c

Pistlar:

8. desember 2020 kl. 14:53

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Brexit: Að fá að eiga fiskana sína

Þó að í efnahagslegu tilliti sé sjávarútvegurinn ekki stór þáttur í samningaviðræðum Breta og Evrópusambandsins þá virðist hann skipta miklu fyrir niðurstöðuna. Eins og oft áður í samningaviðræðum eru erfiðustu úrlausnarefnin geymd þar til síðast og í samstarfi þessara iðnvelda virðast það vera fiskveiðar - og málið í illleysanlegum hnút, eða svo mætti halda. Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, benti á það í pistli á síðu sinni að það væri næsta sérkennilegt að fylgjast með hörkunni í deilunni um fiskveiðiréttindin. Af fréttum að dæma virðast tvö önnur mál standa út af borðinu nú á lokametrunum þegar menn keppast við að segja að stálin stinn mætist í viðræðunum og þetta geti allt farið í strand. Líklega er það nú allt ofsagt en það er merkilegt að fylgjast með fréttaflutningi Ríkisútvarpsins af Brexit-viðræðunum. Sá fréttaflutningur gengur að mestu út á að segja að það sé allt í upplausn innan bresku samninganefndarinnar og almennt að Brexit hafi verið feigðarflan sem hafi verið stofnað til af skammsýnu fólki í annarlegum pólitískum tilgangi. Svo er valið myndefni við hæfi. Kristjan Guy Burgess, vinsæll álitsgjafi hjá Ríkisútvarpinu og fyrrverandi framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar, skrifar þannig 6. desember á Facebook: „Nú munu koma í ljós afleiðingarnar af þessu ævintýri lýðskrumaranna, og Bretar fyrst og fremst þurfa að spenna beltin og vona það besta.“

En allt snýst þetta um fisk núna á lokametrunum, merkilegt nokk. Hugsanlega getum við Íslendingar dregið af þessu nokkurn lærdóm og Björn bendir á að „ein mesta blekkingin á tíma ESB-aðildarumsóknar vinstri stjórnarinnar 2009 til 2013 var að semja mætti um viðunandi lausn við ESB um sjávarútvegsmál. Slíkur samningur var aldrei í kortunum eins og kom í ljós strax 2011.“ Kaflinn um sjávarútvegsmál var aldrei opnaður eins og menn eflaust muna.fiskurnew

Frakkar sækja á ESB um bætur

Morgunblaðið greindi frá því um helgina að viðræður Breta og Evrópusambandsins hefðu lent í uppnámi síðasta föstudag eftir að samningamenn Evrópusambandsins lögðu fram nýjar kröfur á hendur Bretum varðandi fiskveiðiréttindi og reglur um ríkisaðstoð. Kröfurnar eru sagðar runnar undan rifjum Emmanuels Macrons Frakklandsforseta, sem vilji ekki baka sér óvinsældir franskra sjómanna í aðdraganda frönsku forsetakosninganna árið 2022. Staðreyndin er sú að franskir sjómenn veiða meirihluta síns verðmætasta afla innan breskrar lögsögu og vilja auðvitað ekki gefa það frá sér, nú nema þá að það komi til miklar skaðabætur. Getur verið að allt sé þetta hluti af innanhúsmálum ESB en ekki endilega hvað kemur út úr Brexit? Ef franskir sjómenn æra Macron, þá snýr hann sér að samninganefnd ESB og að lokum á ESB ekki annað úrræði en að bæta frönskum sjómönnum skaðann. Er það langsótt niðurstaða? ESB er ekki óvant að vinna þannig.

Lengst af var stefnt að því að viðræðunum lyki nú í upphafi vikunnar, en Morgunblaðið vitnar í heimildarmenn dagblaðsins Daily Telegraph úr breska stjórnkerfinu sem sögðu að hinar nýju kröfur Frakka hefðu í raun eyðilagt allan árangur viðræðna fimmtudagsins en þar hefðu Bretar fallist á lengri umþóttunartíma fyrir aðildarríki ESB varðandi aðgang að fiskimiðum Bretlands. Það má hafa hugfast að breskir sjómenn veiða mikinn minnihluta verðmætustu fisktegundanna í breskri lögsögu og mest allur þessi fiskur endar á borðum meginlandsbúa.

Er vandræðagangurinn hjá Bretum?

Ríkisútvarpið flytur fréttir af þessum viðræðum í gegnum fréttaritara sinn í London sem hefur frá upphafi talað með afgerandi hætti gegn Brexit. Því er hlustendum talið trú um að vandræðagangurinn sé hjá Bretum. En lítum aðeins á málin. Ýmis forysturíki Evrópusambandsins viðruðu í síðustu viku efasemdir um samningatækni Michels Barniers, aðalsamningamanns sambandsins, og hótuðu frönsku stjórnvöld á föstudaginn að þau myndu beita neitunarvaldi sínu á samkomulagið eins og rakið var í Morgunblaðinu. Sagði Clement Beaune, Evrópumálaráðherra Frakklands, í útvarpsviðtali að Frakkar myndu ekki samþykkja hvaða niðurstöðu sem er, og að hvert aðildarríki sambandsins hefði sama rétt til að beita neitunarvaldi sínu.

Morgunblaðið vitnar til heimilda AFP fréttastofunnar frá höfuðstöðvum Evrópusambandsins. Þar var sagt að stjórnvöld í Belgíu, Hollandi, Spáni og Danmörku einnig hrædd um að Barnier myndi gefa of mikið eftir af kröfum sambandsins til þess að landa samningum. Þá óttast sömu ríki að Þjóðverjar, sem nú fara með forystu innan sambandsins, séu of viljugir til þess að ná samkomulagi við Breta til þess að koma í veg fyrir þann skaða sem samningsleysi fyrir áramót gæti valdið.

Hver vill málamiðlanir?

Eins og allir vita eru tveir ákvarðanatökuásar innan ESB, það eru Frakkland og Þýskaland. Oft klára leiðtogar þessara þjóða að móta stefnuna áður en hinum þjóðunum er hleypt að borðinu. Steffen Seibert, talsmaður Angelu Merkel Þýskalandskanslara, reyndi að slá á þann ótta á föstudaginn en hann sagði að Evrópusambandið væri reiðubúið til að semja við Breta, en að ekki yrði ritað undir hvað sem er. „Það er ljóst að það eru rauðar línur, en það er alltaf hægt að gera málamiðlanir,“ sagði Seibert.

Á sama tíma kallaði Charles Michel, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, eftir samheldni aðildarríkjanna. Sagði hann að ríkin yrðu að styðja við bakið á Barnier „fram að síðustu mínútu og síðustu sekúndu ferlisins,“ eins og segir í frétt Morgunblaðsins.

Þegar þetta allt er lesið fara menn auðvitað að velta fyrir sér hvernig fyrirbæri eins og Evrópusambandið semur. Og eru deilur um fisk virkilega að skipta máli? Það vita allir sem hafa kynnt sér samningatækni að viðræðum er ekki lokið fyrr en menn skrifa undir. Aftur og aftur sjáum við það í alþjóðlegum samningum að allir reyna að taka sér samningsstöðu og ná fram markmiðum sínum. Og þannig eiga hlutirnir að vera. Þó verið sé að semja við embættismenn innan Evrópusambandsins á það ekki að breytast.