c

Pistlar:

24. júlí 2019 kl. 14:01

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Bókadómur: Ris og fall WOW


Saga flugfélagsins WOW air hefur haldið áfram þrátt fyrir að félagið hafi orðið gjaldþrota 28. mars síðastliðin. Óhætt er að segja að félagið hafi verið stöðugt í fréttum síðan. Nú síðast í Morgunblaði dagsins þar sem greint er frá stórhuga áformum nýs eiganda, Michelle Ballarin, um að endurreisa félagið. WOW er dautt - lengi lifi WOW! Sagan virðist endalaus. Viðtalið við Ballarin er reyndar áhugavert því sjálf virðist hún ævintýramanneskja af því tagi sem flugheimurinn dregur að sér. Um leið virðist hún heilluð af uppbyggingu WOW og markaðsstarfi þess og talar um WOW1 og WOW2, baráttunni er greinilega ekki lokið. Það er eiginlega synd að hún skuli ekki hafa mætt fyrr á staðinn ef hún er tilbúinn að setja mikla fjármuni í að endurreisa félagið. En það er önnur saga en bókin sem hér um ræðir greinir frá.wowmynd

Fyrir skömmu fylgdust landsmenn með því þegar síðasta þotan, sem var merkt WOW, flaug af landi brott eftir harðvítuga deilu flugvélaleigunnar og Isavia. Áfram verður tekist um þá hlið málsins og enn eiga margir þættir eftir að skýrast, sérstaklega er varðar þær tryggingar sem Isavia taldi sig hafa fyrir gjöldum sem hlóðust upp. Sama á við um þátt Samgöngustofu en forstjórar beggja fyrirtækja hafa hætt í kjölfar málsins. Það eitt og sér sýnir áhrif gjaldþrotsins á íslenska stjórnkerfið. Alvarlegra er þó þau áhrif sem það hefur haft á ferðaþjónustuna hér á landi og þá um leið efnahag landsmanna. Hér var fyrir stuttu velt vöngum yfir þeirri umræðu að hugsanlega hefði ríkið átt að stíga inn í reksturinn. Þeir sem ræða slíkt hafa ekki lesið bók Stefáns Einars. Hann slær allar slíkar hugmyndir út af borðinu enda augljóst að það var rétt eins og að grípa fallandi hníf. Upplýsingar voru á reiki um fjárhagsstöðu félagsins og því miður virðist hafa verið óverjandi að bjarga félaginu.

Það var vel af sér vikið hjá Stefáni Einari Stefánssyni, viðskiptaritstjóra Morgunblaðsins, að skrifa þessa bók sem kom út aðeins tveimur mánuðum eftir gjaldþrot WOW. Hægt er að undrast hve rösklega var gengið til verks en Stefán Einar hafði auðvitað fylgst vel með þróun mála og gjörþekkti til. Blaðamennskubækur hafa verið fyrirferðameiri eftir bankahrunið en þegar vel tekst til geta þær verið mikilvæg viðbót við þær fréttir sem fjölmiðlar flytja frá degi til dags. Tímarammi slíkra bóka er annar og þær gefa heildstæðari mynd þó þær séu skrifaðar á meðan rykið er enn að setjast. Það er síðan sagnfræðinga framtíðarinnar að koma að málum en við þekkjum að áratugir geta liðið áður en þeir fara að skoða mál, meðal annars þegar gögn verða betur aðgengileg. Þangað til geta menn haft mikið gagn af slíkum samantektum eins og bók Stefáns Einars um WOW sannar ágætlega. Oft hefur verið haft á orði að blaðamenn skrifi fyrsta ágrip sögunnar og nú virðast þeir líka koma með góðar neðanmálsgreinar. Talandi um neðanmálsgreinar. Stefán Einar leggur áherslu á að bókin er heimildarstýrð og með fylgir öflug tilvísanaskrá og reyndar einnig nafnaskrá. Það eru meðmæli með bók eins og þessari.

Frumkvöðullinn Skúli í forgrunni

Bókin spannar sögu WOW frá upphafi árs 2011 til enda en er um leið persónusaga frumkvöðulsins Skúla Mogensen sem hefur verið einn mest áberandi maður íslensks viðskiptalífs undanfarin misseri. Það er þannig athyglisvert að lesa lokaorð Stefáns Einars um Skúla: „Taka verður tillit til þess þegar rætt er um stjórnarhætti WOW air að aldrei fyrr í sögu Íslands hefur einn og sami maðurinn haldið jafn kirfilega um alla þræði í rekstri jafn umsvifamikils fyrirtækis sem jafn margir hafa átt lífsafkomu sína undir.“ (bls. 341)

