c

Pistlar:

26. ágúst 2019 kl. 10:59

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Að sjá fyrir stóra fjármálaskjálfta

Í lok árs 2012 voru sjö ítalskir jarðskjálftafræðingar sakfelldir fyrir að hafa ekki varað við jarðskjálfta í l'Aquila á Ítalíu sem átti sér stað í apríl 2009 en þar létust yfir þrjú hundruð manns. Óhætt er að segja að margir hafi undrast dóminn og ýmis alþjóðleg samtök náttúruvísindamanna mótmæltu honum harðlega. Alþjóðleg samtök jarðskjálftafræðinganna bentu á að fræðingar hefðu unnið lengi og ötullega að því að minnka áhættu vegna jarðhræringa og að mikilvægt væri að þróa réttan farveg fyrir samskipti milli vísindamanna, ráðamanna og samfélags. Óttuðust menn að dómurinn yrði til þess að bakslag kæmi í slíkar rannsóknir. Áður en skjálftinn átti sér stað höfðu verið allskonar vangaveltur um það hvort von væri á slíkum skjálfta eða ekki. Leikmönnum og sérfræðingum kom ekki saman um það en vísindin gátu ekki tekið af allan vafa. Sumt í náttúrunni er einfaldlega okkur mönnunum sem lokuð bók ennþá. Haraldur Sigurðsson jarðskjálftafræðingur hefur skrifað ágætar greinar um þetta.

En víkjum þá að skjálftum á fjármálamörkuðum. Þar eins og annars staðar greinir menn á um forspárgildi kenninga og vísinda. Þessa umræðu þekkjum við Íslendingar ágætlega en segja má að við höfum ákveðið að gera bankahrun að fræðigrein innan samtalsvísindanna. 

Ásgeir Jónsson, nýskipaður seðlabankastjóri, var í ágætu viðtali við Fréttablaðið um helgina. Þar var meðal annars rætt við hann um fyrri störf og þá sérstaklega þegar hann var nokkuð áberandi í kringum bankahrunið en þá var hann aðalhagfræðingur í greiningardeild Kaupþings en við því starfi tók hann aðeins 33 ára. Það heyrist frá sumum að það hafi gert Ásgeir á einhvern hátt óhæfan til að gegna starfi seðlabankastjóra. Að sú reynsla að ganga í gegnum bankahrun geri menn óhæfa, er það ekki einkennilegur skilningur á reynslu?ásgeir

Útrás og bankahrun

Í viðtalinu segist Ásgeir aldrei hafa stefnt á feril í banka en árið 2003 hafi hann verið beðinn að taka að sér starfið, þá 33 ára. „Þegar ég kom inn var búið að selja bankana og útrásin hafin,“ segir Ásgeir. „Mörg útrásarverkefni höfðu heppnast og stór alþjóðleg fyrirtæki sprottið upp eins og Bakkavör, Actavis, Marel og Össur. Þetta voru öflug rekstrarfélög og gekk vel.“ Hann segir að bankarnir hafi hitt á eins konar töfrastund. Árið 2000 sprakk hlutabréfabólan ytra og fyrstu íslenskur yfirtökurnar voru því á mjög hagstæðu verði. Aukinheldur hækkaði lánshæfi landsins upp í AAA árið 2002. Þannig skilaði útrásin undraverðum árangri í byrjun.

„Það var ungt fólk sem stóð að útrásinni, mín kynslóð, fólk sem var að útskrifast úr háskólanum á sama tíma og EES-samningurinn tók gildi 1994 og landið opnaðist. Þau tóku yfir stjórn bankanna og fyrirtækjanna,“ segir hann.

Hjá Kaupþingi sá Ásgeir meðal annars um að gera þjóðhagsspár en á þeim tíma töldu menn það einmitt til framdráttar hagfræðilegri umræðu að fleiri slíkar spár væru gerðar. „Íslenska hagkerfið hefur svo margoft farið í gegnum öldudali – þar sem allar uppsveiflur hafa endað með gengisfalli og verðbólguskoti. Það sá ég svo sem alveg fyrir sem og að það yrði samdráttur á fasteignamarkaði. En þegar ég lít til baka átta ég mig á að bæði ég sjálfur og flestir aðrir voru frekar bláeygir á stöðu bankanna og hina miklu skuldsetningu sem hafði grafið um sig í atvinnulífinu.“ Vandann segir hann hafa hafist þegar útrásin hætti að snúast um uppbyggingu rekstrarfélaga eftir 2004 en snerist að því að koma á fót fjármálamiðstöð. Það gat landið engan veginn borið.

