c

Pistlar:

22. júní 2021 kl. 15:14

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Fjör í kauphöllinni

Glaðhlakkalegur kunningi pistlaskrifara tilkynnti hróðugur fyrir hádegi að hann væri búinn að græða 190 þúsund af einnar milljóna króna fjárfestingu sinni í Íslandsbanka en viðskipti hófust með bréf bankans í morgun eftir velheppnað útboð. Umframeftirspurn reyndist gríðarleg og fjármálaráðherra birtist reglulega með sólskinsbros og tilkynnt að þetta hafi allt farið fram úr björtustu vonum. Fjárfestar virðast líka hamingjusamir og upphafsviðskiptin benda til þess að þeir sem voru á eftir skyndihagnaði geti vel við unað. Þeir sem borguðu milljón í gær fá tæplega 200.000 króna ávöxtun í dag.

Kauphöllin er kirkja hins kapítalíska samfélags og stýrist af græðgi og hræðslu. Hún er staðfesting þess að það er líklega löng­un­in í pen­inga sem dríf­ur sam­fé­lagið áfram. Þeir sem eru búnir að gefast upp á því reyna að komast í valdastöður í skömmtunarkerfum sósíalískra stjórnkerfa og verða svo ríkir þannig eins og Castró-ættin á Kúbu og annað slíkt hugsjónafólk. Völd og peningar eru hin sönnu frygðarlyf. Flestir vilja meira og meira og sumir vilja helst meira en hinir. Fáir eru þó jafn hreinskilnir og bandaríski rithöfundurinn Gore Vidal sem sagði eitthvað á þessa leið: „Í hvert skipti sem vini mínum gengur vel deyr eitthvað inni í mér.“ Ek­ert er jafn hræðilegt og að vera „skilinn eftir“ meðan aðrir njóta velgengni, jafnvel þó að maður hafi það ágætt. Þetta birtist með ágætum í kringum nýskráningar í Kauphöllinni.birna

Kauphöllin og ríkið

Auðvitað eru ekki allir sáttir. Fyrst er það hópurinn sem alls ekki vildi selja og telur að það fari best á því að ríkið eigi alla banka og fjármálastofnanir (og svo eiginlega allt annað líka). Þegar þeir hinir sömu eru spurðir að því hvort að það sé vegna þess að rekstur í höndum ríkisins sé svo farsæll þá er það ekki endilega skýringin. Einhverjir muna eftir síendurteknum framlögum til Byggðastofnunar og Íbúðalánasjóðs og þeir langminnugustu muna eftir því þegar ríkið varð að leggja Landsbankanum til umtalsverða fjármuni löngu fyrir einkavæðingu og löngulöngu fyrir bankahrun. En það er kannski önnur og gleymd Íslandssaga.

Þeir sem eru tortryggnir á eðli mannsins skilyrða andúð á rekstri og hagnaði ekki við einkageirann en oft er það svo að þeim hinum sömu er verst við ef einhver hagnast hugsanlega á þessu öllu saman. Þessa vegna eru margir pirraðir í dag og telja að 20 prósent upphafshækkun sýni að bankinn hafi verið undirverðlagður. Jú, vissulega var hann á lægra verði en Arion banki sem skráður er fyrir í Kauphöllinni (illu heilli segja hörðustu ríkisrekstrarsinnar) en það tíðkast nú oft að bjóða möguleika á hækkun við skráningu. Þetta er svona eins og upphafstilboð fyrir nýja viðskiptavini og því skyldu fjárfestar koma með spariféð sitt (já sumir eru með spariféð sitt undir) og fjárfesta í banka. Nú er það í höndum Birnu Einarsdóttur og hinna stúlknanna í Íslandsbanka að sýna að þær eru betri en Benedikt Gíslason og hinir strákarnir í Arion banka! Það skal tekið fram að þetta er sagt í gríni en svona sjá nú sumir heiminn. En auðvitað verður rekstur og afkoma bankanna borin saman svo lík er uppbygging þeirra.meðaltalsh

Kynningarafsláttur

Bandaríkin eru alfa og ómega markaðssinna og vel ríflega helmingur af öllum markaðsskráðum hlutafélögum eru þar, í verðmæti talið. Þar telja fjárfestar sjálfsagt að fá ríflega upphafshækkun og má sem dæmi taka að á fyrsta degi hækkuðu bréfin að meðaltali um 36 prósent á síðasta ári eins og meðfylgjandi mynd sýnir. Það er auðvitað met en að jafnaði hækka bréf um 15 til 20 prósent við skráningu (IPO) í Bandaríkjunum. Það gerðist árið 2004 þegar bréf Google voru skráð og upphafsfjárfestar fengu 19 prósent hækkun. En þeir sem dvöldu lengur fengu enn meiri hækkun.

Það er ekki langt síðan pistlaskrifari auglýsti eftir fleiri og áhugaverðari fyrirtækjum í Kauphöllina. Vel heppnuð skráning Íslandsbanka og Síldarvinnslunnar fyrir nokkrum vikum verður vonandi fleirum tilefni til að horfa þangað.