c

Pistlar:

8. júlí 2020 kl. 15:32

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Tesla er verðmætasti bílamerkið

Daginn fyrir þjóðhátíðardag Bandaríkjanna varð Tesla rafmagnsbílaframleiðandinn verðmætasta bílamerkið í heiminum en þá tók Tesla fram úr Toyota sem þá var metið á 208 milljarða Bandaríkjadala. Á þjóðhátíðardag Bandaríkjanna tilkynnti Tesla að félagið væri að ná markmiðum sínum um afhendingu bíla og við það hækkaði verðmæti félagsins enn frekar eða upp í um 225 milljarða Bandaríkjadala eða um 31.500 milljarða íslenskra króna sem er á að giska tíföld landsframleiðsla Íslands.elon_musk_royal_society

Þó að sala á Tesla bílum hafi aukist jöfnum höndum hér á landi sem og annars staðar þá er það ekki fjöldi seldra bíla sem ræður úrslitum um verðlagningu hluta bréfa félagsins. Í verði þeirra eru miklar væntingar og trú fjárfesta á að félaginu en þó ekki síður að hinum óvenjulega stjórnanda þess, Elon Musk, takist að hafa stefnumótandi áhrif á bílamarkað heimsins. Elon Musk þiggur ekki laun hjá Tesla þar sem hann er forstjóri. Það breytir því ekki að Forbes telur að auður hans hafi aukist um ríflega 20 milljarða Bandaríkjadala það sem af er ári en hann fagnar 50 ára afmæli sínu á næsta ári. Musk er um margt óvenjulegur maður og umsvifum hans og lífi hefur verið gerð skil í nokkrum pistlum hér.

1.800% aukning á átta árum

Hann á 13% hlutafjár í Tesla og auður hans jókst um 5,2 milljarða dala við hækkunina nú í byrjun júlí. Það færir heildarauð hans upp í um 47 milljarða dala samkvæmt bókhaldi Forbes tímaritsins en auður hans hefur vaxið um 1.800% síðustu átta árum. Musk hefur ekki selt hlutabréf í Tesla síðan árið 2010. „Mér gæti ekki verið meira saman,“ sagði hann í samtali við Forbes þegar hann var spurður út í auð sínn fyrir stuttu. „Þessar tölur hækka og lækka en það sem skiptir máli er að framleiða vörur sem neytendur kunna að meta.“

Musk er nú í 16. sæti yfir ríkustu Bandaríkjamennina, rétt á eftir iðnjöfrinum Charles Koch og Juliu Koch, ekkju Davíðs bróðurs hans. Á heimsvísu telst Musk nú vera 22. ríkasti maður heims en auður hans hefur aukist um 21,7 milljarð dala síðan í mars en þrjú ár á undan höfðu ekki orðið miklar breytingar á auði hans.. Það er ekki langt síðan Musk komst inn á lista hinna ofurauðugu í Bandaríkjunum en þar hefur hann verið síðan 2012. Þá var hann settur í 190 sæti með sína 2,4 milljarða dala! Hann á nú 19 falda þá upphæð, fádæma hækkun á stuttum tíma.

Verðmæti Tesla eykst og eykst þrátt fyrir að félagið framleiði mun færri bíla en hinir stóru framleiðendurnir. Tesla framleiddi 103.000 bíla á fyrsta ársfjórungi sem er ekki nema 4% af því sem Toyota framleiddi á sama tíma.

Greinendur eiga erfitt með að meta stöðuna og á meðan þyrpast fjárfestar í bréf Tesla og breytir engu þó að skortsölumenn hafi reglulega gert atlögu að félaginu. Musk hæðist reglulega að þeim og virðist uppskera tiltrú fjárfesta. Á meðan hafa greiningaraðilar eins og Adam Jonas hjá Morgan Stanley varað fjárfesta við að meta Teslu eins og tæknifyrirtæki eins og Apple og Google. Hann segir að viðskiptamódel Teslu sé eðli málsins samkvæmt allt öðru vísi. Dan Ives hjá Wedbush Securities er bjartsýnni og bendir á að Teslu hafi tekist ótrúlega vel að bíta af sér faraldurinn. Félagið hafi nánast haldið fullu dampi við framleiðslu og afhendingu. Það sé eitthvað sem fjárfestar ættu að horfa til.