c

Pistlar:

15. nóvember 2020 kl. 11:49

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Haglýsing: Harður vetur og verðbólga í kortunum

Stjórnvöld umgangast hagkerfið núna eins og slökkvilið að fást við mikið eldhaf. Öllu er vikið til hliðar og baráttan við faraldurinn gengur fyrir, meðal annars því sem telst til hefðbundinnar hagstjórnar, að ekki sé talað um hagræðingu eða skipulagsbreytingar sem nú sem áður er nauðsynlegt að ástunda í rekstri hins opinbera. Samhliða því að við sjáum ýmis merki þess að hagstjórnin sé að gerast þyngri þá fáum við nýjar úttektir sem sýna að það er sandur í hjólum atvinnulífsins.

Augljóslega er Seðlabankanum ætlað að stýra okkur í gegnum skaflinn með gjaldeyrisvarasjóð sinn að vopni, vaxtatækið og önnur tól til að hafa áhrif á vaxtastigið í landinu. Í komandi viku er framundan síðasti vaxtaákvörðunardagur þessa árs. Flestir spáaðilar gera ráð fyrir að meginvextir bankans verði áfram 1,0% en þar hafa þeir verið frá því í maí síðastliðnum og hefur mátt skilja peningastefnunefnd bankans þannig að hún treysti sér ekki til að fara neðar. Efnahagshorfur hafa sveiflast nokkuð undanfarnar vikur og mánuði en virðast í stórum dráttum enn þannig að harður vetur sé framundan. Greiningardeild Íslandsbanka telur að land gæti risið í þeim efnum þegar líður á næsta ár. Vonandi að þeir verði sannspáir með það. Verðbólga er að vaxa en kjölfesta verðbólgumarkmiðsins virðist þó enn fremur traust. „Síðast en ekki síst virðist full ástæða til þess að horfa til annarra aðgerða í peningamálum en breytingu á stýrivöxtum til þess að mýkja niðursveifluna og væri skýrari stefna hvað það varðar afar þörf við núverandi aðstæður,“ segir í Korni Íslandsbanka.efnahagure

Versnandi samkeppnishæfni skattkerfis

Á þessum aðgerðum stjórnvalda og Seðlabanka er hægt að hafa skilning en vitaskuld skiptir máli hvernig við komumst að endingu út úr þessu. Það var því sláandi að sjá að hugveitan Tax Foundation hefur birt árlega útgáfu um vísitölu samkeppnishæfni skattkerfa. Ísland féll um tvö sæti á milli ára og er í 30. sæti af 36 ríkjum. Skattkerfið hefur afgerandi áhrif á samkeppnishæfni og lífskjör landsmanna. Því má taka undir áhyggjur af niðurstöðunum í ljósi núverandi stöðu hagkerfisins. Höfum í huga að samkeppnishæfustu löndin hafa lága jaðarskatta og einfalda öflun skatttekna sem heldur undanskotum og ójafnri skattbyrði í lágmarki. Einföldun skattkerfisins myndi hjálpa í þessu samhengi. Öfugt við það sem maður gæti haldið er virðisaukaskattskerfið flóknara hér en í mörgum OECD ríkjum. Þarf það að vera svo?

Hvar eru 30 milljarðarnir?

Í vikunni var greint frá því að Efnahags og framfarastofnunin OECD gerir 438 tillögur til breytinga á gildandi lögum og reglum sem snúa að ferðaþjónustu og byggingariðnaði til að auka samkeppnishæfni greinanna. Þetta er niðurstaða skýrslu OECD umsamkeppnismat sem kynnt var í dag. Tilgangur samkeppnismatsins er að greina gildandi regluumhverfi með tilliti til þess hvort í þeim reglum sem atvinnulífinu er gert að starfa eftir felist samkeppnishindranir eða óþarfa reglubyrði sem ryðja megi úr vegi.

Ef öllum tillögunum sem fram koma í skýrslunni verður hrint í framkvæmt er það mat OECD að það geti skilað auknum efnahagslegum umsvifum sem nemi um 1% af vergri landsframleiðslu Íslands eða yfir 30 milljörðum króna árlega. Það munar um minna.


632 samkeppnishindranir

Í heild voru 632 gildandi lög og reglugerðir yfirfarin sem leiddu í ljós 676 mögulegar samkeppnishindranir í regluverkinu og af þeim gerir OECD 438 tillögur til breytinga á regluverkinu sem eru til þess fallnar að einfalda og gera það sveigjanlegra fyrir fyrirtæki starfandi í þessum tveimur greinum og stuðla að aukinni framleiðni, öflugri viðspyrnu í kjölfar kórónuveirufaraldursins og fjölda nýrra starfa. Hér hafa menn verk að vinna.