Þegar þetta er lesið er eðlilegt að Skúli sé í forgrunni frásagnarinnar og hann er líklega eitthvert skýrasta dæmi um kosti og galla frumkvöðulsins. Tekið skal undir með Stefáni að þó að margt hafi tekist einstaklega vel framan af þá voru mistökin á seinni stigum dýrkeypt. Skúli situr uppi með það og hlýtur að naga sig í handarbakið yfir röngum ákvörðunum. Eftir á að hyggja eru þær sumar hverjar óskiljanlegar og voru strax undarlegar þegar um þær var tilkynnt. Svo sem það, að taka breiðþotur í reksturinn en þær féllu augljóslega ekki að viðskiptamódelinu og juku um leið áhættu rekstrarins stórkostlega. Þetta rekur Stefán Einar allt á sannfærandi hátt. Skúli vildi ekki vinna með Stefáni Einari við bókina en ekki verður séð að það skipti svo miklu máli. Skúli sjálfur hefur tjáð sig um gjaldþrotið og af þeim yfirlýsingum að dæma virðist hann ekki enn sá málið í réttu ljósi.

Í raun er ekki hægt að benda á neina utanaðkomandi þætti sem orsökuðu fall WOW air. Fallið skýrist fyrst og fremst af ákvörðunum stjórnandans Skúla Mogensen, það er hin augljósa niðurstaða af lestri bókarinnar. Hugsanlega má segja að þróun á eldsneytisverði hafi verið félaginu erfið en það er ekkert nýtt. Þar eins og annars staðar tók Skúli áhættu með því að vera ekki með markaðsvarnir eins og flest flugfélög gera. Í raun má segja að það hafi verið meira en lítið undarlegt af lánadrottnum að samþykkja slíkt fyrirkomulag. Öllu þessu gerir Stefán Einar ágæt skil og er með sérstakan kafla í lokin um rangar ákvarðanir Skúla. Það er sannfærandi röksemdafærsla.wow

Að brenna allar brýr að baki sér

Augljóslega munu margir tapa miklu fé á gjaldþroti WOW air og ekki öll kurl komin til grafar með það. Stefán Einar fullyrðir reyndar að framkoma Skúla í garð Steve Ferencz Udavar-Házy, eiganda Air Lease Corporation, geri það að verkum að Skúli muni ekki eiga möguleika á endurkomu í flugmálageiranum, slík séu völd Ungverjans auk þess sem svikin séu mörkuð sárum þar sem Steve hafi verið persónulegur velgjörðarmaður Skúla (bls. 334)

En Skúli lagði allt undir sjálfur og tapar miklu fé. Ekki skiptir síður máli að líklega verður honum erfitt að sannfæra fjárfesta á ný um að koma inn í rekstur með honum. Það er auðvelt að hrífast af slíkum eldhuga en auðvitað virðist sumt hafa stýrst af ofdrambi „hubris“ og fullkomnu skeytingarleysi fyrir áhættu. Stefán Einar fer rækilega ofan í saumana á rekstrarsögu félagsins og kemur með sannfærandi skýringar á því sem fór úrskeiðis. Inn á milli er hann með stílfærðar frásagnir til að fanga andrúmið í kringum söguna. Þó að margir telji að viðskipti snúist um debet og kredit þá er staðreyndin sú að þar má finna litríka einstaklinga sem gæða söguna lífi. Stefán Einar lífgar oft upp á frásögnina með slíkum sögum.

Frásögnin er ítarleg eins og áður sagði og fengur fyrir þá sem vilja gott yfirlit og betri innsýn í það sem gerðist. Fróðlegt hefði verið að fá að vita meira um hvað stjórnvöld voru að gera þegar rekstur WOW var orðin tvísýnn. Var kannski engin áætlun? Var eining innan ríkisstjórnarinnar en eins og getið var hér að framan hafa tveir forstjórar ríkisfyrirtækja orðið að víkja. Stefán Einar víkur að þessu (bls. 341) og þar má skilja hann svo að stjórnvöld hefðu átt að fylgjast betur með málinu. Undir það má taka. Í framhaldi gjaldþrotsins hafa vaknað vangaveltur um ábyrgð stjórna Isavia og Samgöngustofu. Þá hefði einnig verið fróðlegt að vita meira um aðkomu stjórnar WOW en af bókinni má ráða að hún hafi stutt Skúla í einu og öllu en þá um leið vanrækt aðhaldshlutverk sitt. Frekari útlistun á því hefði verið forvitnileg.

Það er mikil fengur að þessari bók fyrir þá sem vilja setja sig inn í stærsta fréttamál liðinna ára. Gjaldþrot WOW air telst til stórtíðinda í íslensku viðskiptalífi og hinum alþjóðlega flugheimi. Við erum minnt á það daglega að ekki eru öll kurl komin til grafar.


WOW ris og fall flugfélags
Höfundur: Stefán Einar Stefánsson,
Útgefandi: Vaka Helga­fell, 2019.
367 bls.