c

Pistlar:

17. mars 2020 kl. 11:25

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Vírus og vísindi

Flestir trúa því að við lifum á tíma þekkingar og vísinda. Tækniþekking hverskonar vaxi svo hratt að það sé nánast ómögulegt að sjá fyrir þróun næstu ára. Þannig sé grunnþekking vísindanna í stöðum vexti samfara því að verkfræðileg geta til að koma með hagkvæmar lausnir vaxi nánast veldisfalt. Stutt er síðan við veltum fyrir okkur áhrifum gervigreindar og framandi lausnir í formi nanótækni virtust færar um að breyta efnisheimi okkar. Við höfum á undraskömmum tíma séð fátækar þjóðir lyftast til bjargálna og hagkerfi heimsins taka stakkaskiptum. Hraði breytinganna vex stöðugt og við bíðum spennt eftir að sjá hvað bíður okkar á morgun.

Mitt í þessari framfaraástandi (nei, ég gleymdi ekki loftslagsvandanum!) sitjum við nú einangruð á heimilum okkar og fylgjumst með nýjustu tíðindum af vírus sem lagt hefur heimsbyggðina að vell. Ekki í formi mannfalls, sem betur fer, heldur með því að slökkva á efnahag flestra landa og loka þjóðir heimsins af. Þrátt fyrir sérfræðiþekkingu og stofnanauppbyggingu sem ætlað er að fást við vágest sem þennan þá vitum við næsta lítið um framþróunina. Hve lengi mun þetta ástand vara og hvað áhrif mun það hafa á líf okkar? Af hverju svíkja vísindin okkur? Átti ekki að vera hægt að finna upp bóluefni á methraða?sótt

Sóttvarnasjónvarpið

Hér heima á Íslandi bíðum við eftir að sóttvarnarlæknir birtist á skjánum og aðal spennan fellst í vangaveltum um hvaða aukaleikarar birtast með. Er það útvarpsstjóri, formaður Landssamtaka aldraðra, yfirstrætóstjórinn, aðalskólakarlinn eða bara einhver sem vill höndla fimm mínútna frama við háborð sóttvarnanna? Á öld veirunnar verða sérfræðingarnir til á undraskömmum tíma og þó vitum við innst inni að við vitum ekkert. Meira að segja Kári Stefánsson hefur orðið að játa að hann misreiknaði sig um útbreiðslu veirunnar. Sumir segja að hann hafi startað skimun bara til þess að sýna að yfirvöld vissu ekkert um útbreiðslu veirunnar, hún væri komin út um allt. Sem betur fer hafði hann rangt fyrir sér og hann var maður til að gangast við því.

Neyslustopp

En veiran geisar áfram, 200 Íslendingar sýktir og 2000 í sóttkví og skimað er fyrir smiti nótt og dag. Á meðan eru götur tómar og fyrirtæki og stofnanir í lamasessi. Við Íslendingar getum þó borið höfuðið hátt, við sjáum fram úr smitun og veikindum en aðrar og stærri þjóðir virðast rétt á þröskuldi vandans. Því miður mun það hafa áhrif á líf okkar líka, því við erum öll eitt alheimsþorp og allir að versla við alla og í heimsókn hjá hverjum öðrum. Stundum er talið að neysla standi undir ríflega helmingi landsframleiðslu og þegar allir halda að sér höndum stoppar allt. Fyrirtækjastjórnendur segja að allar áætlanir séu nánast marklausar. Engin hefur treyst sér til að kveða upp úr hve viðamikið stoppið er, erum við að keyra hagkerfið á 40, 50 eða 60% af getu þess eða er stoppið enn dramatískara? Þetta veit enginn en margir búa við að fáar krónur koma í kassann. Fer einhver til rakarans eða tannlæknisins við þessar aðstæður? Sumir búa við fullkomna óvissu um efnahagslega framtíð sína. Í bankahruninu urðu ríkisstarfsmenn heitastir á börunum en nú eru barirnir ekki einu sinni opnir!

Hálf landsframleiðsla farin?

Ríkisstjórnin er að láta reikna út hvað hægt er að gera og þó að staðan bjóði upp á talsverðar aðgerðir þá er ljóst að ríkissjóður muni hætta að fá tekjur. Ef ríkissjóður hyggst verja 100 milljörðum í aðgerðir má allt eins gera ráð fyrir 200 milljarða halla vegna tekjumissis. Hugsanlega töpum við hálfri til einni landsframleiðslu á stoppinu. Einstaka þingmenn eru þegar farnir á taugum og sýna að forystuhæfileikar þeirra duga ekki yfir götuna.

En allt veltur þetta á því hvenær hlutirnir fara að lagast aftur. Hafa Kínverjar og S-Kóreumenn sýnt að það er hægt að ráða við þennan vágest eða er þetta bara stund milli stríða, hann virðist smitast furðu auðveldlega. Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn og allsherjarhuggari, hefur sagt að við getum byrjað að grilla aftur í júlí. Trump Bandaríkjaforseti segir að þetta muni vara út ágúst en augljósleg eru fáir sem treysta sér til þess að kveða upp úr um slíkt á þessari stundu. Enginn vill lenda í því sama og Ítalir en hætt er við að margir sem standa veikir fyrir fari illa út úr þessu. Ömurlegar flóttamannabúðir virðast ekki líklegar til að geta stutt við veika og aðstandendur þeirra. En nú er lóan komin, kjáninn sá, og vonandi að hún kveði burtu snjóinn og veiruna!