c

Pistlar:

12. júlí 2021 kl. 11:44

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Að gera allt úr engu

Það er stundum haft á orði að sumir geri allt úr engu á meðan aðrir geri allt að engu. Oft má undrast hæfileika og getu fólks sem alltaf er að og getur nánast unnið öll störf sem krefjast lagni og færni til hugar og handa. Völundarsmiðir voru þeir eitt sinn kallaðir og á fyrri tímum nutu þeir mikillar virðingar sem gátu gert allt úr engu. Það var kannski viðbúið í landi alsleysisins. En handverkið hefur notið virðingar mann fram af manni og listfengi handverksmannsins skóp mörg þau menningarverðmæti sem við undrumst og dáumst að í dag.della

Um helgina var skemmtilegt viðtal í Morgunblaðinu við einn af svokölluðu bílskúrsköllum, mann sem tekur ónýtar ryðhrúgur og gerir þá að glæsivögnum. Þetta er Aðalsteinn Ásgeirsson, Steini í Svissinum, sem sagður er vera goðsögn í íslenskum bílheimum. Í viðtalinu kemur fram að Steini er fæddur með bíladellu og tilefni viðtalsins er að hann hefur lokið við að gera upp enn einn bílinn, Pacer, árgerð 1978, sem kom við sögu í kvikmyndinni A Little Trip to Heaven og er sannarlega augnayndi. Steini er orðinn 75 ára en hvergi af baki dottinn segir í viðtalinu en hann hefur gert upp og endurbætt fjölda bíla. Sjálfur á hann sjö fornbíla. Þrjá Kadilakka, eina Korvettu, einn Lincoln, eina Límósínu, sem ekki er uppgerð, og svo Pacerinn. Þetta persónulega safn hans er glæsilegur vitnisburður um það tímabil sögunnar þegar sjálfrennireiðarnar voru hvað glæsilegastar.

Steini í Svissinum er ekki einn að. Við sjáum að félagar og meðlimir í fornbílaklúbbum eru margir og það vekur alltaf mikla athygli þegar þeir sýna gripi sína. Um leið fylgir oft með saga um að þessi eða hin endurgerðin hafi tekið þúsundir vinnustunda, en hverrar stundar virði segja þessir handverksmenn stoltir af sínu. Þessi endursköpunar og endurnýjunarvilji er ekki bundin við bíla. Mótorhjól, flugvélar og jafnvel gamlar dráttavélar eru endursmíðaðar og áhugi almennings ósvikin. Aðrir listasmiðir breyta gömlum hjöllum í hallir og margt af slíku tagi má tína til. Nú, það þarf ekki að taka fram að þessi vilji til endurnýtingar kemur sér vel í heimi sem þarf að huga að umhverfismálum á nýjan hátt. Það er kannski önnur saga.

Ólíkt verðmætamat

Það er óhætt að mæla með viðtalinu við Steina sem er bæði skemmtilegt og fróðlegt. En það vekur lesandann einnig til umhugsunar um verðmætamat og um leið skilning á því hvað fólk leggur til samfélagsins. Við erum vön umræðu um að það gangi illa að fá fólk inn í iðn- og handverksgreinar, af einhverjum ástæðum vill ungt fólk síður leggja þær fyrir sig. Á sama tíma eru listaskólar fullir af ungu hæfileikafólki sem einhverra hluta vegna telur að listabrautin sé farsælli en það að læra handverk. Margir listamenn eru vissulega færir handverksmenn og margir handverksmenn eru ótrúlegir listamenn þó þeir líti ekki þannig á sig. Hugsanlega mætti gera meira af því að kynna möguleika handverksins fyrir fólk sem hefur áhuga á að læra list. Hluti af því getur verið að sýna fordæmi úr sögunni.kirkj

Oddhögust allra

Á síðasta vetri var flutt þingsályktunartillaga um að heiðra minningu Margrétar hinar oddhögu í Skálholti. Fyrsti flutningsmaður var Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi. Því miður fékk tillagan ekki framgang en hún hefði dregið athygli að verkum Margrétar og ekki síður lista- og handverksfólks fyrri tíma. Margrét var prestskona í Skálholti á ofanverðum dögum Páls biskups Jónssonar og var eftir því sem sagan segir; „oddhögust allra manna á Íslandi“ um sína daga. Hvorki er vitað um föðurnafn hennar né ættir að öðru leyti. Það er merkilegt að Páll Jónsson Skálholtsbiskup (1155-1211) var framkvæmdamaður mikill og listunnandi. Í biskupstíð hans störfuðu margir listamenn í Skálholti og unnu gripi í þágu stólsins og skreyttu helgidóminn með fögrum verkum. Margrét var í þjónustu biskups ásamt fleiri listamönnum og bjó í Skálholti ásamt manni sínum og sinnti handverki af listfengi. Hún er ein örfárra listkvenna í veröldinni sem getið er með nafni og uppi voru á miðöldum.

Kvæði og sagnir höfðu í eina tíð það hlutverk að færa reynslu og þekkingu milli kynslóða, síðar fengu kvæði það hlutverk að tjá persónulega reynslu höfundarins. Segja má að þróun handverksins sé svipuð, um tíma hvarf það inn í verksmiðjuframleiðslu iðnbyltingarinnar og síðar í naumhyggju módernismans. Hugsanlega þurfum við meira á handverkinu að halda í framtíðinni í stað þess að treysta á að þrívíddarprentun leysi það af hólmi!