c

Pistlar:

21. maí 2024 kl. 20:53

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Sósíalistarnir og svarti listinn

Ríkissjónvarpið sýndi að kvöldi hvítasunnudags kvikmyndina Trumbo og var hún kynnt sem sannsöguleg. Myndin hefst árið 1947 þegar Dalton Trumbo er einn eftirsóttasti handritshöfundur Hollywood eða allt þar til hann og fleira listafólk var sett á bannlista. Myndin fjallar um það tímabil í Bandaríkjunum þegar fólk var ofsótt vegna stjórnmálaskoðana sinna en það var sérlega áberandi í tengslum við listamenn sem margir voru settir á svartan lista og áttu erfitt með að fá vinnu árum saman. Þetta var óskemmtilegur tími og hafði verulega áhrif á líf og starfsferil margra þeirra sem um ræðir. Dalton Trumbo var félagi í bandaríska kommúnistaflokknum og að lokum dæmdur í fangelsi, að því er virðist fyrir að vanvirða rannsóknarnefnd þingsins.Skjámynd 2024-05-21 204027

Hinn svokallaði McCarthyismi er óformlegt heiti á viðleitni bandarískra yfirvalda til að hreinsa meinta sósíalista eða kommúnista úr stjórnkerfi og skemmtanaiðnaði landsins á 5. og 6. áratug 20. aldar, þegar Kalda stríðið var að hefjast og „rauða hættan“ áberandi í umræðunni. Stefnan er kennd við öldungadeildarþingmanninn Joseph McCarthy en margir ráðamenn studdu stefnuna. Í myndinni er eðlilega dregin upp dökk hlið af þessu ástandi og hvernig það hefur áhrif á starf og fjölskyldu manna eins og Dalton Trumbo. Að endingu fær hann einhverskonar uppreisn æru og þann heiður sem honum bar. Í lokaávarpi sínu í myndinni bað hann menn um að dæma ekki heldur læra af reynslunni.

Þeir sem sáu óskarsverðlaunamyndina um Oppenheimer á síðasta ári fengu innsýn í þessa tíma en ofsóknirnar beindust einnig að vísindamönnum eins og Oppenheimer. Þetta voru erfiðir tímar í Bandaríkjunum sem alla jafnan kenna sig við frelsi til orðs og æðis. Skýringin á þessu var líklega sú að heimurinn var nýkomin úr styrjöld við alræðisstefnu nasismans og virtist stefna í nýja styrjöld við aðra alræðisstefnu, kommúnismann.

Frávik eða dæmigert?

Það kemur ekki á óvart að margir sósíalistar hér á landi telja myndina á einhvern hátt dæmigerða fyrir bandarískt samfélag og skiptir engu þó að flestir séu sammála um að McCarthyisminn hafi verið frávik frá þeirri sterku lýðræðis- og frelsishefð sem umlykur bandarískt þjóðfélag.

Þannig skrifar Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokks Íslands, á facebook-vegg sinn: „Ríkissjónvarpið var að sýna eina af þeim fjölmörgu myndum sem Bandaríkjamenn hafa gert um ofsóknir gegn kommúnistum og róttækum sósíalistum á tímum kalda stríðsins. Þessar ofsóknir náðu til Íslands. Sjálfstæðisflokkurinn sótti línuna til sendifulltrúa CIA í bandaríska sendiráðinu og stóð fyrir ofsóknum gegn róttækum sósíalistum, kom í veg fyrir að þeir kæmust til náms, fengju vinnu eða framgang í starfi, fengju lán eða lóð o.s.frv. Því miður hafa þessar sögur ekki verið sagðar að neinu ráði, enda varir þetta ástand að mörgu leyti enn. Þau sem ekki beygja sig undir vilja auðvaldsins og Valhallar eru hrakyrt í Mogganum og af helstu slúðurberum valdaklíkunnar svo allir megi vita að því fylgir útskúfun að starfa með þessi fólki, styðja það í orði eða verki eða taka undir gagnrýni þess. Þau sem leggjast í duftið og þjóna þessum öflum fá það hins vegar launað, sumum er hampað en beini hent í aðra. Íslenskt samfélag mun aldrei þroskast fyrr en það kastar af sér þessari óværu.“

