c

Pistlar:

10. ágúst 2023 kl. 13:23

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Oppenheimer og að lifa í skugga sprengjunnar

Það er forvitnilegt að fólk skuli þyrpast í kvikmyndahús nú yfir hásumarið til að sjá þriggja tíma mynd um bandaríska vísindamanninn J. Robert Oppenheimer (1904-1967) og þátt hans í þróun kjarnorkusprengjunnar. Myndin er höfundarverk kvikmyndagerðarmannsins Christophers Nolan sem bæði leikstýrir og skrifar handritið. Nolan er einn eftirtektarverðasti kvikmyndagerðarmaður Bandaríkjanna og þrífst á stórum sögum með flóknum söguþræði og risavöxnum sviðsmyndum. Í senn ýktur og ófyrirsjáanlegur. Maður sem ætlar sér mikið og kann sér ekki hóf eins og sést af því að kvikmyndir hans lengjast stöðugt í tíma um leið og hann er orðin óskoraður meistari tímaflakksins og afturlits (e.flashback). Undir niðri er hann þó að fást við spurningar um framvindu þekkingar mannkynsins og hvaða siðferðisáskoranir slíkt kallar fram hjá einstaklingum í hringiðu sögunnar.opp1

Sagan sem hér er sögð rekur tímaskeið sem dregur saman margvísleg tímamót í mannkynssögunni. Einni styrjöld lýkur og kalda stríð tekur við, hugmyndafræðileg átök kljúfa heiminn sem aldrei fyrr og í forgrunni eru vísindamenn sem standa á fótskör nýrra aldar, búnir að kljúfa atómið og vita varla hvað á sig stendur veðrið. Það fyrsta sem mannkyninu dettur í hug er að skapa vítisvél til notkunar í hernaði. Vísindamennirnir eru ráðvilltir og vita ekki hvort þeir munu hreinlega kveikja í gufuhvolfinu og eyða heiminum.

Oppenheimer er miðjan í þessari atburðarás, eðlisfræðingur sem lifir í heimi kenninga og vísinda en er eigi að síður skipaður verkefnastjóri yfir sköpun kjarnorkusprengjunnar. Það virðist hafa verið góð ákvörðun fyrir verkefnið en ekki endilega Oppenheimer. Reyndar var það svo að hann náði aldrei upp í efstu lög vísindanna sem kennimaður, fékk aldrei Nóbelinn og er líklega frægastur sem sá verkefnastjóri og skipuleggjandi sem hann var og var fyrir vikið kallaður faðir kjarnorkusprengjunnar, titill sem honum gramdist síðar meir.

Ný tækni - ný vopn

Við vitum að maðurinn sá fram á sögulok með tilurð kjarnorkusprengjunnar og í framhaldinu var raunveruleg hætta á að mannkynið myndi útrýma sjálfu sér. Þá sem nú, er það svo að þekking og aukið tæknistig skapa ný vopn. Við vitum að gervigreind og uppgötvanir í líftæki eru og verða alltaf tvíeggja sverð. Þegar tæknin er til staðar er freistandi að beita henni og hernaðarvélin hefur alltaf ríkuleg fjárráð. Hershöfðinginn Leslie Groves, frábærlega leikinn af Matt Damon, er enda óþreytandi við að minna á að Manhattan-verkefnið kostaði skattgreiðendur tvo milljarða Bandaríkjadala. Þeir fjármunir hefðu ekki verið tiltækir nema af því að þeir þjónuðu hernaðarlegum tilgangi á viðsjárverðum tímum.opp2