Verðmæt reynsla

Eftir að Ásgeir var skipaður í Seðlabankann hafa sumir rifjað upp þennan tíma á ferli hans með gagnrýnum augum eins og blaðamaður Fréttablaðsins rifjar upp. Ásgeir segist skilja þær raddir. „Ég held að ekkert okkar sem vorum í hringiðunni í kringum hrunið séum söm á eftir og ég hefði viljað standa öðruvísi að mörgum málum – eftir á að hyggja,“ segir hann. „Það vilja allir sem að þessu komu. Í hugum margra var ég andlit Kaupþings og ég skil reiðina vel. Ég sjálfur álít að þessi reynsla sé mjög verðmæt fyrir mig sem seðlabankastjóra – ég þekki nú fullvel þau víti sem þarf að varast.“

Þrátt fyrir skipbrot bankanna telur Ásgeir að útrásin hafi ekki verið alslæm. Það sem eftir stendur er að Íslendingar náðu að byggja upp stór alþjóðleg fyrirtæki sem enn eru starfrækt. Þá hafi stjórnvöld staðið vel að enduruppbyggingunni á árunum eftir hrunið og aðgerðir eins og neyðarlögin hafi gefið tækifæri á að endurfjármagna atvinnulífið. „Þjóðin öll dró mikinn lærdóm af hruninu, fyrirtækin, stjórnmálin og almenningur, og við erum mun varkárari en áður. Þetta sést hvað best á því hvernig fyrirtæki eru rekin í dag, með minni skuldsetningu og meiri fagmennsku.“

Hvaða þekking er til staðar?

Þegar kreppur eru skoðaðar, hvort sem það eru bankakreppur eða kreppur sem eiga uppruna sinn annarsstaðar í efnahagslífinu, er eðlilegt að velta því fyrir sér hvaða þekking er yfir höfuð til staða? Hvaða upplýsingar höfum við og hvernig er hagfræði eða aðrar skyldar fræðigreinar í stakk búnar að leiða okkur áfram? Margir hafa bent á að hagkerfi séu óreiðuástand í eðli sínu og framvinda þeirra því ófyrirsjáanleg. Þannig séu hagkerfi ekki aðeins „háskaleg fyrirbæri“ heldur ríkir á þeim vettvangi mikil óvissa. Þar gerist óvænti atburðir, rétt eins og í sjálfri náttúrunni. Atvik og þættir sem verði einfaldlega ekki séðir fyrir.

Aðrir benda á að auk slíkrar óvissu geti þurft að beita sálfræðilegum skýringum til að skilja af hverju fólk tekur ákvarðanir sem eftir á að hyggja virðast vera galnar. Getur það verið að gróðavonin lami ákveðnar heilastöðvar í mönnum og þeir sjái því aðeins það sem þeir vilja sjá? Að hluta til tóna slíkar skýringar við þann kafla Rannsóknarskýrslunnar sem Hulda Þórisdóttir skrifaði. Þess undarlegri verður umræðan um bankahrunið á Íslandi sem að lokum varð að blöndu af þráhyggju og þorpsríg eins og dr. Þráinn Eggertsson hagfræðingur benti á en hann er einn þekktast fræðimaður heims á sviði stofnanahagfræði. „Bólur og hrun eru fylgifiskur markaðshagkerfisins. Við getum ekki hamið þessi fyrirbæri, enn sem komið er.“ (Sjá Þráinn Eggertsson, Frjáls verslun, 2 tbl. 2011.) Gæti það verið hluti af því sem við verðum að skoða eða telja menn að við getum hamið fjármálamarkaðina og leitt persónulega ábyrgð yfir fólk á falli þeirra. Mun sú vegferð enda betur en sú er farin var gegn jarðfræðingunum á Ítalíu?