c

Pistlar:

10. september 2019 kl. 22:08

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Fjárlagafrumvarpið - mótvægi við hagsveifluna?

Í fjárlagafrumvarpi næsta árs segir að það eigi að endurspegla markmið ríkisstjórnarinnar um að vinna gegn skammvinnri niðursveiflu í hagkerfinu í kjölfar samdráttar í ferðamennsku og loðnubrests. Tekið er fram að það eigi að gerast án þess að hverfa þurfi frá áformum um uppbyggingu innviða og grunnþjónustu ríkisins. Þetta er gert með því að slaka á í ríkisfjármálum og dregið verður úr áður fyrirhuguðum afgangi af rekstri ríkissjóðs. Það verður gert í von um að hagkerfið muni leita jafnvægis og að nýtt hagvaxtarskeið sé handan við hornið. Leiðarljós þessarar hagstjórnar er að stuðla að stöðugleika og bættum lífskjörum. Ef þetta fer eins og væntingar eru um í fjárlögum er auðveldara en oft áður að setja saman fjárlög!

Gott og vel, það er borð fyrir báru og ríkisstjórnin ætlar að nýta það. Auðvitað verður ríkisstjórnin að standa við fyrirheit um að styðja við kjarasamninga síðasta vetrar og fyrir vikið verður slakað á afgangi fjárlaga. Þetta eitt og sér ætti að draga úr vilja Seðlabankans að lækka vexti en við sjáum hvað setur. Hugsanlega standast verðbólgumarkmið þrátt fyrir þennan slaka í ríkisfjármálum. Það hefði hins vegar verið áhugavert að sjá einhverja tilraun til tiltektar í yfirbyggingu ríkisins. Lítilsháttar hagræðingarkrafa þar hefði bara verið holl og innlegg í fjárlagavinnuna framundan.fjarlög1

Mótvægi við hagsveifluna

Ríkisstjórnin telur sig eiga inni eftir það sem í fjárlagafrumvarpinu er kallað ábyrg stefna í efnahags- og ríkisfjármálum undanfarin ár. Það hafi stuðlað að mikið bættum ytri og innri viðnámsþrótti hagkerfisins og gefi stjórnvöldum færi á að beita hagstjórnartækjum með samhæfðum hætti til að draga úr niðursveiflu og örva hagkerfið eins og segir í fjárlagafrumvarpinu. Ekki eru áform uppi um að draga verulega úr útgjöldum eða grípa til skattahækkana líkt og stundum áður þegar hagvöxtur minnkar vegna veikrar fjárhagsstöðu ríkissjóðs.

Þess í stað hyggst ríkisstjórnin „leyfa“ ríkisfjármálunum að sinna hlutverki sínu við að dempa hagsveifluna með lægri skatttekjum, verulegri hækkun framlaga til atvinnuleysisbóta og auknum innviðaframkvæmdum. Í fjárlagafrumvarpinu er lagt upp með að sveigjanleiki gengis íslensku krónunnar, sem hefur að undanförnu endurspeglað undirliggjandi hagþróun, og lækkandi vextir Seðlabankans leggist einnig á sömu sveif en meginvextir bankans hafa aldrei verið lægri. Þá hafa aðilar vinnumarkaðarins lagt sitt af mörkum til að varna efnahagslegum óstöðugleika með nýlegum kjarasamningum sín á milli.

Ytri staða aldrei betri

Fjárlagagerðin markast af því að ytri staða þjóðarbúsins hefur sjaldan eða aldrei verið betri, afgangur hefur verið á viðskiptum við útlönd samfellt frá árinu 2009, hrein erlend staða var jákvæð sem nam 10% af VLF í árslok 2018 og 20% eftir fyrsta ársfjórðung 2019. Þetta er einstök staða og skuldir ríkissjóðs hafa helmingast frá árinu 2012.

Önnur birtingarmynd þessa er aukinn sparnaður heimila og fyrirtækja og lægri skuldastaða þeirra og þar með aukinn viðnámsþróttur gegn slaka í efnahagslífinu. Við þessar aðstæður er það trú ríkisstjórnarinnar að ríkisfjármálin geti veitt stuðning við heildareftirspurn, samhliða því að svigrúm ætti að gefast innan peningamálastefnunnar til að lækka vexti á réttum tímapunkti í hagsveiflunni.

Aukin tiltrú á tökum stjórnvalda á hagstjórninni hefur að sama skapi endurspeglast í góðu lánshæfismati ríkissjóðs og þeim greiningum og rökstuðningi sem að baki því býr. Sú tiltrú hefur margvíslega þýðingu en ekki síst fjárhagslega: ríkissjóði hafa aldrei áður boðist jafngóð kjör á skuldabréfamörkuðum en um þessar mundir, hvort sem er í íslenskum krónum eða evrum.

Svigrúm ríkissjóðs til þess að bregðast við hægari gangi í hagþróuninni má þakka ýmsum þáttum. Öguð fjármálastjórn er eitt en einnig stöðugleikaframlög vegna losunar fjármagnshafta og þá hafa aðrar óreglulegar tekjur á borð við arðgreiðslur verið nýttar til að lækka skuldir ríkisins verulega. Sterk staða ríkissjóðs endurspeglast meðal annars í nýbirtum ríkisreikningi ársins 2018, þar sem heildarafkoman var jákvæð.