c

Pistlar:

18. mars 2020 kl. 15:17

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Haglýsing dagsins: Vírus og vaxtalækkanir

Það er ekki ofmælt að segja að efnahagur heimsins sigli í gegnum öldusjó þessa daganna. Þrátt fyrir að mönnum sé tamt að tala um fordæmalausa tíma reyna flestir að leita fordæma til að skilja ástandið. Pistlahöfundur í Markaðinum í dag vill sækja fordæmi til 11. september 2001 á meðan öðrum finnst bankakreppan 2008 nærtækara dæmi. Aðrir vilja leita allt aftur til tíma Spænsku veikinnar 1918. Þegar hlustað er á fólk víða í Evrópu þá rifjar það gjarnan upp heimsstyrjaldirnar tvær. Allt segir þetta okkur að fólk á enn í erfiðleikum að skilja og meta ástandið.

Óhætt er að segja að allsherjar stopp sé að færast yfir hagkerfi heimsins, þó með þeirri undantekningu að víða í Asíu eru framleiðsla að komast aftur á skrið. Nú er svo komið að Evrópa er farin fram úr Asíu í dauðsföllum en sýkingum fækkar í Kína og nú segja stjórnvöld þar aðalhættuna stafa af þeim sem koma annars staðar frá. Sýkingin sé ekki lengur þeirra vandamál! Á þessari stundu er því eðlilegt að menn spyrji sig hvort þjóðir Asíu hafi náð betri árangri við að fást við veiruna?

Allir fljúga heim

Þegar alþjóðlegir fjölmiðlar eru skoðaðir sést að gríðarlegar áhyggjur eru af framvindunni og ljóst að þar er ekki sama sátt við viðbrögð stjórnvalda og sóttvarnayfirvalda og hér á Íslandi. Fjölmiðlar hafa flutt frásagnir frá Norður-Ítalíu og þær eru átakanlegar, ljóst er að heilbrigðiskerfið ræður engan veginn við vandann. Það er ástand sem allir óttast en ástæða er til að hafa áhyggjur af því að önnur lönd sigli inn í svipað ástand. Ekkert heilbrigðiskerfi ræður við faraldur eins og þennan ef hann nær að grassera óáreittur.

Harðar deilur eru um aðgerðir, bæði í Bandaríkjunum og Evrópu um leið og þjóðir heims keppast við að loka landsmærum sínum. Þjóðflutningar eru víða þegar fólk reynir að komast til síns heimalands þar sem það nýtur enn sjúkratrygginga. Stórir hópar Íslendinga reyna nú að fá flugfar heim af vetrardvalasvæðum sínum. Allra bíður nú að fara í sóttkví þannig að ef þorri þeirra Íslendinga sem eru erlendis koma heim þá bætist heldur betur í tölu þeirra sem eru í sóttkví.Sty_rivextir-Se_labankans-514

Reynt að grípa krónu og kauphöll

Kauphöllin hér hefur verið í frjálsu falli rétt eins og annars staðar. Krónan hefur gefið eftir þó að seðlabankinn reyni að sporna við með gjaldeyriskaupum en engin efast um að varasjóðurinn er stór. En hvenær er rétt að nota hann? Seðlabankinn hóf svo daginn með því að lækka vexti og ráðast í aðgerðir til að auka útlánagetu bankanna um 350 milljarða króna. Áður hafði bankinn lækkað bindiskyldu sem jók útlánagetuna um 40 milljarða. Samtals hefur útlánageta bankanna því aukist um 390 milljarða króna á einni viku, vegna ákvarðana Seðlabankans. Um leið segir seðlabankastjóri: You Ain't Seen Nothing Yet. En hvert eiga peningarnir að fara og eru þessar aðgerðir til þess fallnar að vera sannfærandi? Bregður svo við að bæði sósíalistar og skuldabréfahaukar segja nei. Þeir eru ekki sannfærðir. Og einhversstaðar er ríkisstjórnin að safna í nýjan aðgerðafund.