c

Pistlar:

26. desember 2020 kl. 12:26

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Stórhugur Færeyinga í samgöngumálum

Það er vandasamt að reka rétt ríflega 50 þúsund manna samfélag á 18 litlum eyjum úti í Atlantshafinu, já jafnvel erfiðara en að reka 360 þúsund manna samfélag á margfalt stærri eyju eins og við Íslendingar erum að fást við. Til að slík samfélög geti þrifist, dreift gæðum til allra landsmanna og yfir höfuð náð samkeppnisstöðu gagnvart stærri samfélögum þurfa samgöngur að vera í lagi. Þetta vitum við Íslandi og þó margt hafi verið vel gert á undanförnum árum eigum við enn nokkuð í land með að geta tengt landsmenn á öruggan máta. Fyrir tíma Borgarfjarðarbrúarinnar og Hvalfjarðargangnanna tók það fólk á Vesturlandi hálfan dag að komast til Reykjavíkur.

Það er fróðlegt að sjá hvernig nágranar okkar í Færeyjum haga sínum samgöngumálum. Mikilvægt er að tryggja traustar og öruggar samgöngur milli þeirra. Færeyingar hafa ákveðið að fara leið jarðgangna og ekkert samfélag í heiminum hefur ráðist í samskonar framkvæmdir, sé miðað við höfðatöluna frægu. Og reyndar engin nærri.

Færeyjar eru samtals um 16 byggðar eyjar, fjalllendar og brattar í sjó fram. Oft á tíðum verða því greiðar samgöngur ekki leystar nema með veggöngum. Milli eyjanna er tenging með ferjum og ferjuflutningar eru hluti af samgöngukerfi eyjanna, en ferjuflutningar eru ýmsum takmörkunum háðir. Ferjur eru dýrar í rekstri sem gerir göng á milli eyja hagkvæmari til langs tíma litið. Í dag eru 20 veggöng í Færeyjum, samtals um 44 km, þar af tvenn neðansjávargöng (Vogeyjargöng og Norðureyjagöng), sem hvor tveggja voru greidd niður með veggjöldum en innheimtu lægri veggjalda haldið áfram til að mæta rekstrarkostnaði ganganna.göng

Hringtorg undir sjó

Nokkrir verkfræðingar birtu fróðlega grein í Morgunblaðinu skömmu fyrir jól þar sem vakin var athygli á því að þá voru Færeyingar að opna ný og vegleg veggöng sem liggja neðansjávar milli Straumeyjar og Austureyjar og bera heitið Austureyjargöng. Göngin eru stærsta einstaka samgöngumannvirki sem gert hefur verið á eyjunum, 11,4 km löng. Göngin liggja frá Hvítanesi á Straumey um 7,5 km leið að mögnuðu hringtorgi, sem er um 50 m undir sjávarbotni, skammt innan við fjarðarmynni Skálafjarðar við Austurey. Frá hringtorginu liggja sín göngin hvor, um 1,7 og 2,2 km löng, hvor að sínu bæjarfélagi, Rúnavík og Strendur. Lægst liggja göngin 187 metra undir sjávarmáli. Öll framkvæmdin er hið mesta undur.

Að stytta vegalengdir og ferðatíma

Tilgangur ganganna er að stytta vegalengdir og ferðatíma. Í dag er brú á milli Straumeyjar og Austureyjar, þar sem styst er milli þessara eyja, en með Austureyjargöngum styttist ferðatími íbúa í fyrrnefndum bæjarfélögum, Rúnavík og Ströndum og nærumhverfi, til Þórshafnar um tæpan klukkutíma. Þá styttist einnig ferðatími íbúa Klakksvíkur á Borðey, sem er næststærsta bæjarfélag Færeyja, til Þórshafnar um hálfa klukkustund.

