c

Pistlar:

22. febrúar 2021 kl. 21:30

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Gullregn og spilling

Fyrir stuttu voru þættirnir Gullregn sýnd í Ríkissjónvarpinu en þeir fjalla um „kerfissérfræðinginn“ Indíönu Georgíu sem lifir á bótum og reynir um leið að ala upp aðra kynslóð bótaþega. Bótasvikin eru þó ekki kjarni þessarar ágætu þáttaraðar heldur lygin sem fólkið býr við og eitrar líf þess og dregur að lokum allan dug úr þeim. En svikin við sjálfan sig og samfélagið eru samt áberandi og þættirnir sitja í áhorfendum.

Umræða um möguleg bótasvik hér á landi hefur lengi verið tabú í íslenskri umræðu. Minnistætt er þegar fréttamenn Ríkissjónvarpsins töldu sig hafa jarðað gamla skýrslu Ríkisendurskoðunar þar sem þessi staðreynd var borin fram. Virtist þá sem undir engum kringumstæðum mætti taka undir þessa niðurstöðu Ríkisendurskoðunar. Í því ljósi var fróðlegt að lesa frásögn Sigurbjörns Sveinssonar, fyrrverandi formanns Læknafélags Íslands, í Morgunblaðinu á síðasta ári. Þar sagði hann frá eindregnum óskum og vilja þungaðra kvenna til að svíkja fé út úr bótakerfinu með því að herja á lækna til að fá sig skráðar veikar mánuðina fyrir fæðingu. Þessar upplýsingar fengu litla athygli en af grein læknisins mátti ráða að þetta væri nokkuð algengt. Ef til vill var þessi frásögn haldbær vísbending um viðhorfa margra til bótakerfisins.

Oft þegar rætt er um spillingu í íslensku samfélagi er mikil áhersla lögð á að einhverjir kunni að hafa komið fé undan skatti, ekki greitt skattinum það sem honum bæri. Sjaldan eða aldrei hefur nein umræða um spillingu tengst þeim sem stela frá skattinum, eins og til dæmis þeim sem svíkja út bætur. Erlendis er mikið gert úr því þegar einhver er tekinn fyrir bótasvik. Dæmi eru um að myndir hafi birst af einstaklingum hlaupa maraþon, en eru samt á fullum bótum þar sem viðkomandi eru skráðir farlama í kerfinu.gullr

Nokkur umræða hefur verið um spillingu hér á landi að undanförnu í ljósi umfjöllunar Viðskiptablaðsins um aðferðafræði Íslandsdeildar Transparency International, en samtökin hafa gert sig nokkuð gildandi undanfarið. Það hafa þau ekki síst gert með því að ráða starfsmann og taka upp alþjóðlegt heiti í stað þess að heita áfram því kjarnyrta íslenska orði Gagnsæi. Með starfi sínu hefur Transparency International sett kastljósið á spillingu í íslensku samfélagi og er bara sjálfsagt að taka með þeim þá umræðu og undanskilja þá ekki bótasvikin. Ef að bótasvik eru alþjóðlega viðurkennt vandamál, af hverju ættu þau þá ekki einnig að vera framin hér á landi?

Frændhygli eða skipuleg glæpastarfsemi

Pistlaskrifari hefur frá fornu fari haft áhuga á öllu sem tengist spillingu og skrifaði gjarnan um það þegar fáir sýndu því áhuga. Líklega er það svo að í eina tíð vanmátu menn spillingu á Íslandi, töldu það kannski eðlilega vinagreiða eða frændhygli. Mörgum kann að þykja eðlilegt og sjálfsagt að vinir og ættingjar hjálpi hver öðrum en það er auðvitað alltaf spurning hve langt það gengur. En samfélagið bjó hér lengi við ákveðið helmingaskiptakerfi sem náði til stjórnmála og atvinnulífs. Það var óheilbrigt kerfi en breytir því ekki að á þeim tíma var Ísland talið saklaust land og að mestu laust við spillingu. Sjálfsagt horfðu menn til þess að hér var ekki og hefur ekki verið mútuþjóðfélag þar sem peningar eru réttir yfir borðið til að fá þjónustu eða fyrirgreiðslu. Það skiptir einnig máli að skipuleg glæpastarfsemi hefur ekki fest rætur hér á landi en með henni fylgir oft spilling í skugga ofbeldis sem er annar og verri heimur. Nú höfum við hins vegar fengið innsýn í slíkan heim í kjölfar hryllilegs atburðar í Rauðagerði. Þá bregður svo við að talsmenn meira eftirlits með spillingu (og glæpum) þegja þunnu hljóði og virðast fremur vilja tala niður alvarleika málsins en kryfja það til mergjar.

