c

Pistlar:

27. september 2020 kl. 13:14

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Ísrael: Gamalt land - mikil nýsköpun


Fá lönd í heiminum eru meira í fréttum en Ísrael við botn Miðjarðarhafsins. Landið er ekki nema einn fimmti af flatarmáli Íslands og þar búa um 10 milljónir manna. Ræktanlegt land og vatn er fágætt í þessum heimshluta, öfugt við það sem við þekkjum hér á Íslandi. Þetta mótar samskipti þjóða í bland við menningarleg og trúarleg átök, sem ná þúsundir ára aftur í tímann. Allt ratar þetta rækilega í heimsfréttirnar enda hefur ástandið þarna áhrif víða um heim. Þess ánægjulegri eru nýjustu tíðindi um samkomulag Ísraels og Sameinuðu arabísku furstadæmanna (SAF). Það hefur í för með sér að SAF bætast við hóp aðeins tveggja arabískra land sem viðurkenna og eiga í stjórnmálasamskipti við Ísrael. Leiðtogar ríkjanna segja að samkomulagið glæði vonir um að friðvænlegra verði í Mið-Austurlöndum. Það mun fela í sér opnun sendiráða, viðskipti og skipti á tækni, beint flug og ferðaþjónustu og samvinnu um orku, öryggi og upplýsingaöflun. Það er hugsanlega bjartsýni að vænta þess að þetta breyti miklu en vissulega glæðir það vonir margra. Athyglisvert er þó hve litlar fréttir eru fluttar af því hér á landi en sögulega höfum við haft mikinn áhuga á „ástandinu“ fyrir botni Miðjarðarhafsins.lampi

Nú eru fimm ár síðan borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum að sniðganga ísraelskar vörum á meðan hernám Ísraelsríkis á landsvæði Palestínumanna varði. Björk Vilhelmsdóttir lagði fram tillögu þessa efnis sem var samþykkt með atkvæðum Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og VG. Þetta var síðar útskýrt sem kveðjugjöf til Bjarkar sem var þá að hætta í borgarstjórn en sniðgangan var samþykkt á síðasta borgarstjórnarfundi hennar. Þegar meirihlutinn kom út í veruleikann kom í ljós að ákvörðunin var mikið glapræði og var fallið frá henni.

Fólkið er auðlindin

Í umræðu við þetta tilefni kom í ljós að ekki áttuðu allir sig á því að Ísrael hefur verið byggt upp blómlegt ríki úr eyðimörk, sem að stærstum hluta byggir á þekkingu. Eins og áður sagði býr landið yfir fremur takmörkuðum náttúruauðlindum fyrir utan dágott framboð af sólarorku, hinar raunverulegu auðlindir landsins eru fólkið sem þar býr. Ísraelsríki var að stórum hluta byggt upp af flóttamönnum frá Evrópu sem tóku með sér verðmæta þekkingu og reynslu frá heimalöndum sínum. Raunar er það svo að gyðingar hafa löngum hrakist á milli landa undan ofsóknum og af þeim sökum hafa þeir lagt áherslu á þau verðmæti sem alltaf er hægt að flytja með sér, hvert sem er. Það birtist meðal annars í því að ríflega 20% þeirra sem hafa unnið nóbelsverðlaunin eru gyðingar en þeir eru aðeins 0,2% af mannfjölda heimsins. 204 gyðingar eða fólk af gyðinglegum uppruna hafa fengið þessi verðlaun en til samanburðar hafa 12 frá hinum olíuauðuga arabaheimi unnið þau, flestir þá friðarverðlaunin sem Norðmenn afhenda. Auðvitað búa ekki allir þessir verðlaunahafar í Ísrael en þar er menntun metið mikils sem og frumkvöðlahugsun en landið er í 22. sæti í heiminum þegar kemur að landsframleiðslu á mann.

Nýsköpun - ekki náttúruauðlindir

Öfugt við olíuríkin í nágreninu þá hefur auður Ísraels skapast með nýsköpun og á hana er lögð gríðarleg áhersla. Það lýsir sér meðal annars í því að fjárfesting í nýsköpunarfyrirtækjum er hlutfallslega hæst í heiminum í Ísrael miðað við höfðatölu eða 46.000 krónur á mann á ári, til samanburðar er um að ræða 8.200 krónur á mann á ári á Íslandi. Til viðbótar því státa Ísraelsmenn af flestum verk-, tækni- og hátæknifræðingum í heiminum miðað við höfðatölu, eða 140 fyrir hverja 10.000 íbúa samanborið við 85 fyrir hverja 10.000 í Bandaríkjunum. Ísraelsmenn fjárfesta fyrir um það bil 4,2% af VLF í rannsóknum og þróun á meðan meðaltal OECD er um 2%.

Þessi mikli mannauður og nýsköpunarþróttur skilaði sér í því að Ísraelsmenn eru orðnir leiðandi á sviði hátækni og þarlendis skila 6.000 hátækni-sprotafyrirtæki 57% af útflutningstekjum landsins. En sú færni og þekking sem skapast í þessum hátækni-sprotafyrirtækjum skilar sér ekki einungis í útflutningsverðmætum heldur einnig í því að fyrrverandi starfsmenn þessara fyrirtækja stofna ný fyrirtæki eftir starfslok. Sem dæmi um þetta hafa alþjóðleg hátæknifyrirtæki á borði við Microsoft, Motorola, Google, Apple (sem er með þrjú rannsóknarsetur í Ísrael), Facebook, Berkshire-Hathaway, Intel, HP, Siemens, GE, IBM, Philips, Lucent, AOL, Cisco, Applied Materials, IBM, J&J, EMC, og Toshiba og fleiri stofnað rannsóknardeildir í Ísrael til þess að nýta þessa miklu færni og hefur eftirspurn eftir hátæknifólki frá Ísrael verið mikil í Kísildalnum í Kaliforníu.

Árið 2016 söfnuðu nýsköpunarfélög hátt í fimm milljörðum Bandaríkjadala og á sama tíma voru fyrirtæki selda eða fóru í nýskráningu og náðu sér þannig í ríflega tíu milljarða dala. Við Íslendingar kynntumst þessu þegar ísraelska fyrirtækið Teva keypti meirihluta í Actavis árið 2015 en lyfjaiðnaðurinn er gríðarlega sterkur í Ísrael.