c

Pistlar:

3. mars 2021 kl. 22:52

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Coumo er fallandi stjarna demókrata

Segja má að ástandið í bandarískum stjórnmálum og fjölmiðlaumfjöllun þeim tengd einkennist af eftirköstum baráttunnar við Donald Trump, svona nokkurskonar post-Trump tímabil segja sumir stjórnmálaskýrendur og við blasir að menn eru enn að meta það sem gekk á og skilja atburðarásina. Uppákomur tengdar kórónuverunni vega þar þungt en segja má að hún hafi öðru fremur stuðlað að falli Donalds Trumps enda stóð hann ágætlega í könnunum áður en veiran kom til skjalanna eins og hefur áður verið vikið að hér í pistlum.

En augljóslega verður fyrsta uppgjörið við Andrew Coumo, ríkisstjóra New York-ríkis en margir álitsgjafar, bæði í Bandaríkjunum og hér heima á Íslandi, töldu hann hugsanlegan forsetaframbjóðanda fyrir demókrata, í það minnsta framtíðarleiðtoga þess ágæta flokks eins og Egill Helgason sjónvarpsmaður sagði í pistli við það tilefni. Þessa skoðun byggðu stuðningsmenn demókrata á því sem þeir töldu einarða framkomu hans í faraldrinum og því að Cuomo var í fararbroddi þeirra sem gagnrýndu Trump. En nú er er Cuomo sjálfur í vandræðum og það á mörgum vígstöðvum og augljóst að bæði þarf að endurmeta persónuleg heilindi hans og framkomu en þó ekki síður ákvarðanir.rs_634x1024-200324073449-634-cuomos-gj-3-24-20

CNN í súpunni

Andrew Coumo situr nú undir alvarlegum ásökunum fyrir kynferðislega áreitni auk þess sem komið hefur í ljós það sem mætti telja stórkostlega vanhæfi við stjórn heilbrigðismála New York á meðan á kórónuveirufaraldrinum stóð. Segja má að bæði demókratar og fjölmiðlar sitji saman í þessum pytti en Cuomo var mjög hampað af þeim báðum. Mestu skipti þó samstarf þeirra Coumo-bræðra en yngri bróðirinn Chris er vinsæll þáttastjórnandi hjá CNN sjónvarpsstöðinni. Nú keppast fjölmiðlar og pistlahöfundar við að gagnrýna hvernig þeir bræður stóðu að málum og þó ekki síst hvað CNN leyfði þeim að gera eins og kom fram í nýlegum fjölmiðlapistli eftir Margaret Sullivan í The Washington Post. Í miðjum faraldrinum á síðasta ári þótti nefnilega tilvalið að stilla þeim saman í sérstökum sjónvarpsþætti og þá urðu skilin á milli fjölmiðlamanns og stjórnmálamanns ákaflega óljós. Sjónvarpsmaðurinn Chris fékk leyfi hjá stjórnendum CNN til að kalla Andrew bróður sinn til liðs við sig og svo sátu þeir og spjölluðu um heima og geima, oft um pólitík og hvað Trump væri vonlaus og vitlaus en svo inn á milli kýttu þeir eins og bræður og rifust um hvort að spagettíið hennar mömmu hefði verið betra með þessari eða hinni sósunni. Allt mjög heimilislegt. Menn rifja nú upp að í eina tíð var ákveðið af stjórnendum CNN að Chris fjallaði ekki um bróður sinn en svo var því skyndilega vikið til hliðar. Augljóslega hefur trúverðugleiki CNN beðið hnekki.

Velþekkt MeToo atburðarás

En önnur mál eru alvarlegri og nú líður varla sá dagur að ný kona gefi sig ekki fram og greini frá því að hún hafi orðið fyrir kynferðislegu áreiti af hálfu ríkisstjórans. Lindsey Boylan, fyrrverandi aðstoðarkona Cuomos, byrjaði á því að sakar hann um fjölda brota á meðan hún vann fyrir hann frá 2015 til 2018 og fljótlega bættust fleiri konur í hópinn. Andrew Cuomo virðist þannig vera að sogast inn í velþekkta MeToo atburðarás og menn eru farnir að velta fyrir sér hvort pólitískur ferill hans sé ekki á enda en hann hefur verið ríkisstjóri New York síðan 2011. Borgin er eitt helsta vígi demókrata í Bandaríkjunum og öruggt má telja að þeir fórni honum frekar en að reyna að verja hann. Ólíklegt er talið að málið hafi áhrif á stuðning við demókrata í borginni sem ætla ekki að bakka Cuomo upp og nú í vikunni bættist Bill de Blasio, borgarstjóri New York, í hóp þeirra sem krefjast ítarlegrar rannsóknar á ásökunum á hendur honum.

Þessar ásakanir um kynferðislega áreitni virðast hafa verið lengi að komast upp á yfirborðið en þær ná langt aftur í tímann og af frásögnum að ráða virðist sem hegðun ríkisstjórans hafi verið ansi frjálsleg. Hugsanlega gátu menn sloppið með ýmislegt af því sem hann er nú sakaður um í upphafi ferils hans en ekki núna. Sumar sögurnar eru grátbroslegar eins og tilhneiging Cuomo til að draga fram digra vindla fyrir framan konur og segja að þeir séu gjöf frá Bill Clinton! Nú eða stinga ítrekað upp á því við samstarfskonur að koma í fatapóker. Konunum var ekki skemmt og fjölmiðlar virðast ganga út frá því að fleiri mál af líkum toga séu á leiðinni.

Hjúkrunarheimilin dauðagildra?

En alvarlegastar verða þó að teljast ákvarðanir hans í baráttunni við veiruna en alríkissaksóknarar í New York rannsaka nú hvort ríkisstjórn Cuomos hafi vísvitandi falið gögn yfir fjölda látinna á hjúkrunarheimilum af völdum kórónuveirunnar. Eftir að stjórn hans var sökuð um að vanmeta dánartíðni á hjúkrunarheimilum vegna sjúkdómsins svo nemur nokkur þúsund var upplýst að 15 þúsund hafi látist vegna kórónuveirunnar, en ekki 8.500 eins og sagt var áður. Þetta eru alvarlegar ásakanir þar sem undir forystu Cuomo var ákveðið að senda þá öldruðu einstaklinga sem voru veikir inn á hjúkrunarheimili til þess að spítalarnir gætu haldið áfram að taka við yngra fólkinu. Þannig var eldra fólkið nánast sett vísvitandi í hættu. Cuomo hefur beðist afsökunar á talnamisræminu en ólíklegt er að það dugi, að öllum líkindum verður rannsókn hrint af stað sem getur haft afdrifarík áhrif á feril hans.