Auk Austureyjarganga er samtímis unnið að gerð Sandeyjarganga, um 10,7 km langra neðansjávarganga frá ferjuhöfninni við Gamlarætt sunnan Þórshafnar á Straumey yfir til Sandeyjar. Þau göng liggja lægst um 155 m undir sjávarmáli. Sprenging Sandeyjarganga hófst skömmu eftir að sprengivinnu í Austureyjargöngum lauk eða í júlí 2019 og í dag er búið að sprengja rúmlega 60% af gangalengdinni. Það hefur því verið unnið samtímis í þessum tvennum göngum frá 2019. Ef áætlanir ganga eftir verða Sandeyjargöng opnuð fyrir umferð sumarið 2023.austur

15% af vergri landsframleiðslu

Áætlaður heildarkostnaður við gerð hvorra tveggja þessara ganga er um 60 milljarðar króna (2,8 milljarðar DKK), sem er um 15% af vergri landsframleiðslu eyjanna. Samsvarandi tala hér væri nálægt 450 milljörðum króna.

Verkfræðingarnir þrír spyrja réttilega. Hvernig er þetta hægt í rúmlega 50.000 manna samfélagi? Hugmyndafræðin er sú að vegfarendur borgi göngin upp með veggjöldum. Áætluð umferð um Austureyjargöng er milli 5.000 og 6.000 ökutæki að meðaltali á dag, en umferð um Sandeyjargöng er áætluð um 500 ökutæki
að meðaltali. Stofnað var sérstakt félag um þessa gangagerð og rekstur hvorra tveggja ganganna, sem er í 100% eigu landsstjórnarinnar. Félagið hefur tekið lán fyrir öllum kostnaði með ríkisábyrgð og gat því fengið hagstæð lán. Framlag landsstjórnar er einungis ígildi árlegs rekstrarkostnaðar ferju til Sandeyjar, sem leggst af þegar göngin opnast. Veggjöld verða síðan innheimt af vegfarendum til að greiða niður kostnað við gerð og rekstur hvorra tveggja ganga. Umferð um Austureyjargöng er nógu mikil til að greiða niður kostnað við gerð og rekstur þeirra ganga á 18-20 árum. Þá verður haldið áfram að innheimta veggjöld fyrir akstur um Austureyjargöng og þau notuð til að greiða niður kostnað við gerð Sandeyjarganga, þar sem umferð er miklu minni og veggjöld þar duga ekki til að greiða niður kostnað við gerð þeirra ganga. Færeyingar hafa löngum litið svo á að góðar samgöngur og samgöngubætur séu undirstaða þess að þjóðin geti lifað og starfað sem ein heild.ggöng

Áfram grafið

Með opnun Austureyjar- og Sandeyjarganga bætast við tvenn neðansjávargöng og heildarlengd ganga í Færeyjum verður um 66 km. Áætlað er að göngin stytti ferðatíma um 70% íbúa Færeyja.

Auk þessara tvennra neðansjávarganga eru Færeyingar nú einnig með í gangi gerð um 2,5 km langra ganga á Suðurey (ný Hvalbiargöng) og 2 km langra ganga á Sandey (Dalsgöng). Bæði þessi verk eru unnin á vegum Landsverks (ígildi Vegagerðarinnar hér á landi), annað er útboðsverk og hitt er framkvæmt af eigin vinnuflokki Landsverks og unnið í föngum eftir því sem fjármagn fæst til. Einnig hafa Færeyingar ákveðið að hefja gerð nýrra ganga á Borðey (Klakksvík – Árnafjörður – Norðurtóftir) í stað eldri einbreiðra ganga.

Framtíðardraumurinn er göng milli Sandeyjar og Suðureyjar. Sennilega yrðu það tvenn göng samtals um 26 km. Þetta yrði mikið og dýrt mannvirki, kostar sennilega meira en gerð Austureyjar- og Sandeyjarganga samanlagt. Það sem rekur menn áfram að sögn greinarhöfunda er að fyrir liggur að endurnýja þarf ferju sem siglir milli Suðureyjar og Þórshafnar innan fárra ára (gamli Smyrill). Ný ferja gæti kostað um þriðjung af gangaverðinu og rekstur ferjunnar er áætlaður hærri en rekstur ganganna. Beðið er með ákvörðunartöku þar til reynsla er komin á rekstur Austureyjar- og Sandeyjarganga.

Byggt á grein þeirra Matthías Loftssonar, Björns A. Harðarsonar og Gísla Eiríkssonar.