c

Pistlar:

27. ágúst 2020 kl. 21:50

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Lionel Messi í tölum

Það er ekki aðeins á fótboltavellinum sem tölur og tölfræði í kringum Lionel Messi eru forvitnilegar. Vissulega hefur hann unnið gullknöttinn (Ballon d’Or) sex sinnum eða oftar en nokkur leikmaður. Hann hefur orðið spænsku meistari 10 sinnum, spænskur bikarmeistari sex sinnum og með hann innanborðs hefur Barcelóna orðið Evrópumeistari fjórum sinnum. Það er erfitt að hugsa sér liðið án hans en hann hefur verið þar í 20 ár eða síðan hann kom þangað 13 ára að aldri frá Argentínu.messi

En nú vill Messi fara og stuðningsmenn allra málsmetandi liða óska þess heitast að hann klæðist  búningi liðs þeirra. En Messi er augljóslega engin venjulegur leikmaður. Hann er í raun stórfyrirtæki en með honum fylgir mikill fjöldi aðstoðarmanna og umboðsmanna. Að ekki sé minnst á stórfjölskylduna sem hefur búið í Barcelóna síðan hann kom þangað. Eins og gerist með stjörnur frá Suður-Ameríku þá ber þeim að halda uppi nærfjölskyldunni þegar seðlunum tekur að rigna. Það er reyndar ekki bara bundið við Suður-Ameríku, ungir leikmenn með mikla hæfileika neyðast oft til að ala önn fyrir sínum nánustu skyldmennum. Þetta þekkist í Bretlandi og svo virðist sem Harry Maguire, hinn seinheppni fyrirliði Manchester United, hafi verið með stóran hluta af sinni fjölskyldu á sinn reikning í Grikklandi þegar ósköpin dundu yfir. En það er önnur saga.

Fráleitur verðmiði

Ef Messi verður seldur þá verður kaupverðið sjálfsagt eftirtektarvert. Barcelóna hefur gefið upp að liðið vilji fá sem svarar 700 milljónum evra eða 115 milljarða króna fyrir Messi. Það verð er fáheyrt og augljóslega munu þurfa að koma til erfiðar samningaviðræður ef hann á að fara. Það verður flókið en staða Messi er að mörgu leyti sterk þó efast megi um að krafa hans um uppsagnarákvæði hafi virkjast í sumar. Hann er í það minnsta samningslaus í júní að ári, þá 34 ára að aldri.

Erlenda fjölmiðla greinir á um hvort Messi sé alvara með ósk sinni um að fara eða hvort þetta sé liður í innanhúsátökum hjá Barcelóna. Engum dylst að hann er óánægður. Eftir hið niðurlægjandi 8-2 tap fyrir Bayern Munchen var knattspyrnustjórinn Quique Setién látinn fara ásamt yfirmanni knattspyrnumála Eric Abidal. Þá er staða forseta félagsins,
Josep Maria BartomeuIn, orðin veik. Ráðning Ronald Koeman sem knattspyrnustjóra var ekki eins snjall leikur og hann vonaði og Messi er ósáttur við hvernig hann hefur kynnt sig til leiks, meðal annars með því að segja að Luis Suárez megi fara og að Messi sé síður en svo ómissandi! Svo virðist sem Ronald Koeman hafi mislesið stöðuna.

Messi-áhrifin og tekjur

Eins og áður segir hefur Messi unnið Meistaradeild Evrópu (Champions League) fjórum sinnum. Deildin veltir um það bil 2 milljörðum evra á ári sem skipt er á milli liðanna sem eru í keppninni, mest fer eðlilega til sigurvegaranna. Sá árangur sem Barcelóna hefur ná á Messi-árunum hefur gert félagið að einu ríkasta og eftirsóttasta félagsliði heims. Það hefur skilað sér í auglýsinga- og styrktarsamningum sem fá lið geta státað af. Að ekki sé minnst á allan varninginn sem er tengdur Messi sem er frægasti knattspyrnumaður heims. Tímabilið 2018-19 er talið að félagið hafi haft um 840,8 milljónir evra í tekjur eða um 150 milljónum evra meira en árið á undan. Það var ekki til að spilla gleðinni að þetta var 83,5 milljónum evra meira en erkióvinirnir í Real Madrid státuðu af, sem var þó næst tekjuhæsta félagið á heimsvísu.messi2

En nú hefur Barcelóna mistekist að sigra í Meistaradeildinni síðan 2015 og átt í hinum mesta brasi við að komast áfram í keppninni undanfarin ár. Það er mikið áfall fyrir liðið ef Messi fer en vissulega er ferilinn farinn að styttast í annan endann. Hann átti í meiri erfiðleikum með að skora í vetur en oft áður en hafa má í huga að á einstæðum ferli hefur hann skorað alls 634 mörk í 731 leik fyrir spænska félagið og lagt upp önnur 285 en nú eru 17 ár síðan hann byrjaði að leika með félaginu. Þá á hann að baki 138 landsleiki fyrir Argentínu þar sem hann hefur skorað 70 mörk. Vonbrigði lífsins eru þó þau að hafa aldrei landað titli með Argentínu. Það mun hafa áhrif þegar sagan dæmir þennan einstaka knattspyrnumann.