Frá vanmati til ofmats

En hafi spilling innan stjórnmála og viðskiptalífs verið vanmetin á sínum tíma þá gæti hún verið ofmetin nú. Að minnsta kosti getur verið erfitt að sjá að íslenskt samfélag fóstri með sér meiri spillingu en nágranalöndin. Hugsanlega öðru vísi spillingu en tæpast meiri auk þess sem undanfarin misseri hefur verið gripið til margvíslegra lagasetninga í þeim tilgangi að sporna við slíku. Á þetta benti Brynjar Níelsson alþingismaður á í ágætri grein. Lítið virðist horft til þess í úttekt Transparency International. Þess vegna er eðlilegt að menn beini sjónum sínum að aðferðafræði Íslandsdeildar samtakanna og hverjir stýra för. Að því leyti var greining Viðskiptablaðsins þörf.

Það er nefnilega stórmerkilegt að ein mæling á spillingu er hve mikið er um hana rætt. Þannig geta áhugamenn um að auka umræðu um spillingu í fjölmiðlum mælt aukna spillingu þar sem hluti af mælingunni er einmitt tíðni umræðu um spillingu! Þannig má ætla að ef nýr starfsmaður Transparency International verði iðinn við að koma fram í fjölmiðlum og ræða um spillingu þá aukist samhliða spillingin í landinu og þar með þörfin fyrir að spyrna enn fastari fótum gegn sívaxandi spillingunni!

Í stjórnmálaumhverfi nútímans eru til dæmis Píratar fyrirferðamiklir en þeir hafa tekið sér stöðu ákærandans í hinni pólitísku umræðu eins og áður hefur verið bent á hér í pistlum. Ekki skal gert lítið úr vilja þeirra til að uppræta spillingu en það er heldur ekki hægt að horfa framhjá því að það er þeim pólitískur ávinningur að halda umræðu um hana á lofti, á sínum forsendum.

Í pólitískt dómarasæti

Það er sömuleiðis galli við nálgun Transparency International að þar virðist pólitísk vinstrislagsíða einkennandi. Að samtökunum stendur hópur sem virðist fyrst og fremst hafa áhuga á að setja sig í dómarasæti yfir borgaralega sinnuðum pólitískum andstæðingum. Hugsanlega er það misskilningur hjá pistlaskrifara en einstök ummæli og samsetning þeirra sem starfa hjá Íslandsdeild Transparency International ýta undir slíkar vangaveltur. Það styrkir ekki aðferðafræði þeirra að sækja dæmi um spillingu inn í umdeild mál sem eru enn til umræðu. Nærtækt dæmi er Samherjamálið sem engin leið er að ráða í hvernig mun lykta. Það að málið sé komið til meðhöndlunar í namibísku réttarkerfi þarf ekki að segja neitt um spillingu á Íslandi. Ef það meinta framferði sem tekið er fyrir í Namibíu hefði átt sér stað á Íslandi væri það annað mál. Frásagnir af réttarfari í Namibíu vekja ekki traust og ástæða til að efast um að að þar fái menn óvilhalla meðferð.

Þegar efni frá Gagnsæi/Transparency International er lesið er stundum erfitt að átta sig á afmörkun og skilgreiningum en þó ekki síður sagnfræðilegum túlkunum eins og þessum: „Vandinn við þrönga skilgreiningu spillingar er að með henni er horft fram hjá þeirri staðreynd að stjórnsýsla vestrænna ríkja hefur á undanförnum 20-30 árum verið að umbreytast og færast frá miðstýrðu valdi ríkisins yfir í dreifstýrt kerfi markaðshagsmuna. Þetta umhverfi umbreytinga hefur borið með sér nýja og aukna spillingarhvata og freistnivanda í viðskiptum og stjórnmálum. Nýsköpunin í leiðum til að hagnast persónulega á kostnað samfélagsins hefur blómstrað og í raun sett lýðræðislega og pólitíska ábyrgð í uppnám. En um leið og spillingarhvatar hafa aukist, hefur spilling orðið ósýnilegri.“ Það getur hugsast að fjölbreyttara þjóðfélag búi til nýjar leiðir en á að skilja þessa sögutúlkun þannig að það sé minni spilling eftir því sem kerfið er miðstýrðara? Er Norður-Kórea draumalandið? Þarna virðist nefnilega birtast ákveðin trú að eitthvað í markaðsþjóðfélagi nútímans stuðli sérstaklega að spillingu. Það er fráleit nálgun.