c

Pistlar:

22. ágúst 2020 kl. 14:28

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Borgar borgin brúsann?

Þeir sem tala um fjármál Reykjavíkurborgar eru dálítið eins og í hlutverki gleðispillisins. Þess sem hringir á lögregluna þegar hávaðinn fer upp úr öllu valdi eða vill ekki taka þátt í fylliríinu með glaðværa nágrannanum á neðri hæðinni. Og af hverju ætti að vera að ræða alvöru ábyrgar fjármálastjórnar við þá sem vilja alltaf vera að gera góðverk fyrir annarra manna fé. Þegar rennt er yfir fréttalistann á vef Reykjavíkurborgar sést að þar er ekki iðjuleysinu fyrir að fara. Það er verið að mála þarna, opna áfangaheimili annarstaðar, klippa á borða, fagna tímamótum og tilkynna að einhver listamaður hafi annað hvort unnið verðlaun eða fengið pening, oft fer það saman. Um þetta ríkir mikil gleði og nýjar kannanir sýna að meirihlutinn stendur þokkalega styrkum fótum í þessari stefnu, reyndar með því fororði að 15% borgarbúa vilja láta Pírötum atkvæði sitt en satt best að segja er stundum erfitt að skilja hvað sá kjósendahópur nákvæmlega vill.umhverfi

En á þessu getur verið önnur hlið og munum að sá sem tekur lán er í raun bara að flýta neyslu framtíðarinnar og sömu krónunni verður ekki eytt tvisvar. Nú þegar ljóst er að ríkissjóður er að taka stærra högg en við höfum áður séð, bæði á útgjalda- og tekjuhlið hljótum við að velta fyrir okkur hvernig þetta kemur við sveitafélögin. Hvernig eru þau í stakk búin að taka við högginu og hvað ætla þau að gera til að bregðast við? Um það eru fáar fréttir á vef Reykjavíkurborgar nema tilkynningin um að Menningarnótt falli niður falli undir það.

Ótraust fjármálastaða

En fjármálin fara ekki og inni á vef borgarinnar má þó finna ýmsar upplýsinga, svo sem þær að heildarskuldir og skuldbindingar á móti rekstrartekjum (skuldahlutfall) hafa versnað samfellt frá árinu 2007. Um leið lækkar veltufjárhlutfall, sjúkdómseinkennin leyna sér ekki. Þetta bætist ofan á fréttir af vaxandi rekstrarkostnaði og fjárhagsáætlunum sem bregðast. Er ekki ástæða til að hafa áhyggjur. Nú í næstu viku er Alþingi að fara að koma saman til að ræða fjárhagsáætlun ríkisins, hvað með borgarstjórn? Hefur hún engar áhyggjur?

Hér gefst ekki tækifæri til að fara í heildstæða úttekt á fjárhagsstöðunni en hafa má í huga að samstæða borgarinnar skuldar núna ríflega þrjú hundruð milljarða króna og er Reykjavík eina sveitarfélagið á höfuðborgarsvæðinu sem skuldar yfir 150% af tekjum. Bókhaldið getur verið snúið og sá hagnaður sem menn hafa flaggað síðustu ára er fyrst og fremst tilkominn vegna bókaðs endurmats á félagslegu húsnæði sem borgin hefur fært sér til tekna upp á 57 milljarða króna. Ekki ein króna af þessum reiknaða hagnaði hefur skilað sér á bankabókina. Þvert á móti eru Félagsbústaðir fjárþurfi en hlutafélagið að baki bústöðunum skuldar meira en 45 milljarða eitt og sér. Reykjavíkurborg hefur þurft að gangast í ábyrgðir enn og aftur vegna lántöku þessa dótturfélags síns.

Kjarni málsins er sá að skuldir Reykjavíkur eru hærri en nágrannasveitarfélaganna og skuldahlutfallið miklu hærra. Skuldir hækkuðu um meira en 20 milljarða króna á síðasta ári einu saman. Þannig hefur borgin bætt við sig meira en milljarði á mánuði í mesta góðærinu, öfugt við ríkissjóð sem lækkaði skuldir sínar verulega og er þannig fær um að taka á sig höggið vegna faraldursins í einhvern tíma. En ekki nóg með að skuldir hafi aukist, útsvar, fasteignagjöld og aðrir tekjupóstar Reykjavíkur eru í hæstu hæðum. Verður lengra gengið í að sækja fjármuni til borgarbúa? Þeir borga jú brúsann að lokum.