c

Pistlar:

6. apríl 2021 kl. 16:49

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Ísland - grænast í heimi?

Hún var ekki stór fréttin í Fréttablaðinu síðasta laugardag en hún greindi frá því að Ísland væri nú í efsta sæti yfir umhverfisvænustu lönd heims. Hvernig fundu menn það út? Jú, reiknaður var stuðull byggður á kolefnislosun, orkuskiptum, grænum lífsstíl, nýsköpun og umhverfisstefnu stjórnvalda. Ísland skoraði 6,45 á stuðlinum, ögn hærra en Danmörk. Á meðal annarra hæstu landa sem skoruðu hátt má nefna Noreg, Frakkland og Írland. Alls náði rannsóknin til 76 landa og í neðstu sætum höfnuðu Rússland, Íran og Paragvæ. Þetta var samkvæmt tímariti Tækniháskólans í Massachusetts í Bandaríkjunum (MIT).

Þetta er andstætt því sem margir halda fram í umræðunni hér á Íslandi en sumir virðast meta svo að það sé heppilegt að segja söguna öðru vísi, helst þannig að það sé eins og Íslendingar séu jafnvel sérstakir eftirbátar annarra í loftslagsmálum og eigi þar af leiðandi að taka á sig meiri og erfiðari skuldbindingar en aðrir. Hér í pistlum hefur oft verið vikið að góðri stöðu Íslendinga í umhverfismálum en hin pólitíska umræða er eigi að síður oftar en ekki andsnúin skynsömum lausnum sem við höfum þó ástundað og sýnt viðleitni til að halda áfram. Á flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar fyrr í vetur sagði formaðurinn í ræðu. „Aukinn metnaður í loftslagsmálum verður að komast á dagskrá nýrrar ríkisstjórnar; Því ef okkur á að takast að stöðva bruna jarðefnaeldsneytis, draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og verða leiðandi í grænni uppbyggingu verða stjórnvöld að taka frumkvæði og ryðja brautina. Því er mikilvægt að Samfylkingin myndi næstu ríkisstjórn með flokkum sem eru tilbúnir í þá vegferð.“foss

Í ræðunni var erfitt að finna rökréttar lausnir eða málefnastöðu sem getur varðað leiðina til þess að nálgast þessi mál af skynsemi. Því miður er það svo að oft er erfitt að brjótast í gegn um umræðuna hér á landi þar sem umhverfisstjórnmál hafa bundist á klafa aukinnar skattlagningar og aukinna ríkisumsvifa í kjölfar þess að Vinstrihreyfingin – grænt framboð var stofnuð skömmu fyrir síðustu aldamót þegar þessi mál voru að verða fyrirferðameiri.

Stofnun VG og Neskaupsstaðarsósíalisminn

Óhætt er að segja að þýskir græningjar hafi orðið mörgum fyrirmynd í umhverfismálum, kannski ekki síst vegna þess árangurs sem þeir náðu á pólitíska sviðinu. En þýskir græningjar byggja á áratuga gamalli sögu umhverfisverndar sem varð til í landi sem þurfti að tryggja lífsgæði samhliða þungaiðnaði og aldarlangri áraun á náttúru landsins.

Staðreyndin er sú að á Íslandi er ekkert sambærilegt stjórnmálaafl við þýsku græningjana og hér virðist meira að segja allt annar skilningur á inntaki græningjastefnunnar. Þetta birtist meðal annars í þeim meginmisskilning í röðum þeirra, sem nota græna slikju til að skreyta sinn pólitíska fjaðurhatt, að þungaiðnaður sé andstæða þess, sem grænt getur talist. Það lýsir staðbundinni þröngsýni sem horfist ekki í augu við að loftslagsmál verður að hugsa hnattrænt.

Freistandi gæti verið að segja að þetta eigi sér ákveðnar sögulegar rætur því þegar Steingrímur J. Sigfússon stofnaði Vinstrihreyfinguna – grænt framboð vakti fyrst og fremst fyrir honum að aðgreina sig frá Samfylkingunni. Hugsanlega skipti það meiru máli en að fram kæmi svo mótuð stefna í þessum málaflokki. Síðar hefur þetta sannast þar sem Steingrímur J. hefur reynst fremur hallur undir orkufrek atvinnuúrræði. Að því leyti er hann fremur í hópi gömlu þungaiðnaðarsósíalistanna eða atvinnusósíalista eins og þá sem urðu til á Neskaupsstað. Hugsanlega á verður þessi stefna hellst kölluð framsóknarstefna með fjallagrasabragði!

Fyrir stuttu mátti hlust á stjórnmálaskýringaþátt á Hringbraut hjá Birni Jóni Bragasyni (Stjórnmál og saga) þar sem hann var með skemmtilegan viðmælenda Guðbjörn Guðbjörnsson, fyrrverandi stórsöngvara og tollvörð. Þeir ræddu meðal annars um þýsk stjórnmál.

Græningjar eru miðjuafl

Guðbjörn dró þar upp athyglisverða mynd af stefnu og nálgun þýskra græningja í umhverfismálum. Hann benti á að Græningja í Þýskalandi sé ekki beint hægt að líkja saman við VG hér á landi því þeir eru ekki mjög vinstri sinnaðir. Nær væri að skilgreina þá umhverfissinna á miðju stjórnmálanna. Í raun væru Græningjar orðnir grænn borgaralegur fólksflokkur. Guðbjörn sagði að talað væri um þá sem „stabiliserandi“ pólitískt afl, en það eru orð sem enginn hefði trúað fyrir 20 árum síðan.

Guðbjörn benti á dæmi máli sínu til stuðnings en sigurvegari kosninganna í sambandsríkinu Baden-Württemberg, sem telur um 11 milljón íbúa, fyrir stuttu var án nokkurs vafa í raun hinn 73 ára gamli pólitíski refur og forsætisráðherra landsins til 10 ára, Winfried Kretschmann sem er praktískur græningi segir Guðbjörn. Hann hefur til dæmis stutt framleiðslu og notkun díselvéla af því að hann segir að þær séu orðnar svo hagkvæmar og þróaðar (auðvitað kemur hann frá ríki með höfuðstöðvar Benz). Þannig má segja að hann og Græningjar séu að leita að hagkvæmum skilvirkum lausnum sem ganga upp innan efnahagskerfisins og gefa fremur mælanlega niðurstöðu en ekki táknræna og tilfinningalega eins við eigum að venjast hér á Íslandi þar sem umhverfisstefna virðist oftar en ekki byggjast á einhverskonar afturhvarfi til fortíðar.