c

Pistlar:

12. september 2020 kl. 17:02

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Haglýsing í september

Átökin í hagkerfinu kristallast þessa daganna um stöðu krónunnar. Hún hefur gefið eftir um einn fimmta síðan COVID19 faraldurinn kom til sögunnar og er nú svo komið að þessi veiking er farin að skapa verðbólguþrýsting. Á sama tíma virðist íbúðamarkaðurinn njóta þess að vextir hafa aldrei verið lægri. Samspilið þarna á milli getur birst í því að vextir taki að hækka og sá stóri hópur sem ákveðið hefur að taka óvertryggð lán getur fundið hratt fyrir vaxtabreytingunni. Þetta er ekki aðkallandi vandamál en getur vissulega skapað vanda ef vextir taka að hækka hratt enda óverðtryggðir vextir næmari fyrir vaxtabreytingum en verðtryggðir.göng

Á sama tíma reynir seðlabankastjóri að telja kjark í landsmenn. Segist eiga mikið af tækjum og tólum í vopnabúri sínu og lætur skína í þann mikla gjaldeyrisvarasjóð sem bankinn hefur sankað að sér. Nú eru 970 milljarðar króna í varasjóði bankans og hann hefur fremur stækkað en hitt síðan faraldurinn setti hagkerfið á haus. Hefur þá Seðlabankinn ekkert notað? Jú, vissulega en fall krónunnar hefur á móti aukið verðmæti varasjóðsins. Höfum hugfast að eftir hrun þá náðu Íslendingar að byggja upp gjaldeyrisvarasjóð upp á 700 milljarða króna. Sá sjóður var skuldsettur og Seðlabankinn ná þeim tíma treysti sér ekki til þess að hreyfa við krónunni. Það er með gjaldeyrisvarasjóði eins og kjarnorkusprengur, hvorugt má nota. Hlutverk þeirra felst í að fæla og styrkja. En Seðlabankinn hlýtur að reyna að styðja við krónuna næstu mánuði í von um að gjaldeyrissköpun taki við sér.

Gjaldeyrisuppsprettan tæmd?

En geta þjóðfélagsins til að skapa gjaldeyri er nú í lágmarki. Stærsta gjaldeyrisuppsprettan, ferðamannaiðnaðurinn, er tæmd. Á móti kemur að Íslendingar eyða sjálfir sáralitlu erlendis af því að landinn er hættur að ferðast. Eyðslan fer nú fram í íslenskri verslun og þjónustu sem kemst vel af þessi misserin og fá nú ígildi jólaverslunar nokkrum sinnum á ári. Ánægjulegt en er ekki vitnisburður um að atvinnulífið í landinu þoli launahækkanir eins og óstýriláti hluti launahreyfingarinnar talar um. Það er í senn óskynsamt og bráðlátt nú þegar atvinnuleysi stefnir í tveggja stafa tölu. Það hlýtur að vera forgangsatriði að fjölga störfum og minnka atvinnuleysi. Til þess þarf að létta álögum af fyrirtækum og gera þeim kleyft að ráða fólk til starfa. Aðgerðir stjórnvalda nú ættu öðru fremur að miðast við það.

En eins og og oft áður er athyglin á lífeyrissjóðina. Þar er sparnaður landsmanna falin og spurningin er: Hvernig eiga sjóðirnir að fjárfesta til að skapa verðmæti sem standa undir loforðum um lífeyri til framtíðar? Nú mega þeir fjárfesta erlendis og Seðlabankinn er tilbúinn með 40 milljarða til að mæta því, en er þetta góður tími til að fjárfesta erlendis? Og hvar er gott að fjárfesta þessa daganna? Gleymum þó ekki að í öllum breytingum felast tækifæri. Væntingavísitölur lækka hratt núna og ljóst að margir búa sig undir erfiða haustmánuði. Nú fer að reyna á stjórnvöld.