Óhætt er að segja að þessi skrif séu dæmigerð um þá tilraun formanns framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins að stýra umræðunni og búa til nýja söguskoðun sem hentar málstað róttækra sósíalista á Íslandi í dag, óháð því hvað er satt og rétt. „Óværu“, segir hann nú um pólitíska andstæðinga. Hvað skyldi hann segja fái hann raunveruleg völd?fluttfolk

Dauðalisti sósíalistanna

En þó að það hafi vissulega verið óþægilegt að vera á svarta listanum í Hollywood þá var það ekkert á við það að vera á dauðalista kommúnista og róttækra sósíalista í þeim ríkjum sem þeir réðu yfir. Á sama tíma og menn fengu ekki störf í Bandaríkjunum voru milljónir manna fluttar nauðungaflutningum eða hnepptar í þrælkunarbúðir í ríkjum róttæks sósíalisma. Það er nánast sama hvar er borið niður í þessum löndum, allstaðar var fólk svipt öllum réttindum og jafnvel lífinu.

Skoðum hvernig smáríki eins og Eystrasaltslöndin fóru út úr því þegar róttækir sósíalistar tóku yfir lönd þeirra eftir að nasistarnir höfðu verið hraktir burtu. Talið er að fyrsta árið sem Eistland var undir stjórn Sovétríkjanna eftir að nasistar voru hraktir í burtu hafi um sextíu þúsund manns verið myrt eða flutt úr landi, til fangavistar í Síberíu eða á aðra óhuggulega staði. Af þessum atburðum dregur skáldsaga Sofi Oksanen nafn sitt, Hreinsun.

Pistlaskrifari sá áhrifaríka sýningu í Riga, höfuðborg Lettlands, á síðasta ári þar sem minnst var hernámsins. Undirokun Eystrasaltslandanna hélt áfram efir stríð þegar Sovétríkin hófu innlimun og inngildingu landsmanna. Rússar voru fluttir til landsins í stórum stíl og Lettar til Síberíu í endalausum fólksflutningum. Talið er að um 700.000 manns frá ýmsum ríkjum Sovétríkjanna hafi verið flutt til Lettlands í viðleitni Sovétríkjanna til að breyta samsetningu þjóðarinnar og auðvelda yfirtökuna.

Smalað í gripavagna þegar Íslendingar mótmæltu Nató

Þetta sama gerðist í öllum löndum sem lentu innan Sovétríkjanna, þar sem róttækur sósíalismi var iðkaður. Í Lettlandi voru vel stæðir bændur fluttir í útlegð og búfé bænda tekið af þeim og fjölskyldum þeirra og felld undir samyrkjubú. Búin þurftu síðan að gefa stóran hluta af framleiðslu sinni til ríkisins og fyrir vikið fólk sem þar starfaði með lakari kjör en restin af þjóðinni. Fólk á samyrkjubúum bjó við allskonar takmarkanir, laun greidd í fríðu og flutningur þeirra til borga var háður takmörkunum.

Í mars 1949 voru mikil mótmæli á Íslandi við inngöngu Íslands í Nató en í þessum sama mánuði urðu Sovétríkin hvað stórtækust í fólksflutningum sínum frá Lettlandi en talið er að um 50 þúsund manns hafi verið safnað upp í gripavagna með nánast engum fyrirvara og lítinn farangur. Flestir voru sendir til Síberíu þar sem þeir urðu að þola skelfilega vosbúð.womenbarracks

Nú er talið að um 85 milljónir manna hafi látið lífið beint og óbeint af völdum harðstjórnar í ríkjum kommúnista frá því að þeir komust fyrst til valda í Rússlandi árið 1917. Hægt er að taka saman endalausar samantektir af slíkum svörtum listum, nauðungarlistum eða dauðalistum í þeim löndum sem róttækur sósíalismi réði yfir. Vissulega var erfitt hlutskipti að komast á svartan lista í Hollywood en það var hjóm eitt miðað við það sem fólk í ríkjum róttæks sósíalisma eða kommúnisma, kjósi menna að kalla það svo, varð að þola.

Sjö árum eftir hinn örlagaríka mars 1949 hófst menningarbylting í Kína sem kostaði að endingu tvær milljónir manna lífið. Þar settu börn foreldra sína á lista í nafni róttæks sósíalisma. Fæstir lifðu það af að komast á slíka lista.