c

Pistlar:

2. janúar 2021 kl. 18:05

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Áramót og tímamót


Við áramót standa allir jarðarbúar á tímamótum, nánast sjálfkrafa vegna þess að þá erum við öll minnt á að enginn stöðvar tímans þunga nið. Í dag tekst allur heimurinn á við þessi tímamót og deilir þeim í gegnum hið sameiginlega auga fjölmiðla og samfélagsmiðla sem mótar heimsmyndina. Öfugt við það sem einu sinni var, þegar áramót voru staðbundið fyrirbæri sem nánast ómögulegt var að deila nema með þeim sem stóðu þér næst. En þó að heimsbyggðin deili nú áramótum og það í miðjum heimsfaraldri þá eru þau einnig mjög persónubundin upplifun. Það sést ágætlega af því hvernig við hvert og eitt upplifum tímamótin. Allir keppast við að gera árið upp og líta fram á veginn. Um leið strengir fólk alskyns heit um betra og innihaldsríkara líf þar sem draumar og veruleik vegast á. Sumir ætla að gera stórbrotna breytingu á eigin lífi á meðan aðrir setja sér hógværari markmið. Allt skiptir þetta máli og sýnir um leið það stöðuga endurmat sem lífið okkar er í. Sagnfræðingurinn Herakleitos á að hafa sagt að maður stígi ekki tvisvar í sömu ána og Kristján fjallaskáld orti: Allt fram streymir endalaust, ár og dagar líða. Sálmaskáldið Valdimar Briem kvað:
Nú árið er liðið í aldanna skaut
og aldrei það kemur til baka,
nú gengin er sérhver þess gleði og þraut,
það gjörvallt er runnið á eilífðar braut,
en minning þess víst skal þó vaka.aram

Flestir bjartsýnir

En þó hin persónulegu tímamót séu okkur mikilvæg þá er einnig fróðlegt að leggja mat á hvert við stefnum sem þjóðfélag og reyndar heimurinn allur. Það er reyndar svo að almennt ríkir framfaratrú, við trúum því að heimurinn fari batnandi þó að stundum virðist manni að þjóðfélagsumræðan segi annað.

Það er hins vegar þannig að þrír af hverjum fjórum sem taka afstöðu telja að árið 2021 verði betra fyrir sig í samanburði við árið 2020. Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar könnunar sem Zenter rannsóknir unnu fyrir Fréttablaðið. Fjögur prósent telja að árið í ár verði verra en það síðasta, þar af telja tvö prósent að það verði mun verra. 19 prósent landsmanna telja að nýja árið verði svipað og það gamla.

Fréttablaðið spurði Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands út í niðurstöðuna og hann svaraði bjartsýn: „Ég fagna því að við áramót horfi flestir landsmenn björtum augum fram á veg,“ segir forsetinn og bætir við: „Nú mætti auðvitað segja að litla bjartsýni þurfi til að telja að nýhafið ár geti ekki orðið verra en 2020, ár veiru og veikinda, sóttvarna og þrenginga. En þessi vongleði, sem könnunin lýsir, er ekki út í bláinn. Bóluefni kemur heimsbyggðinni til bjargar, frábær vitnisburður um það hvernig vísindi og þekking hjálpa okkur á framfarabraut.“

Ekki nóg með það, forsetinn er einnig bjartsýn um að heiminn fara batnandi. „Auðvitað er svo ótalmargt sem enn má betur fara um víða veröld. En heimur batnandi fer, þrátt fyrir allt. Það er nánast sama við hvaða mælikvarða er stuðst. Á heildina litið vænkast hagur mannkyns með hverri kynslóð. Heilsa fólks er betri, afkoma vænlegri. Jafnrétti eykst smám saman og hvers kyns mannréttindi sömuleiðis, jafnvel þar sem þau voru áður fótum troðin. Friður ríkir víða þar sem áður var óöld. Loftslagsvá er hægt að mæta með vitundarvakningu og tækniframförum,“ segir forsetinn. Það er auðvitað nauðsynlegt að þeir sem móta orðræðuna skili til fólks bjartsýni sem elur af sér þrek og þor. Hér í pistlum hefur oft verið reynt að setja hlutina í samhengi og sýna að það er ekki ástæða til að reka þjóðfélagsumræðuna áfram með svartagallsrausi. Nútímamaðurinn er í einstakri aðstöðu til að sigrast á þeim erfiðleikum sem að steðja eins og sést af þeirri einstöku vísindavinnu sem birtist í framleiðslu á nýju bóluefni svo stuttu eftir að farsóttin kemur fram.

Hin sammannlega minning

Sálmurinn sem vitnað var hér til áðan birtist fyrst í sálmabók árið 1886 en hefðin er að syngja hann á miðnætti um áramót. Sá siður hófst síðar eða á fyrsta gamlárskvöld útvarpsins árið 1930. Þar með tók fjölmiðill að sér að búa til sameiginlega minningu. Það eru slíkar minningar sem skipta máli eins og þau skilaboð sem við fáum úr hátíðaræðum við áramót. Ekki verður séð annað en að forseti okkar sé að senda okkur slík skilaboð í þessum orðum sínum:

„Hér á Íslandi höfum við líka allar forsendur til að styrkja enn frekar öflugt samfélag, samfélag þar sem fólk fær tækifæri til að sýna hvað í því býr, sjálfu sér og öðrum til heilla, en samhjálp og samkennd ríkir sömuleiðis.“

Ég óska landsmönnum gleðilegs nýs árs.