c

Pistlar:

3. ágúst 2020 kl. 11:25

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Leiksoppar sögunnar

Rómverjinn Sallust skrifaði eftirfarandi hugleiðingu um 40 árum fyrir Krists burð: „Það virðist náttúrulögmál að i öllum ríkjum öfunda hinir auralausu þá auðugu, lofsyngja þá óánægðu, hata gamla kerfið og þrá breytingar. Vegna fyrirlitningar á eigin örlögum eru þeir tilbúnir að umbylta öllu. Áhyggjulausir nærast þeir á uppreisnum og uppþotum, því fátæktin er eign sem enginn þarf að hafa áhyggjur af að tapa.“

Sagan er full af endurtekningum og þó að heimurinn virðist á stundum standa á hugmyndafræðilegum tímamótum þá er það ekkert nýnæmi. Skilgreiningin sem virðist eiga svo vel við í dag verður að öllum líkindum úrelt á morgun. Sá sem þetta skrifar ætti að vita það, hve oft hefur maður ekki skipt um skoðun eða býsnast yfir því sem er og verður, án sýnilegs árangurs. Dags daglega dynja á okkur umfjöllunarefni sem virðast byggja á einhverskonar hugmyndafræðilegri afmörkun eða skilgreiningu á því hvað hefur átt sér stað þennan eða hinn daginn. Með tilkomu samfélagsmiðlana hefur sjónarhornunum fjölgað, svo mjög að þau leiða óhjákvæmilega yfir okkur nokkurskonar afstæðishyggju sem skilar okkur því að sá sem hefur hæst og lætur mest verður meira ágengt í baráttunni um sálirnar. Fær flest like, svo vitnað sé í hinn eina sanna mælikvarða. Í dag eru fréttir beinlínis skrifaðar með þetta í huga og þannig hafa samfélagsmiðlar breytt fréttamatinu.romv

Því er það svo að maðurinn mun enn á ný þurfa að bregðast við breyttum aðstæðum og lífsskilyrðum á sinn óútreiknanlega hátt. Nýir ismar og stefnur munu líta dagsins ljós og gera vart
við sig þegar síst varir. Við Íslendingar vitum að ef til vill tekur eldfjallið að gjósa á ný og jörðin að skjálfa. Er það nýjabrum eða viðvarandi ástand í landi sem státar af meiri eldvirkni en önnur? Er það ekki frávik frá hinu hefðbundna ef ekki gýs? Ekki einu sinni heimskingi getur spáð fyrir um það og þó hefur hann eigin fullvissu að vopni. Er yfir höfuð einhver leiðsögn í vísindum og listum og getur sagnfræðin sagt okkur nokkuð? „Sagnfræði er ekki vísindi, heldur list. Þar skiptir ímyndunaraflið mestu máli“ sagði Anatole France, franskur rithöfundur, sem var heiðraður með Nóbelsverðlaununum í bókmenntum 1921. Ekki kannski mikið lesin uppi á Íslandi í dag enda er annað hvert skáld að drepa mann og annan í bókmenntaheimi sem er undirlagður af glæpasögum.

Að leika sér með sannleikann

Er einhver leiðsögn í sagnfræði? Um það má deila. „Margir í hinum póstmóderníska tíma leika sér með sannleikann,“ sagði prófessor í sagnfræði í viðtali á Rás 1 fyrir skömmu. Hann ætti að vita það, hafandi hafið einsöguna upp til skýjanna, sögu hins smáa sem hafði legið í láginni. Litla fólkið átti mikla sögu, kannski miklu fremur en fólkið sem miklaðist af sögu sinni. En þurfum við þá að endurskoða allt? Hefur sagan sem við höfum stuðst við og endurmetið þegar nýjar upplýsingar (heimildir) krefjast þess í raun afvegaleitt okkur og fært okkur fjær sannleikanum? Er ekki blekking að halda að við höfum betri innsýn eða vitneskju í þróun sögunnar þó sjónarhornið breytist?

Þór Stefánsson heimspekingur birti þetta áhugaverða kvæði í Morgunblaðinu fyrir stuttu og kallaði það Leiksoppar:

Við erum ekki

leiksoppar sögunnar.

Við sköpum söguna.

Hvert okkar um sig

með sínu fábreytta lífi

er lóð á vogarskálar

réttlætis, fegurðar

og jöfnuðar.

Verum minnug þess

að frelsi hvers og eins

takmarkast alltaf

við frelsi allra annarra.

Að hluta til er þetta áminning um að við sjálf sköpum okkur söguna, svona exístensíalísk vissa um að við erum það sem við gerum úr okkur sjálf en um leið erum við leiksoppar. Það dynur eitthvað yfir okkur í umhverfinu sem við ráðum ekkert við, er ekki farsóttin skýrasti vitnisburður þess? Þá reynir sem áður á stefnufestu og þrek hvers og eins. Undanfarið hef ég verið að lesa ævisögur útgerðarmanna frá fyrri hluta 20. aldar. Þó þeir hafi náð þeirri stöðu að tilefni var til að skrifa ævisögu þeirra virðist þeim helst vera í mun um að skilja rætur sínar og verja oft furðu löngum tíma í æskuárin, þar sem alsleysið ríkti. Um þessa menn má segja að þeir gerðu allt úr engu, öfugt við þá sem gera allt að engu. Skyldi vera að fjölga í síðarnefnda hópnum, hópnum sem sannarlega eru leiksoppar sögunnar.