c

Pistlar:

22. júlí 2020 kl. 12:53

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Yngsti þingmaðurinn - elsti forsetinn?

Nú eru rétt rúmlega þrír mánuðir í forsetakosningar í Bandaríkjunum og eins og staðan er núna eru mestar líkur á að öldungadeildarþingmaðurinn Joseph R. Biden, Jr, frambjóðandi demókrata, verði kosinn og taki við sem 46. forseti Bandaríkjanna. Á sínum tíma var hann einn yngsti maðurinn til að taka sæti í öldungadeild Bandaríkjanna en hann var 30 ára, 1 mánaða og 14 daga þegar hann tók sæti þar í janúar 1973. Þá reyndar við hörmulegar aðstæður þar sem kona hans og ung dóttir höfðu látið lífið í umferðaslysi skömmu eftir að hann var kosinn. Um leið slösuðust tveir yngri synir hans illa. Þjóðin var slegin og Richard Nixon, þáverandi forseti Bandaríkjanna, hringdi í Biden með huggunarorð á vörum. Sem var sjálfsagt eilítið skrítið því óbeit Bidens á Nixon varð til þess að hann gekk í demókrataflokkinn. Sorgin knúði aftur dyra 2015 þegar sonur hans, Joseph Robinette „Beau“ Biden III, lést úr krabbameini.biden

En ef marka má kannanir þá virðist Biden hafa góða möguleika á að verða elsti forseti Bandaríkjanna og þó að kjósendur hans séu án ef glaðir við þá tilhugsun að geta losnað við Donald Trump þá virðist Biden ekki beinlínis vera óskaniðurstaða fyrir neinn. Þannig er nær að lýsa honum sem einhverskonar málamiðlun í flokki sem reynir að þóknast sem flestum, nú eða lægsti samnefnarinn svo gripið sé til kunnuglegs stjórnmálaslangurs. Enda er það svo að mörgum finnst Biden heldur afdráttarlaus í pólitík sinni eftir að hafa verið í miðju valdsins í Bandaríkjunum stærstan hluta af ævi sinni. Í síðustu kosningum fundu margir það helst að Hillary Clinton, sem þá atti kappi við Donald Trump, að hún væri hluti af valdaklíkunni á Capitol Hill. Sé það henni til áfellis, hvað má þá segja um Joe Biden?

Biden reyndi fyrir sér sem forsetaframbjóðandi í forkosningum 1988 og 2008 en varð frá að hverfa í bæði skiptin. Hann varð hins vegar 47. varaforseti Bandaríkjanna og starfaði náið með Barack Obama sem kynnti hann til leiks sem varaforsetaefni að loknum forkosningunum. Það var að sjálfsögðu taktískur leikur hjá Obama sem þurfti að sækja inn á miðjuna en það er hlutverk varaforsetans að stoppa í hin póltísku göt og afla fylgjenda þar sem forsetaefnið sjálft getur ekki sótt fram. Þess er vænst núna að Biden njóti Obama-tengslanna og sæki fylgi til blökkumanna umfram annað en til þess er tekið að konur í þeim hópi kjósa mjög stíft demókrataflokkinn. Á tíma virtist sem ýmsar atvinnuskapandi aðgerðir Trumps hefðu nýst blökkumönnum og aukið fylgi hans þar en síðan faraldurinn hóf innreið sína og ekki síst átökin í kjölfar drápsins á George Floyd í Minneapolis í maí hefur sá ávinningur horfið Trump. Hann verður nú að treysta á að efnahagurinn nái sér á skrið fyrir kosningarnar.

Hætturnar eru víða

En þetta eru varasamir tímar og það verður að tipla á tánum í umræðunni. Það fann Biden í maí síðastliðnum þegar hann lét heldur hvatvísleg ummæli falla í útvarpsviðtali. Hann hafði áður talað um langvarandi tengsl sín við samfélag blökkumanna. Gerði hann meðal annars sigur sinn í forkosningum í Suður-Karólínu fyrr á árinu, þar sem meirihluti kjósenda er þeldökkur. Hann sagðist hafa hlotið meira fylgi meðal blökkumanna í ríkinu en nokkur annar demókrati í sögu forkosninga í ríkinu, þeirra á meðal Barack Obama. Í lok viðtalsins sinnaðist honum við útvarpsmanninn og sagði: „Ef þú átt í vandræðum með að átta þig á hvort þú ætlir að velja mig eða Trump, þá ertu ekki svartur.“ Biden baðst afsökunar á ummælunum og sagði sjálfan sig hafa verið kærulausan. Meira að segja frjálslyndir menn eins og Biden verða að vara sig á þeim vökulu (e. woke).

Alltaf stefnt á forsetann

Biden hefur stefnt að því að verða forseti frá því hann hóf stjórnmálaferil sinn. Nú þegar sótt er fast að Trump vegna viðbragða hans við COVID-19 faraldrinum og með bókum sem rifja upp hverskonar maður hann er, meðal annars frá nákomnum ættingjum, mun sjálfsagt vera rifjað upp að faðir Bidens hafði hagnast á stríðsbraski í seinni heimstyrjöldinni en tapað fjármununum aftur. Biden ólst því upp við lítil efni og vann ávallt með námi. Eitt sinn munaði ekki miklu að illa færi en þá fékk hann sérstaka undanþágu til að ljúka laganámi sínu eftir að samnemandi hans kærði hann fyrir ritstuld. Niðurstaða skólans var að gefa Biden tækifæri til að taka kúrsinn aftur og að lokum útskrifaðist hann, einna neðstur í sínum árgangi í lögfræðinni. Seinna var hann aftur sakaður um ritstuld vegna ræðu sem hann flutti, að þessu sinni þótti hún fulllík ræðu sem Neil Kinnock, hinn heldur misheppnaði leiðtogi Verkamannaflokksins í Bretlandi, hafði flutt einhverjusinni.

Biden hafði ætlað sér að hasla sér völl sem málflutningsmaður en hann hafði hins vegar mikinn pólitískan áhuga og hófst hratt til metorða með óvæntum sigri til öldungadeildar fyrir Delaware ríkið á austurströnd Bandaríkjanna árið 1972. Sigurinn var eins naumur og hugsast gat en dugði honum til að verða fulltrúi Delaware sem er líklega þekktast fyrir að vera nokkurskonar skúffuríki Bandaríkjanna enda heimsins besta skattaskjól samkvæmt rannsókn The Financial Secrecy Agency frá því fyrir nokkrum árum. Allmörg íslensk fyrirtæki í útrás hafa skráð móðurfélög sín þar og er móðurfélag deCODE líklega þekktasta dæmið um það og slitameðferð félagsins fór einmitt fram þar á sínum tíma. Áður hefur verið vikið að Delaware hér í pistlum.

Biden er fæddur 1942 og verður því á 78 ára þegar hann verður vígður sem forseti í janúar ef fer eins og kannanir spá núna. Hann hefur ekki virkað traustvekjandi og talsvert rætt um að honum sé farið að förlast. Kosningataktíkin gengur greinilega út á að mæla fram mild slagorð velferðarmála og forðast bein átök. Rætt er um að Biden hyggist hafna því að mæta Trump í sjónvarpskappræðum þegar nær dregur kosningum. Leiðarahöfundur Morgunblaðsins talar um að hann verði geymdur í kjallaranum! En rétt eins og hin vinsamlegi Chauncey Gardner-Johnson í Being There þarf hann að koma fram í sviðsljósið ætli hann að láta æskudraumin rættast áður en ellin nær í skottið á honum.