Nolan dregur fram margar af þeim stóru spurningum sem vakna á þessum tímamótum. Siðferðilega eru vísindamennirnir settir í einstaka stöðu, um leið erum við minnt á að stjórnmálin og hollusta skipta miklu í landi sem er að sigla inní hugmyndafræðilegt kalt stríð. Á þeim tíma vissu menn ekki endilega að stríðið yrði kalt og það má auðvitað velta fyrir sér hvort kjarnorkusprengjan hafi að endingu komið í veg fyrir hernaðarátök, slíkur hafi fælingarmáttur hennar verið. Nolan minnir á hin fleygu orð úr hindúaritninguna Bhagavad Gita: „Nú er ég Dauð­inn, eyð­ing­ar­afl heims­ins“ (e. Now I am become Death, the destroyer of worlds), sem Oppenheimer á að hafa mælt fram þegar tilraunasprengja var sprengd við Los Alamos. Einnig minnir Nolan á þessi orð við heldur sérkennilegar aðstæður, nánast sem frygðarlyf ástkonunnar Jean Tatlock, hvers atóm virðast heldur óreiðukennd, svo ekki sé meira sagt.

Hlutverk Einsteins

Vísindamennirnir í myndinni lifa einstaka tíma. Verkleg eðlisfræði og rannsóknir eru á fleygiferð og tekst smám saman að renna stoðum undir hina fræðilegu eðlisfræði sem hafði tekið risastökk með afstæðiskenningu Alberts Einsteins (1879-1955) á fyrstu tveimur áratugum 20. aldarinnar. J. Robert Oppenheimer er af næstu kynslóð vísindamanna, kynslóð sem grefur sig í skammtafræði sem Einstein átti erfitt með að meðtaka og eftir honum er höfð fræg setning þar um: „Guð leikur sér ekki með teninga.“ Hvað á hann við? Jú, sérstaka og almenna afstæðiskenningin höfðu skapað róttæka nýja leið til að hugsa um rými og tíma og virk samskipti þeirra við efni og orku. Þessar kenningar voru í fullu samræmi við „lögmæta sátt“ guðs sem Einstein virtist umhugað um. En nýja kenningin um skammtafræði, sem Einstein hafði einnig hjálpað til við að finna árið 1905, sagði aðra sögu. Skammtafræði fjallar um víxlverkanir sem tengjast efni og geislun, á kvarða frumeinda og sameinda, settar í óbeinan bakgrunn rýmis og tíma.opp3

Einstein birtist í myndinni nokkrum sinnum, ýmist sem fjarlægur skuggi eða góðlegur jólasveinn í meðförum leikarans Tom Conti. Einstein var hins vegar örlagavaldur þegar kom að smíði sprengjunnar. Ungverski eðlisfræðingurinn Leo Szilard hafði áhyggjur af því að Þýskaland nasismans myndi þróa kjarnorkusprengju og náði að sannfæra Albert Einstein, sem einnig var gyðingur sem hafði flúið nasista í Þýskalandi, um að senda Roosevelt forseta bréf strax í ágúst 1939, ári eftir að menn höfðu fyrst klofið atómið. Einstein taldi sig ekki hafa hvatt til smíði sprengju en stuðlaði að því að fræðilegar rannsóknir urðu efldar. Engin vafi er á því að bréf Einstein skipti miklu þó nokkur ár hafi liðið þar til Manhattan-verkefninu var hrint af stað.oppein

Gyðingar slá til baka

Stór hluti þess fræðaheims eðlisfræðinnar sem hér kemur að málum var af gyðingaættum og þangað sækja þeir siðferðilega réttlætingu þess að taka þátt í Manhattan-verkefninu, kjarnorkusprengja í höndum nasista væri skelfing sem yrði að stöðva. Þegar síðan nasistar gefast upp hverfa þessi rök og að lokum vefst fyrir vísindamönnunum nauðsyn þess að kasta sprengju á Japan og eðlilega verður mönnum um og ó þegar þeir sjá afleiðingar sprengjunnar á japönskum almenningi. Deilan um nauðsyn þess að nota sprengjuna er flókin en er ágætlega ávörpuð í myndinni.

