hagfræðiverðlaunin 1970. Hann hóf að vinna með hagfræðilegar nálganir tengd umhverfismálum á áttunda áratugnum en um tveggja ára skeið starfaði hann sem hagfræðilegur ráðgjafi fyrir Jimmy Carter Bandaríkjaforseta. Allt síðan þá hefur hann reynt að meta kostnaðinn af loftslagsbreytingum og hefur með þeim hætti haft talsverð áhrif á umræðuna. Á tíunda áratug síðustu aldar var hann fyrsti maðurinn til að koma fram með sannfærandi líkan sem mat áhrifin af samspili hagkerfa og loftslagsmála. Nýlega greindi hann frá því að hann hefði miklar efasemdir um að ríkisstjórnir heims myndu ná markmiðum Parísarsamkomulagsins um að hitastig hækkaði ekki meira en 2 gráður frá upphafi iðnbyltingar. Hann hefur verið talsmaður þess að setja á sérstakan kolefnaskatt til að ýta á eftir að markmiðin náist. Líklega er það engin tilviljun að Nóbelsnefndin kýs að beina sjónum sínum að slíkum kenningum núna.


Gagnrýnin á þjóðhagfræði


Romer er talsvert yngri eða 62 ára, fæddur í Denver en faðir hans var fylkisstjóri í Colorado. Hann lauk doktorsprófi frá Chicago-háskólanum og starfaði þar með og naut leiðsagnar Robert Lucas, sem var undir talsverðum áhrifum af markaðskenningum Milton Friedman. Romer hefur verið gagnrýnin á markaðskenningar, telur að markaðurinn sé ófullkomin um margt og verði ekki látin einráður. Hann vakti talsverða athygli þegar hann hætti sem aðalhagfræðingur Alþjóðabankans fyrr á árinu og gagnrýndi um leið stefnu bankans og alþjóðasamfélagsins. Hann telur að ráðamenn eigi að hætta að fínstilla hagkerfin með gamlar hagfræðikenningar að leiðarljósi. Þess í stað sé mikilvægt að horfa til nýrrar tækni og ýta undir hana þegar leitað er lausna, jafnvel á hagfræðilegum vandamálum. Hans helstu rannsóknir voru gerðar á tíunda áratugnum og þar reyndi hann að meta hvernig regluverkið og stjórnmálin geta unnið þannig að þau ýti undir langtímahagvöxt. Hugsanlega má kalla þessar kenningar hans innri vaxtarfræði eða „endogenous growth theory.“ Hann horfir þá einkum til þess hve mikilvægt sé að tryggja nýjungar og nýsköpun til að styðja við vöxt.

Romer hefur lengi verið talin líklegur til að hljóta verðlaunin og var meira að segja fyrir mistök tilkynntur sem verðlaunahafi 2016. Hann hefur verið umdeildur í fræðasamfélaginu en menn hafa þó lagt við hlustir þegar hann hefur orðið. Það verður ekki minna eftir þetta.


Romer hefur verið gagnrýnin á þjóðhagfræði og telur að ýmsar kenningar þar hafi gert ógagn og þokað fræðunum afturábak. Meðal annars sökum þess að hlutlægni gagna er ekki nægjanlegt. Sannarlega ekki til þess fallið að afla vinsælda í fræðaheiminum.


Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.