Það kemur í hlut Harrys S. Trumans forseta, leikinn af Gary Oldman, að taka ákvörðunina og Nolan setur upp heldur hjákátlegan fund Oppenheimer með Truman forseta í október 1945. „Herra forseti, mér finnst ég vera með blóð á höndunum,“ á Oppenheimer að hafa sagt við Truman, samkvæmt „American Prometheus,“ ævisögu Oppenheimer frá 2005 eftir höfundanna Kai Bird og Martin J. Sherwin en Nolan notast mjög við þá sögu við handritsgerðina. Önnur ævisaga segir að Truman hafi svarað með því að segja að það væri hann sem bæri ábyrgð á notkun sprengjunnar og á að hafa sagt við aðstoðarmenn sína að hann vildi ekki hitta þennan „vælukjóa“ aftur! Það er hins vegar merkilegt til þess að vita að þegar Roosevelt deyr í byrjun árs 1945 vissi varaforsetinn Truman ekkert af Manhattan-verkefninu.

Njósnir í þágu kommúnista

Á meðan á vinnu við sprengjuna stóð tók hún yfir allt, ströngustu öryggissjónarmiðum var vikið til hliðar. En strax að því verki loknu tók kalda stríð við og bandarískt þjóðfélag fór á hvolf eftir að Sovétmenn sprengdu fyrstu kjarnorkusprengjuna haustið 1949. Rökstuddar grunsemdir voru um að þeir hefði fengið upplýsingar um smíði hennar frá njósnurum og strax beindist athyglin að Oppenheimer og samstarfsmönnum hans. Margir og þar á meðal Oppenheimer sjálfur, höfðu sýnt sjónarmiðum kommúnista skilning þó fæstir hafi starfað neitt með þeim. Þá verður að horfa til þess að bandamenn börðust með Sovétmönnum gegn nasistum og margir töldu rétt að deila upplýsingum með þeim.opp5

Þann 29. mars 1951 voru bandarísku hjónin Júlíus og Ethel Rosenberg síðan fundin sek um njósnir fyrir Sovétmenn í heimsstyrjöldinni síðari. Var þeim meðal annars gefið á sök að hafa komið til þeirra leyndarmálum um smíði kjarnorkusprengjunnar. Tveimur árum síðar voru Rosenberghjónin tekin af lífi í rafmagnsstólnum i Sing Sing-fangelsinu. Þau játuðu aldrei sekt sína og síðan hefur oft verið um mál þeirra fjallað því að ýmsir hafa efast um að þau hafi verið sek. Það varð Oppenheimer erfitt þegar breski kjarnorkuvísindamaðurinn Klaus Fuchs, sem starfað hafði í Los Alamos í Nýju Mexíkó, var handtekin árið 1950 og gefið að sök að hafa njósnað í þágu Sovétmanna. Um síðir játaði hann sekt sína. Oppenheimer hafði borið ábyrgð á Fuchs og í myndinni er fjallað um hálf leynileg réttarhöld yfir Oppenheimer árið 1953 þegar hann dregst inn í McCarthyisman sem réði öllu framan af sjötta áratug síðustu aldar. Nolan vinnur með tvær sviðsmyndir réttarhalda og birtir þær í svarthvítri mynd. Réttardrama og yfirheyrslur eru forvitnilegar en Nolan virðist ekki geta afmarkað sig í söguþræðinum þar.opnol

Myndir og skynjun Nolans

Myndir Nolans eru yfirleitt áraun á skynjun áhorfandans. Myndmálið og sagan bæta þar úr. Það hefur reglulega hent Nolan að fara fram úr sér eins og í myndinni Tenet (frá 2020) en fram að hléi í þeirri mynd lifði sú von að hægt væri að skilja myndina en eftir hlé áttaði maður sig á að það var ekki að fara að gerast. Myndin Dunkirk (frá 2017) sýndi nýjan áhuga á epískum verkum. Nolan er stórt nafn í heimi kvikmyndanna og hann notar hér leikara á borð við Cillian Murphy, Robert Downey Jr., Emily Blunt, Matt Damon, Josh Hartnett, og Rami Malek og öll skila þau hlutverkum sínum vel. Það er ekki skrítið að þekktir leikarar vilji vera með í slíku stórvirki. Nolan hefði þó mátt hemja sig stundum og beitir ótæpilega ofskynjunartækjum, bæði í mynd og hljóði. Það breytir því ekki að hann hefur hér sett saman áhugaverða mynd um mjög svo forvitnileg tímamót í sögu mannkynsins.